<$BlogRSDURL$>

apríl 08, 2003

Svona er þetta alltaf ef ég fer að skrifa dagbók. Sumir dagar eru svo ásetnir að ég kemst ekki til að skrifa neitt.

Best ég byrji á sunnudeginum - ég fór út að labba og það gaf mér góðan orkuskammt. Um kvöldið fór ég til Jóhönnu á Eiðum að klára að semja spurningar fyrir keppnina sem verður á miðvikudaginn. Okkur gekk alveg þokkalega og vorum búnar með allt um hálf ellefu. Keyrði heim og fór að sofa.

Í gær var svo einn af þessum dögum. Fundur allan daginn frá kl. 10 til kl. 5. Ágætur vinnufundur, en efnið ansi yfirgripsmikið til að klára frá á einum degi.
Svo átti bóndi minn afmæli, ég eldaði handa honum kvöldmat og fór svo með honum á aðalfund í félagi þar sem hann er formaður. Tímasetning þessa fundar var aldeilis undarleg "AFMÆLI FORMANNSINS" - og fundurinn var eiginlega mesti brandari. Ég velti því fyrir mér hvort ég væri komin á fund hjá Sovét- hinu forna eða hjá Sjálfstæðisflokknum - þetta var það sem menn kalla RÚSSNESKA KOSNINGU - afgreitt á mettíma og enginn kostur gafst á að ræða það neitt. "Þá skoðast það samþykkt" var mest endurtekni frasi fundarstjóra.

Í dag er framhaldsfundur, eða kannski bara vinna en ekki fundur. Við erum að reyna að setja okkur inn í verkferla sem við ætlum að færa inn í tölvukerfi. Ég eyði matartímanum mínum í þetta - verð örugglega komin í bælið eftir þessa viku, eilífar setur, lítil hreyfing og áframhald frá morgni fram á miðjar nætur. Það var verið að bjóða mér á fund hjá DeltaKappaGamma í kvöld. Veit ekki hvort ég nenni, sé til hvernig staðan verður seinnipartinn.

Þangað til næst .................


This page is powered by Blogger. Isn't yours?