<$BlogRSDURL$>

janúar 02, 2004

Gleðilegt ár !

Danni bróðir á afmæli í dag ! Til hamingju með það, Danni !

Danni er rólegi og yfirvegaði bróðirinn - þessi sem aldrei heyrðist mikið í en kom sínu fram engu að síður. Hann var ansi skemmtilegur krakki, leysti málin sjálfur ef hann mögulega gat. Þegar honum gekk illa að ferðast um á skíðunum sínum, fór hann bara af þeim, færði þau til með höndunum og hélt svo áfram. Þrjóskur ? Já, ef á þurfti að halda.

Björninn minn er fluttur að heiman - til útlanda - segir hann sjálfur, en Vestmannaeyjar eru nú innan lögsögu Íslands ennþá. Svona er það þegar ungir menn verða ástfangnir - þá skipta vegalengdir ekki máli. Ég á eftir að sakna hans en ef honum líður vel, er allt í lagi.


desember 31, 2003

Á Gulfiskastöðum var fjörugt, ekki síst þegar matur var í vatn settur .....

Kubbur var í fullu fjöri og Stubbur líka - gleðilegt ár í vændum á Gullfiskastöðum !!


Áramót á næsta leiti.

Þegar ég lít til baka er mér efst í huga að á þessu ári hafa þeir sem nærri mér standa sloppið við meiri háttar áföll.

Bílveltur, þar sem í hlut átti fólk sem skiptir mig máli, voru nokkrar. Í öllum tilfellum var fólkið nógu skynsamt til að vera í beltum og slapp.

Áramótaheitið er því: NOTA ALLTAF BÍLBELTI !!

Ég óska öllum sem þetta lesa gleðilegs og gæfuríks árs !


desember 30, 2003

Gullfiskarnir urðu agalega glaðir að sjá mig áðan - eða kannski þeir hafi bara verið svona svangir greyin. Ég hafði svo ekki brjóst í mér að slökkva ljósið hjá þeim.

Setjið ykkur bara í þeirra spor: Enginn matur í sólarhring og svo loksins þegar einhver matur væri á borð borinn, væru ljósin slökkt. Það logar ljós hjá gullfiskunum í nótt.

Kubbur og Stubbur biðja að heilsa .........

Í dag eiga Laufeyjarnar afmæli: Systir mín er 45 og bróðurdóttirin rúmlega tvítug !
Til hamingju báðar tvær !

Shit, ég á yngri systur sem er 45 ára !!!

Ég hef fengið nýtt hlutverk: Tímabundna umsjón með gullfiskabúri - þar sem aðalfiskarnir Kubbur og Stubbur eru við hestaheilsu, hitastigið á grænu svæði og dælan í gangi.

Kveðja úr gullfiskaskóginum !

desember 29, 2003

Þá erum við komin heim eftir árvissa "milli hátíða"- ferð á Norðfjörð. Alltaf jafn gaman að koma þangað, hitta foreldra, systkini, systkinabörn og vini. Lentum meira að segja á jólaballi á Kirkjumel, en þar hittast Norðfirskir sveitamenn og afkomendur þeirra, stundum í marga ættliði, dansa í kringum jólatré og syngja jólalögin, drekka kaffi og spjalla. Á svæðið mættu tveir galvaskir jólasveinar og töldu einhverjir sem til þeirra heyrðu að annar þeirra væri af nýrri kynslóð jólasveina og héti líklega Rammfalskur. Bróðir hans var öllu spakari og ráðsettari.
Ég hef reyndar rökstuddan grun um að þarna hafi verið á ferðinni grasbítur sá sem sjá má á þessari mynd:



Við drifum okkur heim í gærkvöldi þar sem frumburðurinn átti að mæta til vinnu í morgun.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?