<$BlogRSDURL$>

október 02, 2004

Rigning og eldavélaraunir ! 

Það fór að rigna í gær og rignir enn. Allt í lagi þar sem rigningin er nokkurn vegin lóðrétt og ekkert svo kalt heldur. Ætla að galla mig upp í göngutúr á eftir.

Við keyptum okkur nýja eldavél um daginn, þegar við vorum í höfuðborginni. Eldavélin er reyndar ekki rétta orðið, ofn og keramikhelluborð er betri lýsing.
Bóndinn reif gamla dótið í burtu strax eftir kvöldmat í gærkvöldi og ætlaði að smella græjunum á réttan stað. Ekkert mál að koma gamla dótinu burtu, en svo byrjaði ballið. Einhvers staðar leiddi nýja helluborðið út og sló rafmagninu út af öllu húsinu. Ofninn var þá settur inn í innréttinguna, en þá kom í ljós að það þurfti að færa tengilinn til að koma ofninum inn í innréttinguna. En ofninn komst í samband í gærkvöldi. Sama varð ekki sagt um helluborðið. Eftir samtal við söluaðilann í Reykjavík, fengum við rafvirkja á staðinn til að líta á gripinn og honum tókst að koma græjunni í gang. Húsið angar þessa stundina af þeirri ógeðfelldu lykt sem kemur þegar nýr ofn er hitaður í fyrsta skipti - OJ BARA!

Vinkona mín og sonur hennar flugu suður áðan eftir nokkurra daga dvöl í skóginum. Á eftir að sakna þeirra á gönguferðum mínum á næstunni.


október 01, 2004

Litadýrð og veðurblíða 

Mér hefur orðið tíðrætt um gott veður og fallega haustliti undanfarið. Kannski vegna þess að ég fer daglega í gönguferðir skv. læknisráði og sé á hverjum degi fleiri litbrigði og fallegri smáatriði um allan skóg.
Í dag var veðrið svo frábært að það var lyginni líkast. Ég fór um hádegisbilið í minn daglega leiðangur og var svo heppin að vinkona mín, kennari í verkfalli, og sonur hennar "alveg að verða 10 ára" eru í heimsókn í skóginum og fóru með mér. Það var sólskin, logn, 16 stiga hiti !! við fórum á ýmsa skemmtilega staði s.s. "leynihindberjastaðinn", sem flestir vita reyndar um, fjöruna, meðfram Kerlingaránni og víðar. Myndavélin var meðferðis í þetta skiptið og hér eru nokkur sýnishorn:

Reyniviður:


Fossinn í Kerlingaránni:


Felumynd: Hvar er Gunnar !


Miðað við að spáin hljóðaði upp á rigningu, er þetta ekki slæmt - ekki satt ?


september 29, 2004

Veðurfræði Borgfirðinga 

Þennan stein er að finna á Borgarfirði eystra. Hver þarf svo sem veðurfræðinga með sínar spár ?


Reyktur lundi 

Björninn og Eyjastúlkan eru flutt í íbúð hérna rétt hjá okkur. Í kvöld var okkur boðið í mat, matseðillinn hljóðaði upp á reyktan lunda með rófum, kartöflum og jafningi. Fyrsta skipti sem ég bragða þann fugl. Verð að segja að mér fannst hann eiginlega ekkert sérstakur, bara svona þokkalegur matur.
Dagurinn var annars bjartur og fallegur. Fór í klukkutíma göngutúr um hádegið, skógurinn er alveg ofboðslega fallegur núna, haustlitirnir í hámarki. Finn hvernig rösk ganga tekur í bak og fætur, stefni að því að ganga aðeins lengra á morgun en í dag. Vona bara að veðrið haldist sæmilegt.
Seinni hluta dagsins eyddi ég í gæluverkefni sem ber vinnuheitið "Lost in sveit - the Video". Er komin á góðan rekspöl með það.

september 28, 2004

Haustlitir 

Skógurinn er að taka á sig haustlitina og er orðinn alveg ólýsanlega fallegur. Hver dagur sýnir ný litbrigði í grænu, gulu og brúnu litasamspili. Veðrið er bjart og stillt og núna í morgun var allt hvíthélað.
Þarf að drífa mig í skógargöngu í dag, á að labba eins mikið og ég treysti mér til. Annars dunda ég mér við ýmis gæluverkefni í tölvunni. Eitt þeirra er að setja saman vídeó-klipp úr nokkrum ljósmyndum og tónlistarbútum. Er með forrit sem heitir ArcSoft VideoImpression, en finnst það ekki nógu skemmtilegt í notkun. Getur einhver bent mér á Shareware-forrit sem er þægilegt að nota í svona vinnu ?

september 26, 2004

Komin heim 

Oh, hvað það er gott að vera komin heim ! Í staðinn fyrir að vakna við umferðardyninn sem byrjaði í Kópavoginum svona um sex-leytið og jókst síðan jafnt og þétt fran undir kl. tíu, svaf ég eins og steinn fram til klukkan 9. Þá fór ég að losa svefninn, heyrði ekkert nema regndropa sem duttu létt á þakið. Ég ætla að vera vakandi fyrir því á næstunni hvað það er gott að búa hér í skóginum.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?