<$BlogRSDURL$>

september 20, 2003

Við hjónin skruppum áðan og tókum upp u.þ.b. helminginn af kartöflugarðinum okkar, þ.e. garði númer 2. Kartöflur eru mikið borðaðar á mínu heimili og hafðar með öllum mat, eins og ég hef einhvers staðar nefnt áður. Hvað um það, garður númer 1 er hérna í einu horninu á lóðinni hjá okkur, hann er lítill en í hann er farið daglega með pottinn alveg frá því fyrstu dagana í ágúst og langt fram eftir hausti. Garður nr. 2 er svo hér úti í sveit, þar sem tengdaforeldrar mínir rækta sína garðávexti.
Tengdapabbi sagði bóndanum frá því í morgun að það hefði fokið ofan af hluta af garðinum og best væri að taka það upp sem fyrst. Því snöruðumst við af stað í upptöku. Á einum og hálfum tíma tókum við upp um 150 kíló og eigum annað eins eftir. Uppskeran er gífurleg - ekkert óalgengt að undan einu grasi komi 6-8 stærðar kartöflur. Þær stærstu eru á stærð við stærstu gerð af eplum.

Svo er ég að elda hjartasúpu - súpu af lambahjörtum, með helling af rófum, gulrótum, blómkáli og hvítkáli, smávegis af hafragrjónum og salti. Það sem maður þarf að passa er að hreinsa hjörtun vel, láta þau liggja í vatni svolitla stund og hella því af, setja þau í hreint vatn og sjóða. Froðunni sem myndast við suðuna þarf svo að fleyta burt.
Auðvitað eru svo soðnar kartöflur með.
Þessi súpa er vinsælasta tegund kjötsúpu á mínu heimili.

september 18, 2003

Vinnufélagi minn kom áðan og tilkynnti að nú væri gott að eiga fulla skúffu af ullarsokkum. Ég tók undir það, því mér var kalt á fótunum.
Það sem hann meinti, var hins vegar að í okkar ágæta Kaupfélagi Héraðsbúa (sem reyndar heitir núna Sparkaup, en allir kalla samt Kaupfélagið) voru allir ullarsokkar uppseldir. Ítalirnir höfðu komið og keypt upp lagerinn. Og nú væri hægt að selja ullarsokka á uppsprengdu verði, bara ef maður ætti nóg af þeim.

Prjónakonur Íslands !
Nú er tækifærið !


Vetur ! 

Í morgun þurfti ég að skafa snjó af bílnum mínum í fyrsta skipti í haust. Ætli sé kominn vetur ? Vona ekki því mér finnst haustið alltaf svo góður tími. Skógurinn er svo fallegur í haustlitunum, veðrið oft gott - hægt að sitja úti á kvöldin í rökkrinu, bara klæða sig aðeins betur en á sumardegi. Þannig er þetta búið að vera núna í september og ég vil gjarnan hafa þetta þannig áfram.

Nanna er farin að hugsa um jólakræsingarnar. Það er fullsnemmt fyrir mig. Ég er vön að undirbúa jólin rétt áður en þau bresta á. Fresturinn er mislangur eftir aðstæðum, allt frá örfáum dögum upp í tvær vikur. Ég neita hins vegar alfarið að byrja jólaundirbúning fyrir 1. des. Oft hefur 9. desember, sem er afmælisdagur litlu systur minnar, minnt mig á að nú ætti ég að fara að byrja á einhverju, en ég þarf yfirleitt aðlögunartíma - svona einn tvo daga - þannig að tvær síðustu vikur fyrir jól er minn tími. Nanna hefur auðvitað þá afsökun að hún er að undirbúa jólaundirbúninginn (er þetta ekki dásamlegt !).

Svona er þetta - örlítil snjókoma og ég farin að blaðra um jólin !!

september 17, 2003

Fór í Kaupfélagið og fékk mér skyr brauð og ávexti. Þetta er ágætis matur þegar allt kemur til alls.

Það er komið haustveður allt í einu. Í gærmorgun var héla á bílnum mínum þegar ég fór í vinnuna og núna er komin norðaustan og rigning og mig langar ekkert að fara út til að kaupa mér eitthvað í hádegismat. Það er líka alveg hundleiðinlegt, venjulega enda ég í Kaupfélaginu og fæ mér skyr, ávexti og brauð. Mig langar samt oft í eitthvað betra en þeir staðir sem selja mat hérna eru dálitið fastir í mötuneytisfæði - handa sístækkandi hópi bílstjóra og vinnuvélagúbba - og svo "hamborgarar og franskar", sem eru ekki á mínum óskalista.

september 15, 2003

Af gefnu tilefni: Mynd af laxinum sem veiddist í gær !





Ég fór í réttir í gær - Melarétt í Fljótsdal. Oft hefur nú verið betra veður en núna, því rétt um það bil sem byrjað var að reka til réttar, brast á með hellirigningu og töluverðum vindi. Það kom ekki í veg fyrir að féð var rekið í réttina og dregið í dilka eins og vera ber. Kvenfélagskonurnar seldu sitt kaffi og með því í skúrnum og ég held að þær hafi haft nóg að gera - að minnsta kosti var vinsælt að stinga sér inn í skúrinn í verstu hryðjunum.
Ég brá mér auðvitað inn í almenninginn svona rétt til að rifja upp tilfinninguna við það að draga vænt hrútlamb í dilk. Ég vissi svo sem lítið hver átti hvaða mark en fékk samt prik hjá bændum fyrir að skilja hvað þeir áttu við þegar sögðu: Biti framan hægra og sýlt vinstra. eða eitthvað álíka. Ég kann þetta nokkurn veginn ennþá frá þeim árum þegar ég las allt sem ég komst yfir, þar á meðal bæði markaskrána og símaskrána. Ég komst jafnframt að því að æ fleiri líta bara á bæjarnúmerið sem oft má finna á eyrnamerkjum úr plasti eða áli. Já heimur versnandi fer !!

Svona var umhorfs í réttinni:


Bóndinn var í veiðiferð og kom heim með einn 4 punda lax eftir daginn. Býsna sáttur með það þar sem laxar fást afar sjaldan í þessari á og væntingarnar gera frekar ráð fyrir vænum bleikjum eða þá urriða.

september 14, 2003

Ég fór ferð númer tvö að tína hrútaber í dag. Það er svo skrýtið, að fara í berjamó, finna ekkert af viti fyrr en um það bil sem sá tími sem maður ætlaði að nota, er liðinn. Það gerir samt ekkert til þegar veðrið er eins og það var í dag, skógurinn yndislegur og félagsskapurinn góður. Nú er ég að hreinsa berin og bölva þeim af og til fyrir að vera af rósaætt og þess vegna með þyrna. Á morgun verður soðið og sultað og þegar líður á veturinn verður hrútaberjahlaupið borðað, vonandi með góðum osti og rauðvíni í góðra vina hópi. Ég hlakka til !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?