<$BlogRSDURL$>

nóvember 12, 2004

Vikan 

Búið að vera brjálað að gera:
Mánudagur: Vinna, sund í hádeginu. Fiskur í kvöldmat. Eknir 60 km.
Þriðjudagur: Vinna, þreksalur, grafísk hönnun á CD-hulstur. Kjöt í kvöldmat. Eknir 60 km.
Miðvikudagur: Vinna, sund í hádeginu, hamborgari í söluskálanum í kvöldmat. Eknir 60 km.
Fimmtudagur: Vinna fram að hádegi, bíllinn í þjónustuskoðun á Reyðarfirði, unnið á fartölvuna á meðan, kaffi hjá mömmu á Norðfirði, hjálpa pabba í tölvuvandræðum, leita mér að skóm án árangurs, keyra heim. Elda pasta með aðstoð bjarnarins. Eknir 210 km.
Föstudagur: Vinna, innkaup fyrir helgina, heim, aftur í Egilsstaði, fimmtugsafmæli, heim ???, eknir 90-120 km (eftir því hvort við förum heim eða ekki).

Er það furða þó lítill tími sé fyrir blogg !

nóvember 08, 2004

Skógarmannasögur 

Við hjónin eigum í fórum okkar þrjú lítil hefti sem bera nöfnin Skógarmannasögur 1, 2 og 3. Þessar bækur innihalda ýmsar skemmtilegar sögur um skógarmenn. Sá sem safnaði þessum sögum, skráði þær og gaf út (í mjög litlu upplagi) hét Finnur Nikulás Karlsson. Hann lést langt fyrir aldur fram síðastliðið sumar.
Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta núna er sú, að í afmæli Sigurðar Blöndal núna á laugardagskvöldið, vantaði bónda minn góða sögu til að segja í afmælinu og náði þá í þessi hefti. Sagan sem hann las kemur hér:

Úrhelli við Ljósána

Sumarið 1974 vorum við Skúli og Pétur Jónasson að planta upp með Ljósánni. Þá var Jón Loftsson nýlega orðinn verkstjóri hjá Skógræktinni. Sigurður Blöndal vorkenndi fólki að vinna úti ef mikið rigndi. Regnföt þekktust varla. Um leið og fór að rigna stukku menn í skjól og hímdu þar heilu og hálfu dagana. Ég man t.d. eftir því að einu sinni sátum við Skúli og Jón Erlingur nærri því heilan dag, hver ofan á öðrum, inni í húsinu á bláa traktornum inn við Víðivelli vegna þess að það fór að rigna. Jón Loftsson sýndi þessu málefni hins vegar engan skilning, heimtaði að fólk fengi sér regnföt og ynni hvernig sem viðraði. Þetta þótti okkur fádæma óréttlæti.
Þennan dag sem við vorum að planta upp með Ljósánni var þokusuddi, án þess að úrkoma væri teljandi. Þegar komið er vel fram yfir hádegi þurfti Jón að bregða sér frá eins og oftar. Okkur leiddist að ösla um í rennblautu liminu, hálfhraktir, því auðvitað höfðum við þráast við að fá okkur regnföt (það hefði jafngilt algjörum ósigri). Við fórum nú að velta fyrir okkur hvernig við gætum sloppið úr þessari prísund og jafnframt náð okkur niðri á Jóni fyrir þá illu meðferð sem við þóttumst sæta. Fannst okkur ekki ósennilegt að Sigurður myndi snúast til samúðar með okkur í þessu máli en varla meðan við værum ekki verr útleiknir en við vorum. Fundum við þá upp á því snjallræði að stilla okkur upp undir krónumiklum trjám og hrista vatnið úr þeim yfir okkur þangað til við þóttumst nógu blautir til að fara heim.
Við hittum Sigurð niður í Mörk. Þegar hann sá okkur koma tilsýndar rak hann í rogastans:
"Hvað er að sjá ykkur strákar ! Hvar í ósköpunum voruð þið eiginlega?"
"Við vorum að planta upp með Ljósánni. Það bullrigndi þar!"
"Ég er svo aldeilis hissa . Blessaðir farið þið inn eins og skot og háttið ykkur ofan í rúm og hreyfið ykkur ekki fyrr en um kvöldmat. Annars gæti slegið að ykkur."
Tíu mínútum seinna vorum við allir sofnaðir inni í Skjóli, samkvæmt skipun. Af Jóni er það að segja að hann fór að leita að okkur ogfékk þær fréttir að við svæfum og ekki mætti undir neinum kringumstæðum gera okkur ónæði. Mun honum hafa líkað þessi málalok illa og þóttumst við "kenna nokkrun kulda af honum" næstu daga, eina og komist er að orði í Íslendingasögum þegar einhver fer í fýlu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?