<$BlogRSDURL$>

apríl 21, 2006

Sumardagskvöldið fyrsta 

Í gærkvöldi, eftir að við höfðum snætt "heimska fugla" eða a.m.k. hluta af þeim, ásamt nágrönnum okkar, beið okkar hjóna sérstakt verkefni. Hópur, sem samanstóð af mökum bæjarstjóra vítt og breitt af landinu, var lóðsaður um trjásafnið í síminnkandi birtu. Nánast var orðið aldimmt þegar hópurinn kom til mín, þar sem ég hitaði vatn í kötlum yfir varðeldi. Bruggað var ketilkaffi og koníakstár boðið með, ásamt kleinum og snúðum. Held að flestum hafi þótt þetta sérkennileg, en eftirminnileg móttaka.
Veðrið var gott, nánast logn og þetta 4-6 stiga hiti.

Tíminn sem ég sat þarna, bætti af og til á eldinn og hitaði vatn í stórum kötlum, var líka dálítið sérstakur. Það er hvergi betra að hugsa en einn með sjálfum sér við varðeld úti í skógi.

apríl 20, 2006

Af heimskum fuglum ! 

Ég var að stússa í eldhúsinu í morgun og sá út um gluggann út á bílastæðið, þar sem bíllinn minn, hann Fúsi, og gamli Volvo bóndans standa hlið við hlið. Þröstur nokkur gerði sig heimakominn á þakinu á Fúsa, en renndi sér ítrekað beint á hliðarrúðuna á Volvo. Þar ýmist sveigði hann frá á síðustu stundu, rakst á glerið og datt til jarðar eða náði að bjarga sér upp á þakið á Volvo. Þennan leik endurtók hann aftur og aftur, a.m.k. 15-20 sinnum. Mér fannst þetta einkennilegt háttalag og fór að skoða aðstæður. Komst ég að eftirfarandi niðurstöðu: Þrösturinn hefur séð spegilmynd af sjálfum sér í rúðunni á Volvo, talið þar kominn óboðinn keppinaut og ráðist á hann tafarlaust.
Í gær keypti bóndinn forláta gasgrill sem nú er komið út á pall, samsett og tilbúið til notkunar. Í kvöld verður það vígt við hátíðlega athöfn og á því grillaðir heimskir fuglar, þó ekki þrestir.

Sólin skín, kaffi var drukkið úti á palli í morgun og ég held að vorið sé að koma. Það passar, Hákon á Húsum sagði að það myndi kólna aftur um eða eftir sumarmál og hingað til hefur veðurspáin hans reynst alger öfugmæli.

Gleðilegt sumar og kærar þakkir fyrir veturinn !

apríl 19, 2006

Um karlmennsku og kynþokka 

Ég var að lesa á bloggi Rannveigar (Lötu-Grétu) spjall hennar og fyrrverandi barnakennara sem ennþá lifir í þeirr trú að konurnar sem hringdu á Rás 2 og kusu hann sem kynþokkafyllsta karlmanninn þarna um árið, hafi verið að meina þetta ! Það hefði þó átt að vera smá vísbending að vinur hans og brallfélagi fékk líka þó nokkuð mörg atkvæði.
Ég blanda mér hins vegar ekkert í umræðuna um OÍF, né þá niðurstöðu tveggja vitgrannra stúlkna, sem þar að auki mátu karlmenn á sama hátt og hrúta, sem varð gerð heyrinkunn á Þorrablóti Valla og Skóga í febrúar sl.
Og fundargerðarbók HÍF verður ekki látin í hendur á hverjum sem er. Hins vegar stendur til að efna til upplestrarkvölda á hausti komanda, þar sem rifjaður verður upp menningararfur Vallahrepps hins forna og mun bók þessi koma til álita þar, ásamt fundargerðarbókum Vallahrepps hins forna, gestabókum, kirkjubókum og fleira menningarefni.

Eitt barnið enn ! 

Í nótt eignaðist Stella bróðurdóttir mín dóttur. Og Salka Sóley er orðin stóra systir ! Og Steini bróðir orðinn þrefaldur afi ! Til hamingju öll !

Pirringur 

Yfirleitt nenni ég ekki að láta hluti fara í taugarnar á mér, en í gær varð ég pirruð. Fór í sund eins og venjulega í hádeginu, ekki margir í lauginni, en þó einhverjir. Lauginni er yfirleitt skipt í 4 bil, tvöfalt bil næst barnalauginni, þar sem slatti af krökkum var að leika sér, síðan tvær einfaldar brautir og loks rúmlega tvöfalt bil, þar sem auðveldlega geta 3-4 synt án árekstra. Þegar ég kom út í var önnur einfalda brautin tóm og ég fór auðvitað þangað og byrjaði að synda. Stuttu seinna kom kona út í laugina og tróð sér á þessa einföldu braut sem ég var að synda á þó aðeins væru tveir að synda á tvöföldu brautinni. Ekki nóg með það, heldur virtist þessi manneskja fá eitthvað út úr því að trufla mig. Það endaði með því að ég flutti mig yfir á breiðu brautina til hinna tveggja. Það var líka miklu skárra en að vera í sífelldum árekstrum við þessa brussu.
Ég vona að hún sé með hiksta !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?