<$BlogRSDURL$>

júní 17, 2004

Ávarp fjallkonunnar 

Gleðilega þjóðhátíð !
Í dag varð lýðveldið Ísland 60 ára og ég tók ekki þátt í neinum hátíðahöldum í tilefni dagsins.
Í gærkvöldi fór rafmagnið hér og var að fara og koma af og til í nótt, síðast milli 8 og 9 í morgun. Tölvudótið í skólanum og þar með mínar tengingar við umheiminn fóru í klessu, þannig að ég fór upp í skóla og setti í gang símkerfið, sló inn rafmagni, ræsti server og endurræsti tengibúnaðinn. Tók í þetta klukkutíma fyrir hádegið.
Eldaði góðan kvöldmat handa fjölskyldunni og þegar við höfðum lokið máltíð og vorum að horfa á seinni fótboltaleikinn á EM, heyrðist smellur og brothljóð í eldhúsinu. Í fyrstu sá ég ekkert, en svo fundum við björninn út hvað hafði skeð. Í uppþvottavélinni, sem ekki var í gangi, hafði glas hreinlega splundrast, án nokkurrar sjáanlegar ástæðu !
Ég hreinsaði glerbrotin úr vélinni og hafði nýlega lokið því og sest aftur inn í stofu þegar dyrabjöllunni var hringt. Þar var kominn gamall vinur minn, hann Geiri, sem ég hef ekki séð í ansi mörg ár.
Geiri var giftur vinkonu minni, sem lést úr bráðum sjúkdómi fyrir allmörgum árum. Hann kynntist fljótlega annarri konu og eignaðist með henni börn og nýtt heimili, og eins og gerist stundum, minnkuðu samskiptin niður í jólakort og stuttar kveðjur á afmælum og tímamótum.
Hvort glasið sem brotnaði í uppþvottavélinni tengist á einhvern hátt komu Geira, veit ég ekki, en ekki kæmi það mér á óvart. Skrýtnari hlutir hafa gerst.

júní 14, 2004

Fjallganga og fleira. 

Á laugardaginn gekk ég með góðum hópi fólks upp að Hengifossi. Eins og vænta mátti, byrjaði að rigna þegar við vorum að leggja af stað, en stytti fljótlega upp og úr varð hin besta ferð. Við komumst reyndar ekki alveg inn að fossinum, til þess hefði þurft að vaða straumharða ána og ekki voru allir tilbúnir í það. Þeir frískustu gátu stokkið milli steina, en langstökkshæfni mín er ekki nógu mikil til að ég færi í svoleiðis ævintýri. Nóg var að skoða samt því þarna í gilinu eru alveg einstaklega skemmtile lagskipting, surtarbrandur, steingerð tré, setlög og blágrýtislög til skiptis eins og í margra laga randalín. Hvet alla þá sem eiga leið hjá að ganga upp að fossinum.
Á leiðinni niður fór að rigna aftur og voru uppi áhöld um hvort við ættum að fara eftir upphaflegri áætlun og grilla í Víðivallaskógi eða fara í Bessastaði og nýta okkur húsaskjólið þar. Endirinn varð sá að við fórum í skóginn, grilluðum í rigningunni og skemmtum okkur vel. Það stytti upp er leið á kvöldið og við borðum, drukkum, sungum og skemmtum okkur hið besta.

Hver segir að það sé ekki hægt að grilla í rigningu !

Í gær var svo legið í leti, horft á formúlu og fótbolta.

Og nú er ennþá kominn mánudagur ......

This page is powered by Blogger. Isn't yours?