<$BlogRSDURL$>

júní 03, 2005

Sumar 

Nú held ég að sumarið sé komið. Það hefur að vísu kólnað aftur og hefur frosið á nóttunni alveg fram að þessu. Það spáir norðaustanátt um helgina, sem er reyndar mjög venjulegt þegar sjómannadagshelgin á í hlut. Það þýðir yfirleitt kuldi og væta hér á þessu svæði. En ef ekki snjóar er ég sátt.
Eins og litla systir mín er að útlista á sínu bloggi, er búið að breyta fyrirkomulagi hátíðahalda sjómannadagsins í Neskaupstað svo um munar. Hingað til hefur verið hægt að ganga að kappróðrinum vísum á laugardag, siglingunni á sunnudagsmorgun og skemmtiatriðunum við sundlaugina síðdegis á sunnudag. Nú er búið að breyta þessu öllu og ég er að hugsa um að láta þessi hátíðahöld fram hjá mér fara. Á árum áður fórum við alltaf á Norðfjörð, a.m.k. varð Björninn minn að komast í siglinguna með Steina frænda sínum, en nú er Björninn á Krít og sennilega lítill áhugi hjá okkur hinum. Frumburðurinn er samt eitthvað að hugsa um að skreppa og hitta gamla félaga.

maí 31, 2005

Allt að koma .... 

Veðrið er að lagast dag frá degi. Hitinn fór í 16° í gær og stefnir hærra í dag. Bjart og fallegt, komu smá skúrir seini partinn í gær, en það var bara gott að fá smávætu.
Ég fór í gær í Sólskóga og keypti mér nokkrar einiplöntur og gróðursetti þær þegar ég kom heim. Gróðursetti, er kannski ekki rétt, ég setti þá í potta, sem reyndar eru að hluta grafnir í jörð. Ætla að fá mér nokkrar stjúpur eða önnur falleg sumarblóm í þessa potta líka, en það bíður helgarinnar. Svo langar mig að fá mér fallegan koparreyni eða Kasmírreyni í garðinn. Er ekki alveg búin að gera upp við mig hvar ég ætla að setja hann, svo það bíður helgarinnar líka.
Gísli og Kata í Sólskógum eru með mikið úrval af fallegum garðplöntum og sumarblómum. Sé fram á að koma þar við þó nokkrum sinnum á næstunni - þau eru staðsett við Vallaveginn sem ég keyri fram og til baka daglega, þannig að það er þægilegt að koma við á leiðinni heim.
Björninn og Eyjastúlkan eru á Krít, hef ekki heyrt frá þeim í nokkra daga. Kvittið þið, krakkar mínir, ef þið lesið þetta.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?