<$BlogRSDURL$>

nóvember 08, 2003

Teljarinn sofnaður: 

Ég fékk mér nýjan teljara á síðuna mína. Sá sem var þar fyrir hefur ekki verið að virka undanfarið og síðan www.teljari.com ekki að virka.
Nú er ég komin með www.teljari.is og byrja þar sem frá var horfið.

A fresh start !!

Ákvað þegar leið á daginn að skreppa í partý í sumarbústað sem búið var að bjóða okkur hjónunum í. Þar sem bóndinn situr veðurtepptur í Reykjavík, varð ég að sýna lit og mæta. Fjörugasta teiti, skemmtiatriði, söngur og mikið gaman. Ég drakk bara vatn, þorði ekki að smakka neitt sterkara ofan í lyfin. Fékk mér svo tvo kaffibolla rétt áður en ég fór heim um miðnættið og sit svo hér svoleiðis glaðvakandi. Bóndinn í borginni, frumburðurinn og björninn - báðir farnir að sofa - og ég bara alein í heiminum. Síðast man ég eftir svona ástandi á mér þegar ég einhvern tíma var í námstörn í Reykjavík - fyrir tveim eða þrem árum síðan - að vorlagi. Var þá í einhverju ofurstressi og gat ekki sofið. Settist upp í rúminu og krotaði þetta á einhvern snepil:

Vornótt í borginni

Í vornóttinni hljóðnar borgin,
dottar, rumskar af og til
við ónæði af stöku bíl,
skipi sem leggur að landi
eða óm af mannamáli.

Í vornóttinni fölna borgarljósin
sem í vetur réðu lögum og lofum.
Þau sjá ofjarl sinn, draga sig í hlé.
Lýsa ennþá af skyldurækni
einni saman.

Í vornóttinni virðist
svefninn hafa villst af leið.
Mér er ekkert að vanbúnaði,
vildi gjarnan fara að sofa
því til hvers að vaka
í vornóttinni , ein.


Núna dettur mér ekkert í hug.

nóvember 07, 2003

Það er rok og rigning - fegin er ég að þurfa ekki að vera á ferðinni. Bakið er orðið skárra, en hefði þurft að komast í heitan pott, gufu eða nudd. Ég ætla samt ekki að fara að berjast í bandvitlausu veðri langar leiðir til þess. Kannski seinna í dag ef veðrið skánar.
Bóndinn verður sjálfsagt innlygsa í höfuðborginni, ekkert flogið í dag og ekki miklar líkur á að það breytist alveg á næstunni.
Björninn minn er í fríi og er bara lipur að snúast fyrir mömmu sína - það er svo sem ekkert nýtt. Hann hefur alltaf verið hjálpsamur og duglegur, óþarflega snemma fór hann að bjarga málunum sjálfur. Ég gleymi seint jóladagsmorgni, þegar hann skreið upp í til okkar, útataður í matarolíu. Hann hafði verið að ná sér í eitthvað í ísskápnum og skellt um koll matarolíuflösku, sem síðan rann úr út um eldhúsgólfið. Hann "þurrkaði upp" sullið, en við það urðu náttfötin löðrandi í olíu og sama sagan varð með rúmföt okkar foreldranna. Jóladagurinn hófst sem sagt það árið með hreingernigum og þvotti.
Hann er orðinn mun liprari núna.

nóvember 06, 2003

Gærdagurinn var ekki eins og aðrir dagar hjá mér. Byrjaði svo sem svipað, vaknaði og fór í sturtu og keyrði í Egilsstaði.
Þar með lauk öllum venjulegheitum. Keyrði bóndann á flugvöllinn, fór í vinnuna og hafði ekki verið þar lengi þegar ég fór að finna fyrir seiðingsverk í bakinu. Stóð á fætur til að liðka mig og þá kom það - bakverkur - ógeðslega sárt og viðbjóðslegt.
Ég átti eina verkjatöflu sem ég skellti í mig, kom mér síðan niður á heilsugæslustöð þegar taflan var farin að virka. Læknirinn píndi mig svolítið, lét mig hafa meira dóp og sendi mig heim í rúm og þar hef ég verið síðan. Vaknaði í morgun, heldur skárri, gat komist upp úr rúminu án þess að hljóða, bara gaf mér góðan tíma í þetta.
Björninn minn er í fríi og snýst fyrir mig það sem ég bið hann um. Annars yrðu hlutirnir bara að bíða betri tíma.
Verð heima í dag, það er deginum ljósara.

nóvember 04, 2003

Snjór, dásamlegur snjór. Ég sat við tölvuna mína niðursokkin um hádegisbilið, leit út um gluggann og sá þá ekki í næsta hús fyrir snjókomu. Æðislegt, kominn vetur !! En, nei, þegar ég fór af stað heim um fimmleytið var hitastigið komið upp fyrir frostmark og veturinn búinn í bili.
Bóndinn er að búa sig til ferðar á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna - björninn bíður eftir skipunum frá vinnuveitandanum hvenær hann þarf að fara á Bakkafjörð að mæla fyrir nýjum vegi og frumburðurinn byrjaði að blogga - hérna.
Verst hvað Bakkafjörður er langt frá Húsó ...

nóvember 03, 2003

Björninn minn var að koma heim og það var stelpulykt af honum. Ekki skrítið - því hann var í heimsókn í Húsó - eins og stundum áður. Og ef hann er ekki í Húsó - er ung námsmey úr Húsó hér. Þetta er ungt og leikur sér - eða svo er sagt.

Frumburðurinn er kominn heim eftir rúmlega vikudvöl í höfuðborginni. Jakkafötin sem hann keypti sér í versluninni High And Mighty eru nógu stór - það þurfti meira að segja að stytta buxurnar á hann. Ég fullyrði að það hefur ALDREI gerst áður, ekki síðan hann var á fyrsta árinu og var spikfeitur hjassi sem sat brosandi á rassinum, og borðaði meira en nokkurt ungabarn á að geta borðað.
Hann getur enn borðað meira en nokkur maður ætti að gera, en hann er mun hreyfanlegri og ekki alveg eins brosmildur.
Eða kannski er minningin bara farin að ryðga aðeins, það eru jú 24 ár rúmlega síðan hann fæddist.....

nóvember 02, 2003

Fór ásamt bóndanum í klukkutíma göngu í skóginum. Hann að horfa eftir væntanlegum jólatrjám á torg landsmanna, já og jafnvel í öðrum löndum, ég, aðallega að hreyfa mig svolítið, gera tilraunir með myndavélinni minni og svo að fylgjast með fuglalífinu.
Allar mínar tilraunir í ljósmyndun fóru út um þúfur, það var erfið birta og þar að auki hafði bóndinn gleymt að hlaða rafhlöðurnar í vélinni eftir að hann kom heim frá Norge.

Hins vegar sá ég töluvert af fuglum. Glókollarnir, sem eru nýbúar hér, voru í veislu - sitkagreni, þakið sitkalús, var veisluborðið. Þessir skemmtilegu fuglar eru búnir að taka sess músarindilsins sem minnsti fugl á Íslandi. Ég sá músarrindil líka, hann var bara stór miðað við glókollana. Hann var svona eins og skógarþröstur í hópi snjótittlinga. Enga sá ég rjúpuna en slóðir voru eftir hana í snjónum og þar sá ég líka för eftir tófu. Skyldi hún hafa náð rjúpunni ? Ætli Siv viti af þessu ?

Við hjónin fórum á Bændahátíð í gærkvöldi - í Valaskjálf. Þetta var mikil veisla, yfir 300 manns - matur og drykkur, skemmtiatriði og dansleikur. Við sátum til borðs með ágætis fólki og margt var skrafað og skeggrætt. Eymundur Vallanesgoði - sem reyndar fékk viðurkenningu ársins - Kjarkur og þor .... var einn af þeim. Meðal þess sem bar á góma var hvernig fólkið sem við sáum í kringum okkur, tengdist bændum. Sumir voru sauðfjárbændur, aðrir kúabændur, garðyrkjubændur, ferðaþjónustubændur, vanbændur eða óbændur. Svo gekk prestur fram hjá okkur og fékk auðvitað starfsheitið Hirðir, læknirinn er á landbúnaðarmáli Græðir og kannski eru kennararnir réttnefndir Barnabændur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?