<$BlogRSDURL$>

júní 11, 2004

Sól, sól, sól
og ég sit inni við vinnu mína !

Nota öll tækifæri til að sleppa út, en þau eru ekki mörg.
Það er verið að mála húsið sem ég vinn í að utan, þess vegna get ég ekki lagt bílnum á sama stað og venjulega. Legg honum á stæði í nokkurri fjarlægð og tek mér göngutúr milli bíls og vinnu. Skárra en ekkert.

Á morgun verður svo teiti - fyrst farið í rútu, labbað upp fjall, labbað niður fjall, aftur í rútu, upp í skóg, grillað og borðað og drukkið og borðað og drukkið og .....
Rúta heim einhvern tíma síðla kvölds.

Sennilega best að sofa ekki neitt.

júní 08, 2004

Veislan á Iðavöllum 

Jarðvegsfræðingar allra landa sameinist !
Þetta var yfirskriftin í gærkvöldi í áðurnefndri veislu, eða hefði a.m.k. átt að vera það. Ekki nóg með að þeir kæmu með vínföng frá öllum þessum 17 þjóðlöndum, heldur kom hver og einn með 2-3 mismunandi tegundir þannig að annað eins úrval hef ég ekki séð, hvorki hérlendis ná annars staðar. Svo átti að smakka eins margar tegundir og hægt var: japanskt vín í pappafernu, saki, belgískur bjór, rauðvín og hvítvín frá hinum ýmsu stöðum, masala frá Sikiley og fleira og fleira.
Það besta sem ég smakkaði var rauðvín frá Sardiníu, Cellabocho. Ítalinn sem sat við hliðina á mér var alveg sammála mér um það, hann talaði litla ensku en svona bara skilur maður.

Maturinn var frábær, fiskréttahlaðborð, grillaður skötuselur og humar, sjávarréttarisottó, gellur og rauðspretturúllur. Allt útfært á sérstaklega gómsætan máta, enda varð lítið um afganga.

Skemmtiatriðin áttu að vera frá hverju landi fyrir sig, en sameiningar þjóða áttu sér stað þarna alveg fyrirhafnarlaust.

Vonandi verður sameining sveitarfélaga hér á Héraði eins auðveld, en um það á að kjósa um leið og forsetakosningarnar verða.

júní 07, 2004

Tónleikar og teiti 

Helgin varð skemmtileg, engin lognmolla þar. Björninn hringdi í mig síðdegis á föstudegi og sagðist vera búinn að bjóða Eyjastúlkunni og fjölskyldu hennar í mat. Það var græjað í hvelli og tókst ágætlega.
Á laugardaginn voru svo tónleikar Jóns Guðmundssonar í Egilsstaðakirkju, matur á Skriðuklaustri og teiti á Fjósakambi 8a í framhaldi af því. Allt saman alveg bráðskemmtilegt.
Tilhugsunin um að þessir ágætu vinir okkar séu að flytja burtu er hins vegar ekki eins skemmtileg.
Sunnudagurinn var rólegur framan af, var að dunda í garðinum, reyna að útrýma sigurskúf sem nágrannakona mín setti í garðinn hjá sér og er hið versta illgresi. Við ákváðum svo seinni partinn að skreppa út í Eiða að skoða framkvæmdir þar. Hittum á þeirri leið listakonu sem var að útbúa sitt verk á sýninguna Fantasy Island. Niðurstaðan af því spjalli varð sú að ég þarf að skreppa með henni upp í fjall og finna stein, til að byggja næsta verk hennar á.

Í kvöld bíður okkar svo matarboð með jarðvegsfræðingum úr ýmsum heimshornum.
Dreifbýlislegt ? Jahá !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?