<$BlogRSDURL$>

nóvember 01, 2005

Í sundlauginni. 

Ég er alltaf að lenda í einhverjum skrítnum uppákomum í sundlauginni. Í dag fór ég eins og venjulega, heldur sein vegna þess að það kviknaði í vörubíl rétt við innkeyrsluna að fyrirtækinu þar sem ég vinn og umferðin var líkust hringiðu smástund. Rétt fyrir hádegi, allir að fara í mat, keyrðu þvers og kruss, út fyrir veg, yfir lóðina hjá löggunni og sýslumanninum, öfugu megin við umferðarskilti og bara þar sem hægt var að komast.
En, jæja, ég fór sem sagt í sund. Þegar ég kom var fámennt að vanda. Það skrítna var samt að þessir fáu sem þarna voru, voru allir á einhvern hátt eftirtektarverðir.
Ljóshærða konan, sem mætir í hádeginu flesta daga, var ekki lengur ljóshærð, heldur dökkhærð.
Íþróttakennarinn, sem venjulega er í bláum kuldagalla og frekar dreifbýlislegur í hátt, var uppáklæddur í frakka og meira að segja með þverslaufu. Bar því við að hann þyrfti að fara til jarðarfarar.
Fótboltastrákar (eða svona dálítið fullorðnir strákar), sátu í pottinum allan tímann sem ég var að synda og báru ekki einu sinni við að synda. Kvörtuðu svo sárlega undan þreytu og sleni og hunskuðust inn í klefa. Ekkert skrítið - hver verður ekki slappur og syfjaður af að liggja í heitum potti í hálftíma.
Og í klefanum á leið úr lauginni, hitti ég konu - prest í þokkabót - sem sagði mér sögu af ættfræðirugli sem tengist minni fjölskyldu. Er ekki að verða komið nóg af slíku ?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?