<$BlogRSDURL$>

júlí 01, 2005

Fúavörn og rigning 

Síðustu þrjár vikur hef ég verið að herða mig upp í að byrja á að mála, eða réttara sagt, fúaverja vindskeiðina á húsinu mínu. Fyrstu dagana sem ég var í fríi notaði ég í brýn garðvinnuverkefni. Svo rigndi í einhverja daga, ég skrapp til Reykjavíkur í nokkra daga, önnur verkefni í garðinum sem ekki máttu frestast, vinna í nokkra daga og svona má lengi telja. Á miðvikudaginn var svo engin afsökun lengur. Ég fór fram í geymslu og fann fúavörnina og klæddi mig síðan í einhverjar druslur, fór út og fann mér tröppu. Þá byrjaði að rigna.
Þar með gekk ég frá dótinu og fór bara inn að brjóta saman þvott eða eitthvað.
Í gær fór ég í innkaupaleiðangur í Egilsstaði, fyrir hádegi og var búin að öllu (+ að fara í sund), um tvö-leytið. Ætlaði að drífa mig heim að mála/fúaverja, en á leiðinni byrjaði að rigna. Þar fór það. Í dag var rigning þegar ég vaknaði, svo ég fór bara að þrífa eldhúsið, bakaraofninn fékk meira að segja yfirhalningu.

Og nú er búið að banna mér að fúaverja, eða svo mikið sem hugsa til þess. Rigningin er talin vera af mínum völdum.

júní 27, 2005

Skógarmannaskál 

Ljóðið sem ég vitnaði í í síðustu færslu er nokkurs konar þjóðsöngur skógarmanna. Sunginn við ítalska kommúnistalagið "Avanti Poppoli". Þarf að birta það í heild svo menn sjái hvaða boðskap það ber.
Kvöldið í Víðivallaskógi varð skemmtilegt eins og við var að búast. Það byrjaði reyndar að rigna um það leyti sem við vorum að fá okkur að borða , en með því að setja servíettu yfir rauðvínsglasið til að forða því frá þynningu og setjast undir tré með matinn, slapp þetta allt saman. Það stytti svo fljótlega upp og allt var þetta hið besta mál. Við vorum komin heim um eitt-leytið, fórum í stutta skógargöngu en það var of blautt til að fara í langa göngu.

Miðnæturganga verður samt farin einhvern tíma í næstu viku, það er alveg á hreinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?