<$BlogRSDURL$>

október 20, 2005

Fréttir !! 

Frumburðurinn er búinn að segja frá því á blogginu sínu sem ég er búin að vita nokkuð lengi, sem sé að hann er að verða faðir, ég að verða amma og bóndi minn afi.
Ég er meira að segja búin að sjá krílið í sónar, mjög skemmtileg upplifun.

október 19, 2005

Shit ! 

Undanfarna daga hefur legið yfir Egilsstöðum fnykur af húsdýraáburði - öðru nafni skítalykt - svo megn að hún hefur komið af stað ýmsum umræðum og atvikum.
Bændur á Egilsstaðabýlinu hafa verið óstöðvandi með skítadreifarann, veðrið verið stillt, rakt og fremur hlýtt og BINGÓ ! Andrúmsloftið minnir á haughús.

Á heimili einu, þar sem yngsti fjölskyldumeðlimurinn er nýhættur með bleyju, upphófst mikil leit að uppruna lyktarinnar. Uppruninn fannst þegar einhver opnaði útidyrnar og inn flæddi mykjulyktin í öllu sínu veldi.

Ég fór með fólk út á flugvöll einn daginn og þar voru brandararnir á fullu:

"Varst þú að reka við?"
"Þetta er sannkallað skítapleis !"
"Shit, hvað þeir eru fúlir hérna!"

Ekki kannski það vinsælasta að koma út úr flugvél og fá ærinn skammt af kúaskítslykt, nánast í æð !

Ég var nú eitthvað að reyna að bera mig mannalega í gær, þegar fnykurinn flæddi inn um gluggana og sagði vinnufélaögunum að þetta vendist og bræðslufýlan á fjörðunum væri miklu verri (sem er reyndar alveg satt), en það var samt alveg ágætt að komast heim í skóginn og finna ekki þennan hvimleiða daun.

október 18, 2005

Flugvöllur og sjúkrahús 

Ég heyrði í morgun á leið minni til vinnu, viðtal við mann úr Svarfaðardalnum. Man ekki hvað hann heitir, en hann var m.a. að tala um Reykjavíkurflugvöll og hátæknisjúkrahúsið sem á að fara að reisa í höfuðborginni. Því er valinn staður við Hringbrautina í næsta nágrenni við Vatnsmýrina. Bygging sjúkrahússins verður á kostnað ríkisins og þar með okkar skattborgaranna.
Er það því ekki sanngjörn krafa að það verði eins aðgengilegt ÖLLUM þegnum þessa lands og unnt er ?
Er ekki rétt að spyrða órjúfanlega saman aðalflugvöll innanlandsflugs og aðalsjúkrahús landsins ?


Verði flugvöllurinn fluttur úr Vatnsmýrinni er staðsetning sjúkrahússins orðin kolröng. Verði innanlandsflugið flutt til Keflavíkur, þarf að reisa sjúkrahúsið þar. Einnig verður að koma upp þjónustumiðstöðvum helstu ráðuneyta og stofnana á landsbyggðinni, því ef flugvöllurinn verður færður suður á nes, verður erfitt og umsnúið fyrir landsbyggðarfólk að fljúga til Keflavíkur og aka til Reykjavíkur eftir þessari þjónustu. Skerðing á þjónustu úti á landi hefur verið réttlætt með bættum samgöngum í lofti og á landi, en ef flugvöllurinn verður færður úr Vatnsmýrinni, er sú réttlæting farin veg allrar veraldar.

Það vill gleymast í þessari umræðu að við sem búum úti á landi erum líka skattgreiðendur og eigum sama rétt til þjónustunnar og þeir sem á höfuðborgarsvæðinu búa.

október 17, 2005

Systur ? 

Ég var spurð að því áðan, þar sem ég sat í heita pottinum við Sundlaugina á Egilsstöðum, hvort ég væri systir Petru ? Sá sem spurði hafði fengið þessar upplýsingar hjá starfsmönnum í Íþróttamiðstöðinni.
Þar sem þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég er spurð að þessu og hef að auki stundum verið ávörpuð sem Petra, langar mig að láta alla sem þetta lesa vita eftirfarandi:

Ég á tvær systur, en hvorug þeirra heitir Petra.
Ég heiti sjálf ekki Petra.
Ég spila ekki blak, hvað þá að vera landsliðsþjálfari í blaki.
Móðir mín heitir ekki Elma heldur Bergljót.
Faðir minn heitir ekki Jón, heldur Hálfdan.

Svo mörg voru þau orð...

október 16, 2005

Vegir Guðna Ágústsonar ... 

Í kvöld voru vinir okkar í mat hjá okkur, snæddum lambalæri, nýuppteknar kartöflur og fleira gott. Það var kveikt á sjónvarpinu, áttum von á fréttum af 100 ára friðunarafmæli Hallormsstaðaskógar sem haldið var upp á í gær. Þær fréttir komu, en einnig frétt um Hekluskóga, verkefni sem stórhuga fólk vinnur að þessa dagana.

Í þeirri umfjöllun kom fram að Hæstvirtur landbúnaðarráðherra vill leggja veg upp á Heklu. Þá missti Jón vinur minn matarlystina - hann gekk nefnilega á Heklu fyrir ekki svo löngu síðan og fannst hugmyndin afspyrnuslæm. Svo slæm að hann greip gestabókina mína og fékk útrás fyrir gremju sína með þessu verki:


This page is powered by Blogger. Isn't yours?