<$BlogRSDURL$>

febrúar 21, 2007

Norðaustan og éljagangur 

Veðrið hefur aldeilis breyst, norðaustan steyta og snjókoma af og til og einmitt í dag þegar litskrúðugir hópar ferðast milli fyrirtækja, syngja og fá að launum eitthvað smálegt. Eins og veðrið er búið að vera ágætt undanfarið.
Verst að einhvers staðar segir að öskudagur eigi 18 bræður - þá fer ekki að hlýna aftur fyrr en í mars og þá er ég hvort eð er að fara á hlýrri slóðir.

Best að halda áfram að vinna meðan engir sjóræningjar, nornir, perrar eða prinsessur koma og trufla mig. En, það hefur engin Silvía Nótt komið í ár - skrítið !

febrúar 19, 2007

Hvenær drepur maður mann..... 

Ef ég færi inn á landareign annars manns, fjarlægði eða eyðilegði eigur hans, án þess svo mikið að tala við hann áður, hvað yrði gert við mig ? Trúlega yrði ég handtekin, færð til yfirheyrslu og jafnvel látin sæta gæsluvarðhaldi meðan verið væri að rannsaka málið og hafa upp á því sem ég hefði í óleyfi fjarlægt af landareigninni. Gilda aðrar reglur þegar um er að ræða fyrirtæki í eigu bæjarstjóra sveitarfélags, sem auðvitað er ráðið til verksins af bæjarstjóranum og eignirnar eru tré en ekki fasteignir ? Tré, sem voru fjarlægð án vitundar eiganda ? Það að fjarlægja eitthvað án leyfis og vitundar eiganda, hefur fram að þessu verið skilgreint sem þjófnaður ! En það getur svo sem verið að það hyski sem hér um ræðir, lúti öðrum lögum en aðrir í þessu landi !

Hvernig flytja má eldavél..... 

Ég las brot úr óútgefinni bók föður míns um helgina. Sú frásögn fjallaði um hvernig ekkja nokkur flutti eldavél, sem henni var gefin, milli bæja. Þetta var þungur gripur, ekki hægt að koma honum upp á hest, né bera hann á bakinu. Ekkjan dó þó ekki ráðalaus, heldur gekk þannig frá vélinni að þægilegt var að velta henni og lét síðan þau af börnunum sem ekki nýttust til annarra starfa sökum ungs aldurs, dunda sér við að velta henni þessa kílómetra sem voru milli bæjanna.
"Sumarið sem ég var að velta eldavélinni" - hljómar svolítið sérkennilega.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?