<$BlogRSDURL$>

júní 27, 2003

Er kyn þótt skógarmenn
og konur drekki
ég held nú ekki
það er sjálfsagt mál.


Svona orti Þorsteinn Valdimarsson eitthvert sinn í Hallormsstaðaskógi. Og til skamms tíma voru haldnar Jónsmessuhátíðir í skóginum, þar sem menn drukku, sungu, grilluðu kjöt og pylsur á teinum yfir eldi, drukku meira og sungu enn meira, allt þar til sólin kom upp og jafnvel mun lengur. Þessi siður var aflagður fyrir nokkrum árum, þar sem ekki þótti verjandi að unglingar þeir sem voru í vinnu hjá Skógrækt ríkisins lærðu ósóma þennan.
Í kvöld var haldin Jónsmessuhátíð með nýju sniði. Það var gengið um skóginn, farið í boðhlaup, spilaður fótbolti, klippt á borða á nýjum göngubrúm, spilað á flautu, grillað, sullað aðeins í fljótinu, hitað ketilkaffi og bara setið og spjallað í góða veðrinu.

Uppskrift að ketilkaffi:

Vatn hitað að suðu í katli með loki,
Kaffi (best er að nota grófmalað kaffi) hellt út í og skerpt á aftur.
Þá er ketillinn tekinn af eldinum og honum sveiflað sjö sinnum, hátt, jafnvel alveg hringinn.
Einum bolla af köldu vatni er skvett út í og ketillinn látinn standa í 2-3 mínútur.

Punkturinn yfir i-ið í góðu grilli úti í skógi.

Nú er hægt að setja titil á hvert blogg - Prófa það 

Við fórum í heimsókn til foreldra minna í gær, ég og bóndinn. Ég vildi óska að ég yrði eins spræk og þau eru þegar þar að kemur. Pabbi gamli er að rækta garðinn sinn og það er enginn smá garður, nokkrir hektarar. Mamma stússast í eldhúsinu, fer í göngutúra og saman eru þau svo á kafi í eldri borgara starfinu.

En nú er best að koma sér út í húsbygginguna.

júní 26, 2003

Nýtt umhverfi á blogger - hægt að velja íslensku og rétt stafasett - við erum komin á kortið hjá þeim.

Við erum að vinna í garðhúsinu, gærdagurinn fór í efnisöflun - bæði heima og í Húsasmiðjunni. Bóndinn þurfti reyndar á fund síðdegis í gær og ég notaði tækifærið og lagðist í reyfaralestur á meðan. Það er nauðsynlegt þegar maður er í fríi. Það, og leggja kapal og ráða krossgátur. Þá getur maður verið heima og samt verið í svona sumarbústaðarfíling. Húsið mitt er umkringt skógi á þrjá vegi, þannig að þetta er ekkert erfitt. Aðeins spurning um hugarástand.

Nú er léttur rigningarúði og verið að melta hvort við eigum að halda áfram húsbyggingu eða renna á Norðfjörð og heilsa upp á pabba og mömmu.

júní 24, 2003

Jæja, ég ætti að vita betur en að spyrja frétta úr saumaklúbb. Systurnar farnar að metast um hvort karlmenn úr árgangi '77 eða '78 séu álitlegri. Ég, persónulega, er hrifnari af þeim sem kenna sig EKKI við ártalið 78, en hver sem er má hafa sína skoðun á því.

Ein spurning: Vitið þið hver úr árgangi '77 hefur fengið viðurnefnið "rúmmetrinn" ?

Garðvinnan gengur vel, hellurnar komnar á sinn stað og búið að setja niður undirstöðurnar undir húsið. Fór að rigna seinnipartinn og frekari athöfnum í garðinum slegið á frest enda nógur tími. Kemur alltaf meiri tími, heyrði ég haft eftir Jökuldælingi eða var það Færeyingur.

júní 22, 2003

Það er alltaf gaman að taka smá rispu í garðinum heima hjá sér. Ég er lítið gefin fyrir svona blómadúll og arfareitingu, en fæ því meira út úr stærri framkvæmdum. Byrjaði í morgun, meðan bóndinn var að syngja við messu, risti burtu gras af einhverjum 8-10 fermetrum, gróf niður á möl og keyrði öllu saman burt í hjólbörum. Bóndinn tók svo til hendinni þegar hann hafði sungið fyrir sálu sinni og saman fluttum við einhverjar 60 hellur, mokuðum nokkrum hjólbörum af möl og sandi í áður grafna holu og eigum síðan framhaldið eftir á morgun. Sem sé að helluleggja svæðið og síðan að gera smá lagfæringar kringum pallinn.

Næst verður síðan byrjað á verkfæraskúrnum. Það er búið að ákveða staðinn, nokkurnvegin búið að hanna undirstöðuna en síðan verður bara unnið eftir efnum og ástæðum. Meiningin er að nota heimafengið efni. Til hvers er að búa í skógi ef maður getur ekki fengið spýtur í svona smá kofa ? Frumburðurinn, sem starfar í Húsasmiðjunni, var yfirheyrður um hvað fengist af því efni sem þarf að afla utan skógar, s.s. nöglum og tjörupappa. og svo er bara að sjá til hvernig framkvæmdirnar ganga.

Núna ætla ég í heitt bað, því bakið er eitthvað að mótmæla, og vona svo að það verði gott veður á morgun svo við getum komið hellunum á sinn stað.

Þið saumaklúbbskonur sem lesið bloggið mitt - var ekki gaman hjá ykkur á Birkiteignum ?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?