<$BlogRSDURL$>

ágúst 19, 2006

Tap, en naumlega þó. 

Ormsteiti hófst í gærkvöldi með hverfahátíðum og keppni milli hverfa um forljóta styttu sem ég kann engin frekari skil á. Þó okkar hverfi, Vallahreppur hinn forni, væri með frekar fámennt lið á vellinum, tókst okkur þó að ná þeim árangri að verða jöfn Fellamönnum að stigum. Það var því efnt til bráðabana í tjaldinu og þar sem allir Vallamenn voru farnir heim, nema við hjónin, urðum við að fórna okkur í þetta verkefni. Það fólst í að útvega sem hraðast umbeðna hluti frá áhorfendum. Skór nr. 38 og sólgleraugu voru auðveld miðað við lokaverkefnið, en það var að útvega kynninum rauðan brjóstahaldara. Hvað hann ætlaði að gera við hann, veit ég ekki, en okkur tókst sum sé ekki að verða okkur úti um slíkan grip. Því eru Fellamenn handhafar styttunnar góðu næsta árið. Við töpuðum með minnsta mögulegum mun, einum rauðum brjóstahaldara.

Veðrið er alveg ótrúlegt þessa dagana. Í allan dag er hitastigið búið að vera milli 22 og 25 gráður - alveg þokkalegt í seinni hluta ágúst. Og þetta á víst að halda svona áfram. Það verður ekki dónalegt að flatmaga í blíðunni og hlusta á Baggalútana spila í Neðstareitnum á morgun. Ég mæti sko örugglega þar !

ágúst 18, 2006

Ormlaust teiti 

Í dag hefst Ormsteiti á Héraði. Það kom hins vegar upp í gær að ormurinn sem fara átti með í langa göngu á opnunardegi þessarar hátíðar, hefur orðið fórnarlamb skemmdarvarga eins og www.austurlandid.is segir frá. Hvort afleiðingin verður sú að Ormsteiti verði ormlaust, eða að ormurinn hinn eini sanni vakni, verður spennandi að sjá. Við ætlum alla vega að hlýða kalli hverfahöfingja vors og mæta í grill í Neðstareitnum í Hallormsstaðaskógi síðdegis í dag. Ég ætla samt ekki að mæta með orm á grillið, heldur eitthvað annað og hversdagslegra.
Veðrið er heldur ekki dónalegt, sól og blíða, sunnan átt og 18 stiga hiti.

Frumburðurinn er kominn í Hafnarfjörðinn og sestur á skólabekk í HR. Björninn ætlar suður um helgina, veit ekki alveg hvenær og ganga til liðs við bróður sinn á skólabekknum. Björninn og Eyjastúlkan eru að ganga frá kaupum á íbúð í Reykjavík þessa dagana, en þangað til þau fá hana afhenta, verða þau að treysta á gestrisni ættingja og vina. Já, ber er hver að baki.....

ágúst 15, 2006

Út og suður .... 

Ég var að horfa kynningu á þættinum "Út og suður" í ríkissjónvarpinu núna um helgina. Ég horfi sjaldan á þáttinn, en hef svona velt því fyrir mér hvort það sé virkilega til svona mikið af sérkennilegu fólki á Íslandi að það sé hægt að gera sífellt fleiri þætti með sífellt skrítnara fólki. Þar sem ég svo sá hverjir væru viðmælendur "Borgarfjarðarfíflsins", sem oft virkar nú mun skrítnari en viðmælendurnir, fékk ég dálítið áfall. Báðir viðmælendurnir voru náskyldir mér. Stella Steinþórsdóttir, en hún er bróðurdóttir móður minnar og svo Erlingur Thoroddsen, sem er systursonur föður míns.

Í dag á Haraldur bróðir minn afmæli. Til hamingju með daginn, bróðir sæll !

ágúst 14, 2006

Tíðindalaust.... 

Það gerist fátt þessa dagana sem í frásögur er færandi. Síðasta vika var stíf vinnuvika, eiginlega einum of. Bakið farið að mótmæla löngum setum við tölvuna. Helginni eyddum við heima hjá okkur, enda bóndinn að vakta plönturnar, sem þurfti að breiða yfir síðdegis og taka ofan af á morgnana. Það er verið að telja þeim trú um að það sé komið langt fram á haust og þær eigi að hætta að vaxa og fara að undirbúa sig undir veturinn. Við vorum að grínast með þetta að við færum á morgnana að vekja þær og svæfðum þær aftur síðdegis.
Björninn minn kom loksins heim í gærkvöldi, en hann er búinn að vera í mánaðarfríi, fyrst í Búlgaríu og síðan í Vestmannaeyjum. Hann ætlaði reyndar að koma heim strax eftir þjóðhátíð en vegna lasleika dróst það á langinn. Hann er svo að fara til Reykjavíkur í skóla um næstu helgi.
Frumburðurinn er að klára sitt úthald á Reyðarfirði núna í vikunni og ekur síðan til Hafnarfjarðar á fimmtudaginn. Hann er líka að fara í skóla.
Þá verðum við orðin ein eftir í kotinu, gömlu brýnin.
Reyndar er ég að fara í skóla líka, en það er ekki fyrr en í lok ágúst og aðeins í tvær vikur. Aldrei hefði ég trúað því að óreyndu að ég ætti eftir að innritast í Landbúnaðarháskóla, en svona er þetta, aldrei að vita hvar maður lendir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?