<$BlogRSDURL$>

júní 10, 2005

Þvottavélar og hunangsflugur 

Í góða veðrinu í gær var mikið af stórum og feitum hunangsflugudrottningum á sveimi í leit að bústað. Ég hafði opið út í góða veðrinu og heyrði í einni frammmi í þvottahúsi. Náði mér í krukku til að veiða hana í og fór fram. Hún virtist vera alveg heilluð af þvottavélinni minni, sem reyndar var í gangi. Það var því lítið mál að hvolfa yfir hana krukku og koma henni út.

Tíu mínútum seinna heyrði ég í annarri drottningu, suðandi frammi í þvottahúsi. Hún var líka mjög hrifin af AEG-þvottavélinni minni og fékk snarlega sömu meðferð og hin fyrri. Í krukku og út í skóg.

Ég fór svo að velta því fyrir mér hvað það væri við þvottavélina mína sem höfðaði svona til hunangsflugna.

Suðið, hitinn, lyktin af þvottaefninu, þýska gæðamerkið eða liturinn ? Maður spyr sig ?

júní 08, 2005

Björninn kominn heim ! 

Björninn minn og Eyjastúlkan hans komu um hálfsjö í gær. Faraskjótinn var ekki sérlega traustvekjandi, gamall Daihatsu Charade, en hann á vinkona þeirra sem verður að vinna á Fosshótelinu á Hallormsstað, ásamt Eyjastúlkunni. Björninn pantaði "eitthvað íslenskt" í kvöldmatinn og hvað er svo sem íslenskara en lambalærisneiðar steiktar upp úr eggjum, rjóma og raspi. Þau tóku alla vega vel til matar síns öll þrjú. Stelpurnar fóru svo beint upp á hótel til að koma sér í gírinn fyrir verkefni dagsins í dag. Björninn mætti í sína vinnu hjá VST snemma í morgun.

Veðrið er gott og lífið bara töluvert bjartara fyrir vikið.

júní 06, 2005

Garðvinna og gott veður ! 

Ég er sólbrunnin á handleggjunum eftir að vera úti í garði í mest allan gærdag. Verkefnin voru nokkur og ég var ekki ein, heldur voru bóndinn og nágrannarnir með í framkvæmdunum, þar sem hluti verkefnanna er á sameiginlegu svæði. Fram að þessu hefur þetta verið óræktarrák á milli lóðanna, en nú höfum við gerst landtökufólk (sbr. hústökufólk), lagt undir okkur svæðið og gert það sómasamlega útlítandi.
Það sem var á verkefnalista dagsins var þetta:
  • Útbúa beð fyrir koparreyninn minn.
  • Taka til kringum húsið.
  • Hreinsa beð og vökva plöntur í garðinum.
  • Slétta og þekja með barkarkurli svæði við hliðina á bílastæðinu.
  • Lagfæra og setja kurl á stíg yfir í næsta hús.
  • Fella nokkur birkitré
  • Grilla og borða góðan mat


  • Svæðið leit orðið býsna vel út eftir aðgerðirnar.

    Svona leit það út fyrir tæpu ári síðan:


    This page is powered by Blogger. Isn't yours?