<$BlogRSDURL$>

júní 25, 2006

Skógardagurinn mikli ! 

Skógardagurinn mikli var í gær. Það var mikill léttir að vakna í gærmorgun og sjá að það var glampandi sólskin og frekar lygnt. Við byrjuðum á að fara út í skóg og afmarka þar svæðið, þar sem skógarhöggskeppnin fór síðan fram. Bóndi minn var reyndar að keppa, þannig að ég þurfti að taka að mér hlutverk kynnis, ræsa keppendur og lýsa því sem fram fór. Keppnin skiptist í tvennt: Skógarhögg, þar sem hver keppandi felldi og afkvistaði tvö tré með keðjusög og svo Viðarvinnslu, þar sem keppendur klufu búta í eldivið með öxi og söguðu sneiðar af trjábolum með keðjusög. Allt var þetta tímamælt og síðan bætt við sekúndum ef menn ekki uppfylltu gefin skilyrði.
Sigurvegarinn varð Lárus Heiðarsson, eins og í fyrra, en bóndi minn varð í öðru sæti.
Það var ekki bara skógarhögg - það var skógarhlaup, bæði skemmtiskokk og 14 km hlaup, veitingarnar voru ekki af verri endanum, heilgrillað naut, pylsur, lummur steiktar á pönnu yfir varðeldi og svo auðvitað ketilkaffi. Það voru tónlistaratriði og atriði úr Ávaxtakörfunni gerði feiknarlega lukku hjá krökkunum. Ég hef ekki hugmynd um hvað margt fólk var á svæðinu - en það var dágóður fjöldi.
Í gærkvöldi var síðan haldið í Víðivallaskóg, etið og drukkið, sungið og spjallað fram eftir kvöldi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?