<$BlogRSDURL$>

apríl 16, 2004

Ég var að keyra heim frá Egilsstöðum í dag, eftir Vallaveginum auðvitað, þar sem lögboðinn hámarkshraði er 90 km. Ég var ein í heiminum á nýja bílnum mínum, engin umferð, auður vegur og var þess vegna komin í 110 alveg óvart. Og hvað haldiði, löggan birtist með væli og bláum ljósum, höfðu legið í leyni og nöppuðu mig.

"Þú mældist á 100 km hraða, þú veist hvað það þýðir er það ekki" ?
"Hámarkshraðinn er 90 km á þjóðvegum landsins, er ekki svo, hmm ?"
"Greinilegt að þú hefur brotið landslög, er ekki svo, hmmm ?"


Þá var mér nóg boðið:
"Ég tel að lög um hámarkshraða á þjóðvegunum séu úrelt, barn síns tíma og því dettur mér ekki í hug að fara eftir þeim. Ég tel mig ekki hafa brotið nein lög þar sem sannfæring MÍN segir mér að hámarkshraðinn eigi að vera hærri- 110 km t.d."

Löggurnar litu hvor á aðra og síðan á mig og skelltu síðan upp úr:
"Hva, heldurðu að þú sért dómsmálaráðherra ?"
Og svo skelltu þeir á mig handjárnum og teymdu mig inn í bílinn sinn, nú eða hefðu a.m.k. gert það ef ég hefði ekki verið að búa þessa sögu til.

Ég fór reyndar í Egilsstaði, en bara til að fara til læknis og verða mér úti um sýklalyf til að vinna á þessari pest sem hefur hrjáð mig allt of lengi.
Núna hefði ég t.d. setið í dýrðlegum kvöldverði á Hótel Héraði, ef ég hefði ekki afþakkað gott boð, þar sem ég gat ekki hugsað mér að sitja þar, hóstandi og snýtandi. Heima er best á best við í svona tilvikum.

Kvöldmaturinn: Þykkmjólk með sýklalyfjum og Bentasil í eftirrétt.

apríl 14, 2004

Björninn minn fór til Eyja í gær eins og til stóð. Mætti í skólann í morgun en var svo sendur heim, þar sem hann stóð ekki í lappirnar - orðinn hundveikur. Mátti reikna með þessu miðað við það heilsufar sem búið var að vera á heimilinu í páskafríinu.
Ég er að vinna, þrátt fyrir að vera hálflasin, ekki með hita og þá mætir maður, þó svo að líðanin sé ekki upp á mjög marga fiska. Það er líka svo leiðinlegt að vera veik.


apríl 12, 2004

Það er illa farið með góða frídaga að eyða þeim afvelta í aumingjaskap uppi í rúmi eða sófa. Í þetta hafa páskadagarnir farið hjá mér. Fer að leita til læknis ef ég fer ekki að lagast. Stefni að því að fara í vinnu á morgun, sé samt til hvernig mér líður í fyrramálið
Björninn minn er að pakka niður - fer til Eyja á morgun. Það er búið að vera ósköp gott að hafa hann heima og sem betur fer ekkert svo langt þar til hann kemur aftur austur.
Ég er farin í rúmið - best geymd þar.

Þetta páskafrí er búið að vera dálítið undarlegt. Fyrir utan Norðfjarðarferð okkar bjarnarins og bráðnauðsynlegar Egilsstaðaferðir hef ég ekki farið neitt, eða gert svo sem neitt af viti heldur. Matarstúss, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að synir mínir eru heima við allan daginn, hefur verið það eina sem ég hef verið að dunda mér við.
Bóndinn er búinn að vera veikur alla páskana og í gær var ég orðin hálflasin líka. Dagurinn í dag hefur ekki verið neitt sérlega ánægjulegur, matarlystin í lágmarki - sbr. lítið snert páskaegg - nautasteikin hálfbragðlaus, að mér fannst, en karlmennirnir voru ánægðir með hana. Það þýðir bara að ég finn lítið bragð að því sem ég borða. Fékk mér smávegis rauðvín með matnum en fékk bara vondan höfuðverk af því.
Veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að lýsa þessu ástandi meir. Það fer bara versnandi við það. Er að hugsa um að fara í rúmið og vorkenna sjálfri mér þar - og gera ekkert annað á meðan !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?