<$BlogRSDURL$>

ágúst 13, 2004

Af afmælum  

Elsti bróðir minn, Steinþór, er fimmtugur. Á sunnudaginn verður Haraldur, næstelsti bróðir minn, fimmtugur. Hann ætlar að vera í Mjóafirði um helgina og þangað ætlum við hjónin á morgun ef bakið á mér þá leyfir. Hann tilkynnti að það væri harðbannað að færa honum gjafir, nema þá ef hægt væri að eta þær eða drekka á staðnum. Pabbi tautaði nú eitthvað í þá áttina að Haraldi yrði nú illt ef hann ætlaði að éta afmælisgjöfina frá foreldrum sínum, ég segi ekki meir. Þau verða fjarri góðu gamni, gömlu hjónin, eru í Rínardalnum að taka út vínframleiðsluna.
Einar, yngsti bróðir minn, ætlar að sigla með gesti frá Neskaupstað en við ætlum að fara akandi. Það liggur samt við að mig langi til að keyra frekar á Norðfjörð og fara siglandi í afmælið. Það er vissulega meiri stíll yfir því.
Það sem er skelfilegt við þetta allt saman er að ég er næst í systkinaröðinni - næsta fimmtugsafmæli í fjölskyldunni er víst mitt, en hey, það er nú svoooo langt þangað til !!!

ágúst 12, 2004

Lítill fugl 

Í skóginum okkar hafa tekið sér bólfestu pínulitlir fuglar sem kallast glókollar. Þeir eru töluvert minni en músarindillinn, sem hingað til hefur verið talinn minnsti fugl á Íslandi. Glókollurinn er mjög kvikur og erfitt að koma auga á hann, en sítístandi þannig að yfirleitt veit maður af honum ef hann er einhvers staðar nálægur.
Í dag var ég úti í garði og heyrði tístið í þessum nýbúum fyrir neðan húsið hjá mér. Ég var að reyna að koma auga á þá en gekk illa. Stuttu seinna fór ég inn og heyrði þá eitt bank á dyrnar hjá mér. Ég fór til dyra, en sá engan mann, en á stéttinni fyrir framan dyrnar kúrði lítill glókollur. Hann hefur sennilega flogið á gluggann við hliðina á útidyrunum.
Ég tók hann upp og hélt fyrst að hann væri dauður, en svo var ekki.
Svona leit krílið út:

Þegar ég var búin að taka þessa mynd, sleppti ég greyinu og hann flaug upp í grenitré rétt fyrir neðan húsið hjá mér. Vonandi verður honum ekki meint af ævintýrinu.

Um víðan völl .... 

Enn einn heitur dagur runninn upp. Hitinn kominn vel yfir 20 stig fyrir kl. 9 að morgni.
Ég fór ekki í vinnuna í gær, sá fram á að endast frekar stutt, þar sem bakið var með verra móti. Gerði fátt annað en dorma úti á palli og rölta um næsta nágrenni.
Hérna skammt frá er hús sem er notað sem orlofshús á sumrin og þangað koma nýir íbúar í hverri viku. Þegar ég gekk þar framhjá í gær sá ég andlit sem ég kannaðist við. Þar voru þá systkini ásamt móður sinni, sem dvöldu oft um lengri eða skemmri tíma í minni heimasveit á árum áður. Ég fór og heilsaði þeim og við spjölluðum smástund um heima og geima. Skrítið hvað það er auðvelt að tala við þá sem maður þekkti sem barn, þó lítið sem ekkert samband hafi verið öll þessi ár.
Foreldrar mínir eru að fara til Þýskalands á morgun. Ekki kannski markvert að öðru leyti en því að móðir mín hefur aldrei áður komið út fyrir landsteinana. 76 ára í sinni fyrstu utanlandsferð. Ég vona bara að þau skemmti sér vel.
Veit ekki hvað ég geri í dag. Er að bíða eftir símtali frá lækninum mínum, sem er að reyna að koma mér að hjá taugasérfræðingi.
Pallurinn minn er óþarflega heitur til að vera þar allan daginn í svona veðri. Í gær var hann svo heitur að það var ekki hægt að ganga berfættur á honum. Kannski ég skreppi út í skóg að finna mér rifs. Það vex villt hér út um allt og lítur út fyrir góða uppskeru þetta árið.

ágúst 10, 2004

HEITT !!! 

Það eru 26.8 stig í forsælu núna að verða 5 síðdegis. Heitasti dagur sumarsins, enn sem komið er að minnsta kosti. Það er þokkalega heitt um allt land heyrist mér og Jökla kemur til með að stríða verktökunum við Kárahnjúka næstu daga.
Samt heyrði ég í útvarpinu áðan að maður hefði verið stöðvaður á vélsleða á Digranesvegi í Kópavogi í dag.
Annað sem ég heyrði í útvarpinu voru úrslit í hanagalskeppni í Svíþjóð ! Er gúrkutíð ??

ágúst 09, 2004

Nýju húsgögnin eru komin. 

Já, og ekki bara komin, heldur líka búið að setja þau saman og flytja gömlu stólana og borðstofuborðið til Þóru á 8a. Frumburðurinn snaraði þessu lítilræði milli húsanna og notaði tiltölulega fá skref. Þessi húsgögn voru keypt fyrir u.þ.b. 20 árum og bera merki þess að hafa verið notuð sem borðstofuborð, eldhúsborð, skrifborð, smíðaborð og sólpallsborð. Stólarnir voru líka farnir að líta upp á landið. Gestur nokkur, sem reyndar á svolítið erfitt með að sitja kyrr, juðaði einum þeirra í sundur þrisvar sinnum á þeim tíma sem það tók hann að drekka tvo kaffibolla. En hann var nú líka úr Fljótsdalnum.

Brjósklos í blíðunni 

Ójá, það er staðfest sem mig grunaði allan tímann. Ég er með brjósklos í bakinu og get því vænst ýmissa miður skemmtilegra hluta á næstunni. Veit ekki neitt um framhaldið. Ætli sé ekki rétt að finna sér sérfræðing í þessum meinum og fá að vita meira um það sem hægt er að gera í málinu.
Ég horfði á hitamælinn hækka úr 14 gráðum í nærri 19 á rúmum klukkutíma milli fjögur og hálfsex í dag. Frekar óvenjulegt, eins og rakinn í loftinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?