<$BlogRSDURL$>

nóvember 18, 2006

Í kulda og trekki... 

Það er grimmdarfrost, - 12° segir mælirinn minn og hann er sannsögull. Að öðru leyti er veðrið bara fallegt. Ég hef hins vegar alveg látið vera að fara út í dag. Búin að mála tvær umferðar yfir veggina í herberginu mínu. Á bara eftir að mála seinni umferðina í kverkar og horn og þessa erfiðu staði sem alltaf taka lengstan tíma. Ætla að gera það í kvöld. Á morgun verður svo málningarlímbandið fjarlægt, fjarlægðar slettur af gólfi og glugga, rafmagnsdósir settar á sinn stað og ljósin skrúfuð upp aftur.
Bóndinn er væntanlegur heim annað kvöld og verður þá búin að heimsækja öll norðurlöndin nema Færeyjar á einni viku. Það má þó ekki miklu skeika í fluginu til að hann missi af flugi austur annað kvöld og ef eitthvað er að marka veðurspár er þá eins líklegt að hann sitji um kyrrt í höfuðborginni í 1-2 daga. En veðurspár hafa stundum brugðist og flugáætlanir hafa stundum staðist, þannig að kannski kemst hann bara heim.
Það kemur í ljós á morgun.

nóvember 16, 2006

Óveður ! 

Ég er að hugsa um að vera heima í dag. Nokkrar góðar ástæður:
- Undanfarna tvo daga hef ég mætt samviskusamlega í vinnuna, þrátt fyrir að vera nærri helmingi lengur en venjulega að keyra í vinnuna og svo heim aftur, sökum veðurs og færðar. Í dag er veðrið mun verra en undanfarna tvo(huh, það passar, þeir spáðu sólskini), svo ef ég verð helmingi lengur en í gær, tekur því varla að leggja af stað.
- Bíllinn minn er enn á sumardekkjum og ég hef verið að nota 4x4 bíl bóndans í fjarveru hans. Sá ágæti bíll er líka á lélegum dekkjum og engan veginn nógu öruggur.
- Ég er búin að kaupa málningu á herbergið mitt og er í miðjum klíðum að spartla og undirvinna fyrir málningu. Hef sem sagt nóg að gera hér heima.
- Ég á inni frídaga, sem ég þarf að taka út í þessum mánuði.
- Það sem ég þarf nauðsynlega að klára í vinnunni í dag, get ég gert hérna að heiman frá mér.

Niðurstaða: Verð heima

nóvember 14, 2006

Spurning ! 

Ég var að hlusta á viðtal við Árna Johnsen í útvarpinu í gær. Það er alveg ótrúlegt að heyra í manninum. Hann talaði eins og árin á Kvíabryggju væru bara óheppni, afleiðing af hans vinnubrögðum, fórnarkostnaður svo að segja. Ekki orð um að hann sæi eftir þessu framferði sínu. Ekki vottur af iðrun, hvað þá að biðja landsmenn velvirðingar á athæfinu.
Og þegar hann var spurður um hvað honum þætti um afdrif kvenna í prófkjörinu á suðurlandi, sagði hann eiginlega: Þetta er bara þeim sjálfum að kenna, þær eru ekki nógu góðar í slagnum.

Hroki, kvenfyrirlitning, sjálfumgleði og siðblinda voru orðin sem komu upp í huga minn meðan ég hlustaði á manninn.

Ég heyrði svo í morgunútvarpinu að Árni hefði tvisvar haft vetursetu í Surtsey.

Væri ekki bara rétt að flytja hann þangað aftur ?

nóvember 13, 2006

Home alone 

Nú er ég alein heima. Bóndinn farinn af landi brott í vinnuferð og kemur ekki heim fyrr en eftir viku.
Það er líka búið að ganga á ýmsu í veðri og samgöngum. Pabbi kom uppeftir á föstudaginn, ætlaði til Reykjavíkur, en þar sem ekki var flogið fyrr en síðdegis á laugardag, var hann hjá okkur þangað til. Í gær var svo vesen með flug líka, hliðarvindur á brautinni, seinkun og vesen, þannig að sá möguleiki að aka suður ef ekki yrði flogið, var inni í myndinni. Til þess kom þó ekki og bóndinn komst suður í gærdag.
Ég ætla að nota tímann vel, bóna nýlakkaða gólfið í herberginu, setja upp gardínur, flytja húsgögnin á sinn stað og hengja upp á veggina það sem þar skal vera.
Svo er næsta mál að flytja mig milli herbergja, tæma hjónaherbergið og byrja að vinna það undir málningu. Það ræðst svo alveg af tíma og "nennu" hvað ég kemst langt í verkefnunum.
Svo var ég að fá boðskort frá Hótel Héraði í Beaujolais Nouveau - kynningu á fimmtudagskvöldið. Rauðvín í lítravís. Boðskortið gildir fyrir tvo svo nú vantar mig einhvern til að fara með mér og svo einhvern annan til að keyra mig heim á eftir.
Býður einhver sig fram ?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?