<$BlogRSDURL$>

desember 17, 2005

Minning 

Þann 17. desember 1955 fæddist bróðir minn, Sigurður Þórarinn. Hann fórst af slysförum tæplega 27 ára gamall og lét eftir sig konu og þrjú börn.

Í dag hefði hann átt fimmtugsafmæli.

Bróðir

Í óravíddum himins
blika augu þín
meðal stjarnanna.
Fylgjast með okkur
sem ennþá dveljum
þar sem áður varstu sjálfur.

Vinur minn og bróðir,
í mínum augum
betri en allir aðrir.
Orðfár og dulur
en alltaf þó
í augunum glettið blik.

Óvænt brottför þín
úr þessum heimi
skildi eftir tóm,
spurningu án svars,
Hvað ef þú
hefðir ekki dáið ?

Ég vona, bróðir
að þú brosir við mér
þegar við hittumst
meðal stjarnanna
heil að nýju
í heimi friðar.

desember 14, 2005

Annir og tímaleysi ! 

Ég hef allt of mikið að gera þessa dagana. Tímapressa í vinnunni, erum á síðustu vikunum í verkefninu sem við höfum verið að vinna í undanfarin 3 ár ! Afhendingardagsetning er í lok febrúar og ansi mörg atriði eftir.
Ég tók mér líka svo veglegt sumarfrí að ég á lítið frí inni og því verður jólaundirbúningur með minna móti í ár af minni hálfu. Frumburðurinn er hins vegar kominn í frí, bóndinn EKKI upptekinn við að fella og afhenda jólatré, (hefur verið í því undanfarin 14-15 ár), björninn að mestu kominn í frí eftir helgi en ég þarf að vinna fram á Þorláksmessu. Er að hugsa um að fela bóndanum yfirumsjón með því sem eftir er að gera - s.s. matarinnkaupum, þrifum, öflun jólatrés og fleiru slíku. Á bara eftir að bera það undir hann.
Björninn bauðst til að þrífa neðri skápana í eldhúsinu eftir að ég bauð honum í jólahlaðborð um daginn og frumburðurinn hefur fengið efri skápana í sinn hlut, eftir að mér varð það á að þrífa herbergið hans hátt og lágt. Átti von á næturgesti og missti mig aðeins þegar ég var að búa um rúm handa honum.
Er reyndar búin að baka einhverjar smákökur og fyrsta skammt af döðlubrauðinu mínu. Sá skammtur verður að líkindum langt kominn fyrir jól en ég baka bara meira ef þess þarf.
Jólakortin hafa verið hönnuð, prentuð og árituð og bara eftir að koma þeim til viðtakenda. Pakkar til útlanda farnir í póst og gjafir sem á að senda í aðra landshluta bíða pökkunar. Um næstu helgi er svo stefnan að klára gjafamálin, kaupa jólamatinn að mestu, fara og ná í jólatré út í skóg, gefa bæjarstjóra og bæjarritara kakó og döðlubrauð eftir að þeir eru búnir að bamba til skógar eftir sínum trjám og baka þetta smáræði sem eftir er á listanum.
Á mánudaginn ætla ég svo að baka svolítið af laufabrauði með tengdamömmu. Við erum sammála um það að við viljum nýtt laufabrauð ! Ekki eitthvað sem búið er að geyma í mánuð !
Er samt ekki alveg dásamlegt að hafa úthald í þetta allt saman ! Mér líður nefnilega ekkert illa þó ég hafi mikið að gera.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?