<$BlogRSDURL$>

nóvember 22, 2003

Var að lesa sögu um kött og mús hjá Gullu.
Mýs eru mörgum ákaflega ógeðfelldar og margar sögur til af slíku. Eitt sinn var maður, sem til skamms tíma var afkastamikill kartöflubóndi, við annan mann að sækja kartöflur sem geymdar voru í haug í garði alllangt frá bænum. Þeir höfðu farið á dráttarvél með vagn snemma um morguninn en þegar þeir voru ekki komnir heim um kaffi-leytið fór eiginkona hans að undrast um þá, hringdi og bað mig að keyra upp í garð og athuga málið. Ég fór þó ekkert, því hún hringdi aftur og sagði að þeir væru komnir. Ástæðan fyrir töfum þeirra voru mýsnar, sem höfðu komið sér þægilega fyrir í kartöfluhaugnum, en fældust út hver af annarri þegar farið var að eiga við hauginn. Og þar sem þeir voru báðir dauðhræddir við mýs, hlupu þeir burtu í hvert skipti sem sást músargrey, og biðu síðan þar til hún var komin í hæfilega fjarlægð.
Ég hefði viljað sjá þessar aðfarir !

nóvember 21, 2003

Kíkti á pistlana "Húsavík í morgunsárið" í dag og í gær. Þessir pistlar ERU snilld.

Er annars boðin í teiti á HH(Hótel Héraði) á eftir - til að bragða á nýja víninu Beaujolais Nouvau (núvó).

- kann ekki frönsku, tók forritun sem val grein í MA, en sleppti frönskunni. Þáverandi konrektor, núverandi menntamálaráðherra og verðandi sendiherra var heldur fúll við mig þegar ég tók þessa ákvörðun. -

Hvað um það - hlakka til að smakka rauðvínið !

Það borgar sig að gera við veiðistengur fyrir hótelstjóra !

Prófanir og aftur prófanir, um þær snýst allt hjá mér þessa dagana. Mér líður samt betur með að flest allar athugasemdir sem ég geri eru svo smávægilegar að þær er hægt að lagfæra með litlum tilkostnaði.
Það snjóar annan daginn og rignir hinn, veðrið ekki beinlínis hvetjandi til útiveru. Hef þess vegna tekið upp á því að skreppa í sund í hádeginu. Ekkert hangs, bara dríf mig út í laug syndi 2-300 metra, fer í nuddpottinn í 5 mínútur og svo upp úr aftur. Greinilega ekki margir sem fara í sund í hádeginu - ég er yfirleitt nánast ein í lauginni.
Smá brandari hér .

Farin í sund....

nóvember 19, 2003

Esjan er mikils virði samkvæmt hagfræðingnum sem kom í sjónvarpið í kvöld og lýsti athugunum sínum á auknu verðmæti húsnæðis þar sem sést til Esjunnar.

Þegar ég kom til Reykjavíkur í fyrsta skipti og spurði frænku mína hvar Esjan væri benti hún og sagði: "Þarna" !!
Ég horfði eftir fjalli en sá ekkert.
Nokkrum árum seinna þegar ég var í skóla í Reykjavík, varð mér það á að spyrja sömu spurningar. Bekkjarsystur mínar tvær göptu af undrun: "Esjan, nú þarna er hún"!! og bentu út um gluggann á skólastofunni í KHÍ. Ég sá ekkert fjall en var frakkari en áður og sagði mína skoðun. Þetta væri ekki fjall, bara svona þúst í fjarska.
Ég er alin upp við rætur 1000 m hás fjalls og Esjan var ekki "fjall" skv. minni túlkun á því orði.
Þar með fékk ég DB-stimpil (DB = dreifbýli) og var færð skör neðar í virðingarstiganum. Ég tók því ekki illa, enda alltaf verið hreykin af mínum DB-uppruna.
Ég vissi ekki þá að Esjan væri svona mikils virði....

Ég er að skrifa prófunarlýsingu fyrir frumútgáfuna okkar. Ég þarf að setja mig í alveg sérstakar smásmugustellingar í þessu verkefni. Svona hljóta endurskoðendur að vera alla daga og kannski fleiri. Þetta er ekkert sérstaklega skemmtlegt, en verður að gerast, því við viljum fá fram sem flestar villur núna - ekki að notendurnir fá þær í andlitið seinna meir.

Áfram með smjörið.....

nóvember 18, 2003

Jæja, sáuð þið bóndann að fella jólatréð handa Berlínarbúum í sjónvarpinu í gær ! Það er hægt að selja allt !!
Hver hefði trúað því fyrir örfáum árum að Íslendingar ættu eftir að flytja jólatré til Þýskalands.

Nú getum við farið að mala kaffi og selja til Brasilíu.

Nánar um þetta á mbl.is, heimasíðu Austur-Héraðs og Skógræktar ríkisins

Og fyrst ég er að tala um bóndann þá er víst mynd af honum og grein eftir hann á heimasíðu Héraðsskóga.


nóvember 17, 2003

Það kom til tals um helgina að Gunna fékk Sjallabikarinn árið sem hún útskrifaðist úr MA. Sjallabikarinn var svona "virtual " bikar, veittur fyrir bestu ástundun í Sjallanum. Gunna hefur ekkert slaknað í þessum efnum, því eftir gott partý um helgina er hún farin að skipuleggja næsta partý, jólaglögg af finnskum uppruna.

Uppskrift:
1 lítri vodki,
1 rúsína,
hrært í og skreytt með greni.

Go Gunna !!

Þessi helgi verður eftirminnileg - ég ætla ekki að fara að segja söguna aftur - Nanna gerir það svo ágætlega á sinni síðu. Ég keyrði ein norður og frétti af þessu þegar ég kom til Akureyrar. Við héldum okkar striki og ég held að við höfum allar verðið sáttar við málalokin. Ég get þó sagt það með sanni að ég keyrði mun varlegar austur en ég hefði annars gert.

nóvember 16, 2003

Komin heim, heilu og höldnu, eftir góða ferð norður. Er bara dálítið þreytt !
En ég get þó sagt ykkur að maturinn hjá Nönnu var GUÐDÓMLEGUR !!

Sammála stelpur ??

This page is powered by Blogger. Isn't yours?