<$BlogRSDURL$>

mars 30, 2005

Eftir páska 

Páskarnir liðu án mikilla tíðinda. Páskaegg voru keypt og etin. Heimsóknir til foreldra og tengdaforeldra, góður göngutúr á föstudaginn langa (þó ekki í Mývatnssveit), leti, sjónvarpsgláp, matarstúss og át. Bóndinn lenti í töluverðri vinnu vegna vandamála í vatnsmálum á Hallormsstað. Vonandi verður farið að bora eftir vatni fljótlega svo við þurfum ekki að vera háð veðurfari í þessum efnum.

Ég er að fara suður á morgun á námskeið. Það stendur allan föstudaginn og ég verð í bænum fram á laugardag. Höttur er að spila fyrsta leikinn í úrslitum á móti Val, kannski ég fari á hann og hvetji mína menn. Saumaklúbburinn er eitthvað að lifna og ef verður af plönum um að hittast á föstudag, mæti ég þar, ekki spurning.

Spurningakeppnin hélt áfram í gærkvöldi. Við unnum Verkfræðistofu Austurlands í 16 liða úrslitum en töpuðum svo með eins stigs mun gegn kennurum Fellaskóla í 8 liða úrslitunum. Þeir voru svo fljótir á bjölluna, greinilega búnir að þjálfa vísifingur sína sérstaklega. Annað markvert í þessari keppni var að nemendur ME unnu kennara sína. Það er annað hvort vegna þess að þeir sem semja spurningarnar eru nemendur ME, eða að kennarar ME fara fram úr eigin getu við kennsluna. Hvor skýringin ætli sé nú líklegri ?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?