<$BlogRSDURL$>

júní 25, 2004

Fyrir hvern ? 

Björninn minn var í fríi í mest allan dag. Ég nefndi það við hann, þar sem hann datt inn á MSN, að fyrst hann væri heima væri sniðugt að setja í þvottavél. Hann tók vel í það og þegar ég kom heim var þvottavélin búin, bara eftir að hengja upp þvottinn. Hann tilkynnti mér svo að hann hefði sett í þvottavélina "fyrir mig" og vænti þess að fá prik fyrir. Ég hengdi síðan upp úr þvottavélinni og fann reyndar tvo sokka (m.a.s. samstæða) sem ég átti. Annað í vélinni var af hinum í fjölskyldunni. Samt var verið að þvo fyrir mig !

Framhaldsskólar og fjöldi nemenda 

Það vakti upp réttláta reiði meðal foreldra og nemenda sem sóttu um skólavist strax eftir að 10. bekk lauk, að fá þau svör að ekki væru til fjármunir til að halda uppi kennslu fyrir allan þennan fjölda nemenda.
Og hvað gerist svo: Fjölmiðlar segja frá, Þorgerður Katrín kemur eins og frelsandi engill og segir að þessu verði bara bjargað. Fær örugglega prik og væntanlega atkvæði í næstu kosningum fyrir það.
Málið er samt aðeins flóknara en þetta. Það var nefnilega alveg ljóst þegar fjárlög voru samþykkt að einmitt þetta yrði raunin, en þá varð að skera niður og því fór sem fór.
Þetta er sama sálfræðitrixið eins og að taka mat frá svöngum manni og láta hann síðan hafa sama matinn eftir að vera búinn að kvelja hann pínu, og þá breytist kvalarinn í góðmenni.

júní 23, 2004

Enginn stafsetningarhreinleikastefna hér ! 

Á bloggsíðu Önnu Berglindar, bakarastúlku, flugnema og hjálparsveitarhetju er að finna dæmi um umburðarlyndi í ritun íslensks máls.

júní 21, 2004

Fjörið heldur áfram .... 

Ég náði ekki almennilega að klára bloggfærsluna í gær, því í mig hringdi kona sem ég var búin að lofa að fara með í fjallgöngu. Því æxlaðist það þannig að ég var komin upp í fjall um hádegi í gær. Skemmtileg ganga á fallegan stað.

Ég fór síðan að brasa ýmislegt heima hjá mér, en settist niður inni í stofu og steinsofnaði í stólnum. Tíu mínútum seinna vaknaði ég við að bróðir minn var kominn í heimsókn með sína fjölskyldu. Við fórum með þeim að skoða sýninguna og síðan var kveikt upp í grillinu og matreidd dýrindis máltíð. Ekkert mál þegar allir hjálpast að.

Hefði eiginlega þurft að eiga frí í dag til að hvíla mig eftir helgina.

júní 20, 2004

Nóg að gera ... 

Það er búið að vera svo margt að gera og skemmtilegt að ég hef ekki gefið mér tíma til að koma því áleiðis.
Föstudagurinn byrjaði ósköp venjulega, ég fór í vinnuna og var þar fram yfir hádegi. Þá birtist pabbi og ég ákvað að taka mér frí það sem eftir lifði dags og fara með honum í plöntuöflunarferð með útúrdúrum. Sem við svo gerðum.
Í gær var svo opnun á sýningunni Fantasy Island hér í skóginum og úti á Eiðum. Fullt af fólki kom á opnunina og þetta varð mjög skemmtilegt. Við fórum síðan á eina opnun enn, á Seyðisfirði, þar sem borðuðum kvöldmat með listamönnunum og öðrum þeim sem komið höfðu að undirbúningi sýningarinnar.
Héldum heim tiltölulega snemma, en ákváðum á leiðinni að fara í skógargöngu ásamt mæðgunum Kristínu og Sunnu.

Það er hvergi betra að vera en hér á Hallormstað, en samt er ég farin að hlakka til að komast í frí, sumarbústað suður á landi í viku, þar sem engar áætlanir eru gerðar fyrirfram og bara framkvæmt það sem okkur dettur í hug hverju sinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?