<$BlogRSDURL$>

janúar 10, 2004

Hér er nýafstaðið "Nördapartý" - frumburðurinn er með liðið sitt í þjálfunarbúðum og það var komið hingað í pásu og til að horfa á eldri Gettu Betur þætti á Vídeói. Hann tók sjálfur þátt í svona keppni 1998 og komst alla leið í undanúrslit. Á þessa þætti var verið að horfa og skemmtu menn sér konunglega yfir ýmsu sem þarna sást og heyrðist. Verst að Björninn minn var ekki heima !



janúar 09, 2004

Hálkan er söm við sig. Ég var vakin með símhringingu snemma í morgun, það var verið að leita að bóndanum vegna þess að strákbjáni á sumardekkjunum hafði laumast eftir göngustígnum ofan úr skóla og lent í skurði hérna rétt hjá. Sem betur fer var bóndi minn lagður af stað til Akureyrar og slapp við brasið.
Ég þurfti á þolinmæði að halda á leið í vinnuna því hálfa leiðina keyrði ég á eftir ungri stúlku á jeppa, sem keyrði lúshægt á miðjum veginum og mér finnst ennþá svo gaman að lifa að ég tek ekki neina sénsa á framúrakstri í svona hálku.

Var annars að vinna á Norðfirði og skrapp í kjötsúpu til Einsa bróður í hádeginu, alveg eðalsúpa. Hreinsaði aðeins til í tölvunni hans í leiðinni og var þar með búin að vinna mér inn svolítið af fiski til að hafa með mér heim.
Á morgun verður sko eldaður góður fiskur !!

janúar 08, 2004

Það var svívirðilega hált í gærkvöldi og morgun og hérna í skóginum var verst. Bóndinn varð að skilja sinn eðalvagn (Volvo 142 árgerð 1974, já það er rétt 1974) eftir niðri í skógrækt þar sem sá gamli er eitthvað illa dekkjaður og á þar að auki við svipað skriðþungavandamál að glíma og sumir aðrir, ég nefni engin nöfn ! Minn bíll er ungur, sprækur og vel dekkjaður og fór þetta léttilega.

Ég þarf að fara á Norðfjörð á morgun að vinna. Skilst að hálkan sé ekki eins mikil á fjallvegum eins og í byggð, þannig að við Fjölnir, vinnufélagi minn, ættum að komast þetta án vandræða.

Þarf að verða mér úti um fisk, ekki veitir af eftir allt kjötátið um hátíðarnar. Best að athuga hjá litla bróður, hann lumar á ýmsu.....

janúar 07, 2004

Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang.... segir einhvers staðar. Fór í vinnuna eins og venjulega, en heldur lítið varð úr vinnu, þar sem hún Eygló sem svarar í símann og afgreiðir fólkið sem kemur með biluðu tölvurnar sínar eða hvað það nú er, var veik ! Og það var endalaust símablaður og vesen í allan dag. Kláraði samt greinargerðina sem ég var að vinna að og sendi til yfirlestrar.
Á leiðinni heim var flughált, hvasst og mikið af illa búnum, stórum bílum á ferðinni eða stopp í vegkantinum að setja á keðjur. Var þess vegna töluvert lengur en venjulega á leiðinni heim.
Þegar heim kom var ég ekki nema rétt komin inn úr dyrunum þegar bróðir minn hringdi í mig og meðan ég var að tala við hann kom mágkona mín í heimsókn, þorði ekki að keyra heim í heiðardalinn fyrr en þungaumferðin væri farin að minnka. Meðan hún stoppaði komu tveir ungir vinir mínir og bönkuðu upp á. Erindið var að reyna að selja mér "klósettpappír til styrktar einhverju" sem þýðir auðvitað "aura fyrir nammi". Ég lét ekki plata mig.
Loks komu vinir mínir, þau Jón og Kristín, í heimsókn. Jón tók syrpu á Gestabókinni eins og hann er vanur, en kona hans neitaði alfarið að skrifa nafn sitt undir listaverkið.



Meðan öllu þessu fór fram sat bóndinn (og situr enn) á bæjarstjórnarfundi og frumburðurinn er að þjálfa GettuBetur-liðið í ME. Björninn er í Eyjum, vona bara að hann hafi ekki fokið í þessum 40 m/s sem þar voru í dag.

janúar 06, 2004

Ekki datt mér í hug að þrettándinn yrði svona dagur. Hann byrjaði á nettu taugaáfalli - heyrði í fréttunum um litlu stúlkuna sem varð fyrir voðaskoti - brá svo skelfilega að ég var næstum búin að keyra út af. Ég vissi nefnilega um leið og ég heyrði fréttina hver þetta var. Hallormsstaður er ekki mjög fjölmennur staður og hér eru búsettar tvær 9 ára stúlkur !!
Fréttamenn, bæði á mbl.is og Ríkisútvarpinu, hefðu átt að bíða með að tilgreina staðsetninguna svona nákvæmlega a.m.k. fram eftir degi. Það er aldrei gott að fá svona fréttir í fjölmiðlum.

Ekki meira um það.

Jólin eru búin í þetta skiptið. Eftir því sem bóndinn tjáir mér eru hann og félagar hans sammála um að saggi hafi hlaupið í fataskápa þeirra um jólin, vinnubuxurnar hafi snarminnkað, einkanlega á þverveginn. Fataskápurinn minn er að vísu aðeins fjær glugganum en skápur bóndans, en í honum var lítill sem enginn saggi - fötin bara nokkuð svipuð og fyrir jól.
Þeir ganga kannski í einhverjum ofurviðkvæmum brókum þessir skógarmenn - hvur veit !!



janúar 05, 2004

Ég fór með bílinn minn í smurningu áðan, ekki svo sem frásagnarvert. Smurstöðin er hérna hinum megin við götuna og alveg dæmalaust þægilegt að skilja bara bílinn eftir hjá þeim um hádegið og rölta svo eftir honum þegar vinnu lýkur. Beggja hagur, svo að segja, þeir þurfa ekkert að flýta sér, geta tekið bílinn þegar þeim hentar og ég þarf ekki að panta tíma né bíða eftir bílnum. Núna er ég samt að hugsa um að fá vinnufélaga minn til að skutla mér þessa 20 metra - það er svo hált á leiðinni að ef ég væri ekki með skautahreyfingarnar í blóðinu frá því gamla daga, væri ég örugglega fótbrotin eða eitthvað þaðan af verra. Það var svo hált hérna á milli húsanna.

En, fjandinn hafi það, ég læt ekki á mig spyrjast að ég komist ekki milli húsa fótgangandi, þó hált sé.

Fer af stað NÚNA !

Þá er lífið að færast í hversdagslegan búning að nýju. Er mætt í vinnuna eftir langt og gott jólafrí. Dagurinn í dag fer í að rifja upp og reyna að muna.... setja sig aftur í stellingar fyrir prófun á verkefninu okkar, gera klárt til að sýna það eftir s.s. eina viku. En það verður lítið mál.

Björninn minn virðist ánægður í Eyjum, a.m.k. lítið að hringja í mömmu sína. Heyri í honum seinna í dag, vonandi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?