<$BlogRSDURL$>

apríl 19, 2003

Það fer margt öðruvísi en ætlað er. Í gærkvöldi þegar synir okkar voru farnir í menninguna og skemmtanalífið og við sáum fram á rólegt og hversdagslegt kvöld heima hjá okkur - bóndinn meir að segja búinn að sofna smástund í sófanum - hringdi síminn. Í símanum var kunningi okkar, staddur inn við Snæfell og var að leita að gistingu fyrir 11 manna hóp !
Endir mála varð sá að við gátum útvegað þeim gistingu hér á staðnum, og svo sátum við þessum skemmtilega félagsskap fram eftir kvöldi. Þetta voru félagar úr Jöklarannsóknafélaginu, höfðu komið yfir Vatnajökul og voru búin að vera í tómri þoku,ekkert séð nema húddið á sínum eigin bíl og GPS-skjái. Skálinn sem meiningin hafði verið að gista í var á 2 metra dýpi, Snæfellsskáli fullur af fólki, þannig að jöklaferðin endaði í vornæturstemmingu í Hallormsstaðaskógi.

Við fengum að heyra ýmsar sögur, m.a. sögu mannsins sem keypti sér hreindýraveiðileyfi á netinu fyrir 100.000. Til þess að ná dýrinu þurfti hann síðan að fara 2-3 ferðar milli Reykjavíkur og Egilsstaða, borga sexhjól sem hann eyðilagði í einni veiðiferðinni, borga 2-3 leiðsögumönnum laun fyrir ferðalög vítt og breitt í svarta þoku og annað eftir því. En hreindýrið náðist, og núna sagðist hann ekki stinga uppi í sig bita af þessu kjöti öðru vísi en að hugsa til þess hvað kílóið væri búið að kosta - men "sådan er livet".

Þegar við vorum að rölta heim milli 1 og 2 í nótt var 12 stiga hiti og veðrið er eiginlega enn betra í dag en í gær !! HVAR ENDAR þETTA - ég bara spyr !!

apríl 18, 2003

Fermingin afstaðin - allt gekk vel og dagurinn verður stúlkunni örugglega eftirminnilegur.

Í dag er svo föstudagurinn langi - og veðrið ótrúlegt !! Sólskin, 17-18 stiga hita, svolítill blástur EN ALGJÖRT ÆÐI !!!! Búin að fara í langan göngutúr út í skóg, í trjásafnið, niður að fljóti og aftur heim. Vorum meðal annar að skoða og ljósmynda skemmdir sem vatnavextirnir í haust og vetur hafa valdið á skóginum. Ljótt að sjá hvernig fljótið hefur rifið trén upp með rótum og lagt þau á hliðana, þannig að fjaran er á köflum illfær fyrir föllnum trjám.

Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í blogg dagsins, en fara út að undirbúa grill kvöldsins, svínakjöt - og kjúklinga - prófa kannski einhverja góða uppskrift frá Nönnu

apríl 16, 2003

Komin heim til föðurhúsanna á Kirkjumel - eyddi deginum með systur minni og ýmsum fleirum í skreytingingum og öðrum fermingarundirbúningi. Bara gaman að því. Annars var tilfinningin að koma á Norðfjörð sú að mig langaði að labba út í Urðir eða fara út á sjó, eins og maður hefði gert í svona veðri í gamla daga. Nostalgían stóð ekki lengi - sem betur fer.
Kom við hjá Einsa bróður á leiðinni heim , fékk mér 1-2 páskabjóra og við tókum smá spjall um lífið pg tilveruna. Frábær gaur hann litli bróðir minn. Hann er einhverjum 20 cm hærri en ég en samt er hann litli bróðir minn.

Meira síðar ....

apríl 15, 2003

Jæja gott fólk, ég er komin í páskafrí - PÁSKAFRÍÍÍ !! Var að hugsa um það í dag þar sem ég keyrði heim úr vinnunni - (besti "hugs"tíminn), að ég hef ekki átt páskafrí í allnokkur ár, ekki síðan 1998 - nánar tiltekið. Ástæða ?? Jú, ég var í fjarnámi sl. fjóra vetur, að læra kerfisfræði við HR og páskarnir hafa verið tími próflesturs eða verkefnavinnu eða hvort tveggja. Í fyrra voru páskarnir HORROR - lokaverkefnið í vinnslu - endalaus vinna og ekki tími til eins eða neins annars.
En allt tekur enda og ég lauk mínu námi sl. vor og á þess vegna PÁSKAFRÍ -

Það má ekki skilja það svo að ég ætli ekki að gera neitt, ég ætla að gera ýmislegt skemmtilegt, hitta stórfjölskylduna í fermingu og afmæli og gefa mér tíma í það og njóta þess !!

Veðrið er búið að vera frábært í dag og stefnir í áframhaldandi blíðu.

Er að horfa á matgæðingaþáttinn -Heima er bezt- með öðru auganu. Einhver Klingenberg-kona sem sér lengra en nef hennar nær og spáir einhverju ógurlegu í kappræðum Dabba og Sollu - þá á framtíð íslensku þjóðarinnar að ráðast næstu fjögur árin a.m.k.

Man allt í einu eftir að mig dreymdi alveg svakalega skrítilega sl. nótt. Mér fannst ég vera gestur heima hjá fólki sem ég umgekkst töluvert fyrir alllöngu síðan. Svo fluttu þau burtu, en í draumnum var ég þarna og þau bjuggu enn á gamla staðnum. Ég vissi að eitthvað hræðilegt var að fara að gerast, var að reyna að finna út hvað væri að og leitaði um allt húsið að sprengju eða einhverju. Heyrði svo óp úr kjallaranum (sem ekki er til í raunveruleikanum) - fór þangað og fann son minn - svona tíu ára (hann er 18 ára núna) - blóðugan eftir að hafa dottið í sturtunni. En - í því að ég tek hann í fangið til að fara með hann upp rek ég augun í SPRENGJUNA, sem reyndar var ekki sprengja heldur fata með skelfiski sem var orðinn svo skemmdur að við hefðum sennilega drepist úr ólykt ef fatan hefði sprungið. Fatan náðist, var borin út og allt reddaðist.

Klikkað - finnst ykkur ekki ?

apríl 14, 2003

Í dag er rigning, tiltölulega hlýtt - en rigning !
Ég er farin að hafa áhyggjur af skóginum, þar sem ég er eitt af "skógardýrunum". Ef það kemur slæmt hret, með norðanátt og frosti, má reikna með að allur sá gróður sem kominn er vel af stað verði fyrir heilmiklu áfalli.
Þetta er annars bara einn af þessum mánudögum - frekar dauft yfir öllum, en unnið af miklum krafti. Stress í gangi þar sem á morgun er skiladagur á framvinduskýrslu Rannís og Fjölnir, samstarfsmaður minn, situr þungbrýndur við tölvuna sína og vinnur sleitulaust við að endurgera verkáætlun m.v. nýjar forsendur.

Í tengslum við þessa vinnu erum við farin að planleggja sumarfrí.
- ER LÍFIÐ EKKI DÁSAMLEGT - ég fæ alveg sex vikna sumarfrí ef verkáætlunin okkar gengur eftir !! Hvað er eiginlega langt síðan ég hef tekið almennilegt sumarfrí !!

Ég vil ekki hugsa um það - núna er bara að leggja upp áætlun hvernig ég get fengið bónda minn til að taka sér sumarfrí líka og helst á sama tíma ! Skógræktarmenn eiga frekar erfitt með að taka sér frí á sumrin - en það hlýtur að fara að koma að honum - hann er búinn að vera að hliðra til vegna hinna ár eftir ár og venjulega endað á að taka sér frí í lok ágúst og svo í september og október.

Ætla út að labba á eftir þó það sé lítið gaman að því rigningunni og án félagsskapar vinkonu minnar, sem núna situr sveitt við mastersverkefnið sitt í Reykjavíkinni fyrir sunnan.


Baráttukveðjur til þín, Kristín, þetta er hægt og þú getur þetta !


Þangað til næst ..........


apríl 13, 2003

Jæja þá, sunnudagur, sól og blíða og bara vor í lofti. Ég var svo bjartsýn í morgun þegar ég kom fram á náttsloppnum, berfætt og nývöknuð og leit út um gluggann að ég dreif mig út á pallinn minn. Stoppaði ekki lengi því að vera berfætt á hvíthéluðum pallinum er mjög fljótleg aðferð til að vekja mann upp af einhverjum draumum um sól og sumar. En hann verður rosalega góður í sumar þessi pallur. Við byggðum hann í fyrra í einhverri skyndihugdettu rétt áður en við skutluðumst norður á Akureyri til að halda upp á 25 ára stúdentsafmæli mitt.

Sumarið í fyrra bauð ekki upp á marga góða daga en pallurinn nýttist samt vel, enda í skjóli fyrir norðanáttinni og sólar nýtur þar frá því um 10 á morgnana og fram á kvöld.

Veðrið er annars búið að vera hreint frábært í dag - sólskin og blíða, sunnanáttin í sínu besta skapi.

Við hjónin fórum í heimsókn til tengdaforeldra minna, bóndinn vopnaður græjum til að klippa limgerði fyrir foreldra sína og ég með snúrur og fleira dót til að tengja tölvugarminn við Internetið fyrir tengdapabba. Hann er svo ofboðslega pólitískur að það er ekki alveg NORMAL. Nú undanfarið hefur það farið mest í taugarnar á honum að geta ekki komist á netið að skoða "hverjir eru úti og hverjir inni".

En limgerðið var klippt, tölvan tengd og við erum komin aftur í skóginn okkar á Hallormsstað þar sem öll dýrin eru vinir :-)






This page is powered by Blogger. Isn't yours?