<$BlogRSDURL$>

september 24, 2004

Að vera eða vera ekki ólétt ... 

Það er sama hvar ég hef komið við í dag, allir eru að tala um stúlkuna frá Selfossi sem gekk með barn í 9 mánuði án þess að vita af því.
Ég segi fyrir mig: "Það lék aldrei nokkur vafi á ástandi mínu þegar ég gekk með syni mína. Ég var eins og fíll á ferðalagi [tilvitnun í bróður minn] og sparkárátta þeirra augljós."

Ég á því erfitt með að setja mig í spor stúlkunnar. Hins vegar veit ég um konu sem var í mörg ár búin að reyna að eignast barn, var uppgefin og búin að sætta sig við barnleysið. Þegar blæðingar féllu niður fór hún til læknis sem brosti bara vorkunnlátur og sagði henni að hún væri komin á breytingaskeiðið.
Nokkrum mánuðum og nokkrum kílóum (sem sögð voru afleiðing af hægari brennslu vegna breytingaskeiðsins), fékk konan endurtekin óþægindi í kviðarhol og var eftir nokkurn tíma send í ómskoðun til að athuga hvort bris og gallblaðra væru í eðlilegu ástandi. Þá kom í ljós að frúin var ekki bara ófrísk heldur komin á áttunda mánuð og eignaðist nokkrum vikum síðar hraust og heilbrigt barn. Hún hefði sennilega lent í því sama og stúlkan ef athygli sérfræðingsins hefði ekki verið í góðu meðallagi.

september 23, 2004

Það er gott að búa í Kópavogi 

Bóndinn er búinn að vera í tölvupóst- og símasambandi við fólk fyrir austan sem er að undirbúa komandi sveitarstjórnarkosningar í sameinuðu sveitarfélagi á Héraði. Í fyrradag sendi hann samstarfskonu sinni tölvupóst og endaði á orðunum "það er gott að búa í Kópavogi" - með tilvísun til ónefnds stjórnmálamanns.
Svarið sem kom til baka var svohljóðandi:

"Sæll. Vertu ekki með þessa vitleysu, Skúli ! Það er djöfullegt að búa í Kópavogi. Ekki nokkur leið að rata þar".

Svo mörg voru þau orð !

september 21, 2004

Höfuðborgardvöl. 

Stéttarfélag bóndans á sterkan sjúkrasjóð sem m.a. hefur keypt íbúð, sem félagar utan af landi geta fengið til afnota í tilvikum sem þessum. Hún er eingöngu notuð í veikindatilfellum, rúmgóð björt og þægileg. Hér höfum við dvalið síðan á laugardag og getum dvalið nokkra daga enn ef við þurfum á því að halda.
Útsýnið af 7. hæð í Lautarsmára er gott, Smáralindin, Bónus, Elko, Rúmfatalagerinn og McDonalds. Það er ekki hægt að biðja um meira - er það nokkuð ?

Snilld, hrein snilld ! 

Ég er laus við verkina úr fætinum !
Ég er hætt að taka verkjalyf, nema í undantekningartilvikum !
Ég er hætt að þurfa að hugsa um hvert skref sem ég tek !

Takk fyrir góðar óskir, kæru bloggvinir !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?