<$BlogRSDURL$>

desember 13, 2003

Nokkrum mínútum eftir síðustu bloggfærslu hringdi Björninn minn í mig og sagðist vera á leiðinni heim, en hann hafði ekki reiknað með að koma heim fyrr en á morgun. Ástæðan, jú hann hafði velt bílnum sem hann var á í vinnunni, gjöreyðilagt hann en sloppið sjálfur með kúlu á hausnum og marbletti hér og þar. Mér brá alveg hroðalega, eins og gefur að skilja, var að hugsa um að hætta við að fara í matinn upp á Klaustri og ég veit ekki hvað. Tók svo sönsum, lét frumburðinn um að koma litla bróður sínum heim og fór með skógarmönnum í jólahlaðborð. Sé ekki eftir því - maturinn var svooo góður --- ekki bara af því ég var svöng.
Annað kvöld er svo næsta jólahlaðborð - koma tímar, koma ráð og vonandi einhver matarlyst líka !

desember 12, 2003

Eitt af því sem ég keypti var KAFFI, gott kaffi frá Kaffitári. Ég kaupi gjarnan slatta af kaffibaunum, sem ég set svo í frysti og mala eftir hendinni. Þannig kemst ég næst þessu frábæra bragði sem er af kaffinu mínu núna.

Ég er að fara á jólahlaðborð á Skriðuklaustri á eftir með vinnufélögum mannsins míns og á morgun ætlum við Tölvusmiðjugengið að hittast á Reyðarfirði og borða saman.

Ég keypti ekkert inn fyrir helgina, nema mjólk og skyr.

Jæja, þá er ég nú komin heim aftur eftir tveggja daga dvöl í höfuðstað Íslands. Ég var á námskeiði, sem ég ætla EKKERT að tala um. Ég gerði fátt annað í bænum, skrapp aðeins í Kringluna og hafði síðan smátíma í gærmorgun sem ég ætlaði að nota til að versla. Þá komst ég bara að því að verslanir í Reykjavík opna ekki fyrr en kl. 10, nú eða kl. 11 !! Hundfúlt !! Komst þess vegna aðeins yfir brot af því sem ég hefði viljað gera.

Ég átti pantað flug austur kl. 6 í gær, mætti, tékkaði inn, það var kallað út í vélina og farið í loftið - og allt gekk þetta fljótt og vel fyrir sig. Vélin var hins vegar varla búin að ná flughæð þegar við urðum vör einhverjar undarlegar beygjur og vélin fór að lækka flugið. Fólk var farið að líta hvert á annað og spá í hvað væri að gerast. Jú, vegna vélarbilunar var verið að snúa við og lenda í Reykjavík aftur. Við stoppuðum þó ekki lengi þar, því önnur vél var til staðar til að fljúga með hópinn austur. Klukkutíma töf, en frekar óþægileg tilfinning að vita af bilun í flugvél sem maður er farþegi í.


desember 09, 2003

Á fréttasíðunni local.is má sjá að verið er að efna til verðlaunasamkeppni um jólaskreytingar meðal bæjarbúa á Djúpavogi. Þegar ég sá hvaða verðlaunum var heitið kom mér þetta í hug:

Ljós í gluggum lýsa dátt
á langri jólaföstu,
því konur vilja komast hátt
í kappans fínu Mözdu.

Ég sendi Hafþóri þetta og fékk svar eftir örfáa tíma:

Vorið þegar vermir grundir
vetrar- eða á -föstunni,
gott er að eiga unaðsstundir
í aftursæt' á Mözdunni.

Umrædd Mazda er farartæki í eigu BHG - og þykir ekki sérlega kræsilegur farkostur.


Litla systir á afmæli í dag. Hún er alveg barnung, heilum tíu árum yngri en ég. Ætli megi ekki segja að hún hafi verið leikfang okkar eldri systkinanna og kannski aldrei beðið þess bætur.

Þegar hún var að læra að ganga, sem var tiltölulega snemma, var það fyrst og fremst hugrekkið sem sveik. Við létum hana labba fram og til baka með því að láta hana halda í annað handfangið á könnunni sinni en einhver eldri í hitt. Svo var farið skrefinu lengra og hún gat þá labbað bara ef hún hafði könnuna í hendinni.

Ekki kannski alveg satt, en sagan er góð engu að síður.

Til hamingju með afmælið, kemst sennilega ekki í kaffi í kvöld !

desember 08, 2003

Hildigunnur var að senda mér tvö tóndæmi - af því að ég hafði ekkert heyrt af þeirri tónlist sem tilnefnd hefur verið til verðlauna.
Ég hef ekkert "vit" á tónlist, veit bara hvað snertir mig og hvað ekki. Bæði þessi verk eru þess eðlis að svona tónlistaraular eins og ég, geta notið þeirra - og þau hljóma strax vel, maður þarf ekki að venjast þeim neitt.

Ég fór einhvern tíma á tónleika þar sem verið var að flytja nútímatónlist - ég verð að segja alveg eins og er, mér hundleiddist. Eftir tónleikana missti ég þetta út úr mér við ágætan vin minn - hann sneri dulítið upp á sig og sagði: "Maður verður sko að kunna að hlusta á svona músík" !

Ég veit ekki, sum listaverk hrífa mann, önnur ekki og sem betur fer eru ekki allir með sama smekk.

Tónverkið sem Charles Ross samdi og flutti ásamt skógræktarmönnum á Hallormsstað í sumar, þar sem spilað var á keðjusagir og olíutunnur, var svona áskorun fyrir eyrun. Keðjusagir framleiða hávaða, óþægilegan og skerandi. Hljóðið líkist mest hljóðunum í skellinöðru eða snjósleða. En með því að nota mismunandi sagir og taktfastan áslátt á tunnurnar, tókst honum að gera úr hávaðanum hrynjanda - hljómlist, mundu einhverjir kalla þetta.

Alla vega - TAKK, Hildigunnur - þú mátt vera hreykin af þínum verkum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?