<$BlogRSDURL$>

maí 16, 2003

Í gærkvöldi fór ég í göngutúr, einu sinni sem oftar. Gunnar vinur minn, 8 ára, slóst í för með mér. Hann er hugsandi drengur og ýmislegt skemmtilegt datt upp úr honum á þessari ferð okkar. Hann sagði mér m.a. að hann hefði farið að skoða nýju ferjuna - Norröna - á Seyðisfirði. Hann vildi meina að skipið væri svo stórt að hann og pabbi hans hefðu villst, labbað fram og til baka og aldrei ætlað að finna leiðina út. Hann taldi alls ekki ráðlegt að ég færi í siglingu með skipinu, a.m.k. ekki nema hafa reyndan leiðsögumann (t.d. hann sjálfan).
Við vorum líka að velta fyrir okkur ýmsu, t.d. hvernig Fljótið hefði orðið til, hvort ormurinn væri þarna niðri einhvers staðar og hvað við ættum til bragðs að taka ef hann birtist nú allt í einu. Ég vissi ekki svörin við því en hvort það var út af þessum vangaveltum eða einhverju öðru ákváðum við að fara í gegnum skóginn til baka.

Það er alveg sérstaklega gaman að hafa börn með sér í svona göngutúrum. Þau líta hlutina alltaf dálítið öðrum augum en við þessi sem erum orðin aðeins eldri og okkur er það mjög hollt að fá aðeins innsýn í þeirra hugarheim.

Aðeins um Fallvald - hver gæti vitað um afdrif hans?


maí 15, 2003

Jæja, þá er ég búin að skjótast á Akureyri og ljúka mínum málum þar og komin í vinnuna aftur. Einkennilegt hvað maður er viðkvæmur fyrir þessum bæ. "Það er búið að breyta öllu" !! - syndrómið gerir vart við sig svo um munar. Næstum eins og þegar maður kemur heim til mömmu og hún er búin að henda einhverjum hlut sem alltaf hefur verið til.
Ég var að flakka svolítið um bæinn og sveið í hjartað við að sjá að

- Stefánstúnið er komið undir Stúdentagarða

- Stjáni Júl að opna nýtt hverfi á Suðurbrekkunni þar sem hægt var að fara í lautartúra á vorin - taka með sér nesti og bók og fá algjöran frið frá öllu sem hét skóli

- Höefners-bryggjan á sínum stað en skólaskektan Fallvaldur hvergi sjáanlegur. Hvað skyldi hafa orðið af þeim góða grip ?

-

Er þetta ekki það sem kallað er nostalgía ?

En samgöngurnar hafa breyst á þessum 25-30 árum - það var ekki inni í myndinni að skreppa í dagsferð milli Egilsstaða og Akureyrar þá. Mátti gott heita ef maður komst heim um jól og páska.


maí 12, 2003

Mánudagur til mæðu - það snjóaði í dag, ekki á kjördag eins og hélt að yrði raunin, heldur í dag.

Það er alveg segin saga, ef ég tek nagladekkin undan bílnum mínum, (nagladekk er nú reyndar ofsögum sagt, ekki nokkur nagli eftir í þessum druslum) þá fer að snjóa. Sama gerist á haustin - svona um það leyti sem ég gefst upp á að dansa tangó á bílnum mínum á leið úr og í vinnu (sem eru 27 km hvora leið) - og set nagladekkin undir - þá gerist annað tveggja, á brestur langur hlýindakafli sem hreinsar alla hálku sem dögg fyrir sólu eða það snjóar svo hressilega að bíldruslan kemst ekki spönn frá rassi hvort eð er.
Ég vona bara að það hlýni til morguns því ég þarf að skreppa norður á Akureyri og nenni ekki að standa í einhverju brasi. Viil bara geta keyrt á mínum litla hvíta bíl án verulegra vandræða. Vona bara hið besta.

maí 11, 2003

Að afloknum kosningum: Til hvers var allt þetta brölt eiginlega ? Við sitjum uppi með sömu stöðu, þrátt fyrir að margir virtust vilja breytingar ef marka mátti umræður undanfarinna daga.
HUNDFÚLT !!

Ákveðin í að eyða deginum eins og til var stofnað - vera svolítið þunn !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?