<$BlogRSDURL$>

apríl 03, 2005

Á ferð og flugi 

Komin heim aftur eftir borgarferð til Reykjavíkur. Þar gekk mér allt í haginn, ágætt námskeið, góður saumaklúbbur hjá Nönnu og gott að hitta góða vini þar og annars staðar. Höttur vann Val í körfunni og veðrið bara ágætt.
Það brá hins vegar svo við þegar ég var á leið austur með Flugfélagi Íslands síðdegis í gær, að allt fór að fara úrskeiðis. Ég mætti á völlinn á tilsettum tíma, tékkaði mig inn og settist svo niður og beið eftir útkalli. Þegar dágóð stund var liðin, breyttist brottfarartími vélarinnar á skjánum, án þess að nokkuð væri tilkynnt um það. Ég leitaði skýringa og fékk það svar að vegna tafa á flugi frá Ísafirði hefði þurft að kalla út nýja áhöfn fyrir flugið austur. Þess vegna hálftíma seinkun. Allt í lagi með það. Það virtist samt ekki vera hróflað við Akureyrarvélinni, sem var áætluð á eftir Egilsstaðavélinni. Það var kallað út í hana á réttum tíma. Kannski vegna þess að Akureyringar eru vísir til að keyra á milli næst ef þeir lenda í svona veseni.
Stuttu seinna var kallað út í Egilsstaðavélina. Þeir fyrstu voru komnir inn í vél á hlaðinu, þegar starfsmenn kölluðu og göluðu og komu svo og smöluðu öllum til baka inn í flugstöð. Vitlaust hlið, vitlaus vél, eða bara vitlausir starfsmenn. Vélin til Akureyrar var ekki farin og hættulegt að hafa hóp af farþegum vappandi á flughlaðinu meðan hún var sett af stað. Við biðum svo nokkur saman inn í sal, þegar loks kom hávært og frekjulega í hátalarakerfið: "Lokaútkall á Egilsstaði !!". Halló - hvenær kom fyrsta útkall ??

Ég fékk ekkert svar við því, en lýsi hér með eftir samkeppni við þetta endemis einokunarflugfélag, sem kemst upp með ALLT !
Þetta vesen varð til þess að ég mætti rúmum klukkutíma of seint í áttræðisafmæli tengdaföður míns.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?