<$BlogRSDURL$>

september 02, 2005

Pest og vörubílar 

Ég er búin að liggja heim í einhverjum aumingjaskap undanfarna daga og er satt besta að segja ekki neitt sérlega hress enn þó ég sé mætt til vinnu aftur. Það eina góða við að liggja í rúminu er að manni gefst næði til að hugsa. Eitt af því sem ég var að velta fyrir mér, þar sem ég lá í mínu bæli, var það, hvort allir þessir stóru vörubílar, sem eru á ferð um þjóðvegi, borgir og bæi landsins, eru undir einhverju sérstöku eftirliti. Það eru búin að verða þó nokkur slys þar sem þessir stóru bílar koma við sögu. Tvöfalt banaslys í Hallormsstaðaskógi orsakaðist líklega af bilun í tengivagni vörubílsins. Slys, þar sem vagnstjóri strætisvagns stórslasaðist, orsakaðist af gáleysislegum akstri vörubílstjórans, þar voru hvorki réttindi ökumanns, né skráningar og tryggingar bílsins í lagi.
Er ekki þörf á sérstöku eftirliti með þessum farartækjum ? Þau eru svo mikið hættulegri en önnur, bara vegna þess hve þau eru þung og stór. Veit einhver hvaða reglur gilda um þessi farartæki og þá tengivagna sem gjarnan eru aftan í þeim ?
Ég bara spyr, ekki síst þar sem ég mæti daglega nokkrum á leið minni til og frá vinnu.

ágúst 30, 2005

Fyrr má nú brenna en skaðbrenna .... 

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1155992


Löggæsla á Íslandi 

Það hefur verið að vefjast fyrir mér að skilja áherslur lögregluyfirvalda hér á landi nú undanfarið.
Nýlega fórust hjón í umferðarslysi í Hallormsstaðaskógi, þar sem ég ek um nánast daglega. Við sem búum í skóginum, sveitarstjórn og örugglega fleiri aðilar hafa ítrekað farið fram á að hámarkshraði verði lækkaður gegnum skóginn, lögreglan láti sjá sig í skóginum á ýmsum tímum og beiti hiklaust sektum og viðurlögum ef menn aka of hratt. Á sumrin er mikil umferð ferðamanna í gegnum skóginn, auk umferðarinnar upp á Kárahnjúka. Mikið af þungum bílum, með tengivagna og alls konar flutning er á ferðinni þarna og allt of algengt að mæta þeim inni í byggðinni í skóginum, akandi langt yfir leyfilegum hraða.

Svör yfirvalda eru:
Lögreglan hefur ekki mannskap til að fylgjast með umferðinni !!

En lögreglan hefur mannskap til að vakta einhverja mótmælendaræfla og gera nákvæmlega það sem þessir mótmælendur vilja að þeir geri; ganga fram með dálitlu offorsi og látum !!

Ég er ekkert sérstaklega hlynnt mótmælunum og auðvitað verður að bregðast við þegar þeir brjóta af sér, en að hafa allt lögreglulið svæðisins í túnfætinum á Vaði, þó nokkrir ræflar séu þar í tjöldum, þykir mér of langt gengið.

En kannski á lögreglan bara að vernda stórfyrirtæki og peningamenn landsins, ekki okkur almúgann !

ágúst 28, 2005

Heima á ný ! 

Það var gott að koma heim !
Það var mjög gaman í ferðinni og gott að dvelja hjá vinum okkar í Hamrahlíðinni í Reykjavík, en heima er samt alltaf best.
Við lögðum af stað um hálfellefu í gærmorgun, stoppuðum lítið sem ekkert og vorum rétt um átta tíma á leiðinni. Skúli keyrði á Kirkjubæjarklaustur, þá tók ég við og keyrði austur í Lón og hann tók svo restina. Munar öllu að skiptast á að keyra.
Frumburðurinn var heima þegar við komum en fór fljótlega í teiti hjá vini sínum. Hann á líka afmæli í dag, svo og elsti bróðir minn hann Steini.

Björninn minn er hins vegar að vinna á Reyðarfirði, en ég held að hann ætli að koma heim í kvöld.

Þvottavélin á eftir að fá að snúast hressilega í dag og næstu daga, svo mikið er víst.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?