<$BlogRSDURL$>

apríl 12, 2003

Óli "Afdal" Arnalds benti mér um daginn á mjög skemmtilega slóð sem allir Íslendingar ættu að skoða reglulega, sérstaklega þið sem búið á sprungusvæðunum og v erðið að vera viðbúin því að þurfa að flytja til okkar á "fasta landinu" ef allt fer á fleygiferð :-) Hér er slóðin: http://hraun.vedur.is/ja - farin út að hengja upp þvottinn og svo út í skóg !!

Laugardagur, veðrið meinlaust, 5 - 6 stiga hiti, logn og hálfgerð súld. Bóndinn farinn á fund og eldri sonurinn í vinnu. Mín bíður hús sem ekki hefur verið tekið til í nokkra daga, þvottur sem búinn er að safnast upp síðan um síðustu helgi. Ég er samt ekkert ósátt við þetta - það liggur við að það sé orðin tilbreyting í því að vera heima og taka til.
(Fyrir nokkrum árum hefði mér alls ekki dottið í hug að láta svona út úr mér).
Ég ætla svo út í skóg á eftir að klippa greinar sem síðan verða settar í vatn og látnar lifna og verða notaðar í skreytingar í fermingarveislu frænku minnar, hennar Vilborgar.
Ég hlakka til að fara að fást við þennan fermingarundirbúning. Svona skreytingadæmi er ótrúlega skemmtilegt - minnsta kosti ef maður hefur nógan tíma til að dúlla við þetta.

Best að drífa sig.

Já, þá dettur mér í hug: Hvernig fyndist ykkur að heita Drífa og vera Sigurðardóttir - kölluð Drífa Sig !!! :-)


apríl 11, 2003

Jæja, þá er kominn föstudagur enn og aftur. Næstu 2 vikur eru alveg ágætar. Ég sé fram á að verða að vinna 4 daga af næstu 16 dögum ! Ekki slæmt ! Ég ætla að taka mér frí næsta miðvikudag og fara á Norðfjörð að hjálpa Laufey systur í fermingarundirbúningi. Það gæti orðið bara reglulega skemmtilegt. Fermingin er á Skírdag og ég reikna með að fara heim þá um kvöldið. Síðan er það móðir mín sem á 75 ára afmæli 22. apríl nk. Þá ætla ég að fara á Norðfjörð aftur, svo fremi að ekki verði bjálaður bylur og ófærð. Ekki að það líti neitt út fyrir byl á þessum sumarlega vetri okkar. Það hefur bara gjarnan fylgt minni ágætu móður að eigi hún stórafmæli fara veðurguðirnir í ham sýna allar sínar verstu hliðar !! Ég ætla að minnsta kosti að gera allar ráðstafanir miðað við þetta.

Ég var að ræða um frið við ágæta vinkonu mína um daginn ! Frið í þeim skilningi að "fá aldrei frið" - þá datt mér eitthvað þessu líkt í hug:

Friður

Ég hef leitað hans en ekki fundið,
leitað með ljósi en fundið bara myrkur.

Reynt að búa hann til en mistekist.
Reynt að kaupa en fengið svikna vöru.

Komist að því að eina leiðin
er að eiga hann innra með sér.




apríl 10, 2003

Þá er spurningakeppninni lokið ! Sigurvegarar urðu kennarar Menntaskólans á Egilsstöðum - tóku þetta með glans. Mikið er ég glöð, þeir ættu þá að geta kennt börnunum okkar eitthvað.

Þessi samkoma tókst ágætlega, ég held að allir hafi verið sáttir, við hefðum gjarnan viljað sjá þarna fleira fólk og ekki síst körfuboltamenn. Þeir hafa alls ekki staðið sig eins vel og þeir hefðu getað.

Í kvöld er svo verið að frumsýna frábært leikrit (vona ég) í Hallormsstaðaskóla. Jón Guðmundsson hefur í mörg ár skrifað leikrit fyrir nemendurna til að sýna á árshátíð og þau hafa oft verið hrein snilld. Ég ætla sko að mæta og ég veit að svo er að um marga aðra - sjáumst !


apríl 09, 2003


Vorið er að koma

Andvarinn strýkur mér um vangann
rétt eins og amma mín gerði forðum.
Rétt svo að ég finni snertinguna,
rétt finn hversu hlý hún er,
höndin sem strauk mér,
stelpuskottinu,
rétt finn hve hlýr hann er
andvarinn sem hvíslar
að vorið sé að koma.

Þetta datt í kollinn á mér rétt áðan - ef ykkur langar að sjá meira er hægt að finna meira af þessu rugli mínu á heimasíðunni minni

Jæja, komin í vinnuna eftir að vera búin að pakka niður fyrir daginn. Það er svona þegar vegalengdin milli heimilis og vinnustaðar er þetta löng. Ég þarf að taka með mér föt fyrir kvöldið, spurningakeppnina, sundföt og græjur svo ég geti farið og hreyft mig aðeins. Þetta er heilmikið skipulag á hverjum degi, ef eitthvað þarf að gera annað en bara vinna.

Gærdagurinn fór í Héraðsskóga, kortagerðarskoðun og greiningu á þeim aðgerðum sem þar þarf að framkvæma. Þetta er ákaflega ruglandi - erfitt að gera greinarmun á notendum og þörfum. Meira um það síðar.

Nú er að fara að vinna, vinna, og vinna !!!

apríl 08, 2003

Svona er þetta alltaf ef ég fer að skrifa dagbók. Sumir dagar eru svo ásetnir að ég kemst ekki til að skrifa neitt.

Best ég byrji á sunnudeginum - ég fór út að labba og það gaf mér góðan orkuskammt. Um kvöldið fór ég til Jóhönnu á Eiðum að klára að semja spurningar fyrir keppnina sem verður á miðvikudaginn. Okkur gekk alveg þokkalega og vorum búnar með allt um hálf ellefu. Keyrði heim og fór að sofa.

Í gær var svo einn af þessum dögum. Fundur allan daginn frá kl. 10 til kl. 5. Ágætur vinnufundur, en efnið ansi yfirgripsmikið til að klára frá á einum degi.
Svo átti bóndi minn afmæli, ég eldaði handa honum kvöldmat og fór svo með honum á aðalfund í félagi þar sem hann er formaður. Tímasetning þessa fundar var aldeilis undarleg "AFMÆLI FORMANNSINS" - og fundurinn var eiginlega mesti brandari. Ég velti því fyrir mér hvort ég væri komin á fund hjá Sovét- hinu forna eða hjá Sjálfstæðisflokknum - þetta var það sem menn kalla RÚSSNESKA KOSNINGU - afgreitt á mettíma og enginn kostur gafst á að ræða það neitt. "Þá skoðast það samþykkt" var mest endurtekni frasi fundarstjóra.

Í dag er framhaldsfundur, eða kannski bara vinna en ekki fundur. Við erum að reyna að setja okkur inn í verkferla sem við ætlum að færa inn í tölvukerfi. Ég eyði matartímanum mínum í þetta - verð örugglega komin í bælið eftir þessa viku, eilífar setur, lítil hreyfing og áframhald frá morgni fram á miðjar nætur. Það var verið að bjóða mér á fund hjá DeltaKappaGamma í kvöld. Veit ekki hvort ég nenni, sé til hvernig staðan verður seinnipartinn.

Þangað til næst .................


apríl 06, 2003

Veðrið er ótrúlegt þessa dagana, frost og snjór á föstudaginn, hitinn í dag aftur nærri 15 stig í plús ! Nú er best að hætta þessu tölvuharki og koma sér út í góða veðrið !!

Jæja, mér er svo sem alveg sama um þennan fund, ekki nenni ég að hlusta á þessa pólitísku umræður, "80 % bull ! " Ég sit og sem spurningar fyrir lokakeppnina á miðvikudaginn og nú er um að gera að vanda sig - láta ekki plata inn á sig röngum upplýsingum eins og t.d. Trivial Pursuit spilið er uppfullt af.
Og netið, allar upplýsingar sem þar er að finna, þarf að staðreyna. Þó aðgengi að upplýsingum sé orðið mikið í dag með Internetinu og öllu því, er enn jafn erfitt að STAÐREYNA upplýsingar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?