<$BlogRSDURL$>

maí 28, 2003

AHA - ef ég vil eiga rólegt kvöld, alein heima - allir segjast vera á fundi, horfa á fótboltaleik eða vera að vinna frameftir - þá er ég búin að finna ráðið.


maí 27, 2003

Ég telst ekki til snillinga í matargerð, þó ég búi til ágætan mat, þegar mér dettur það í hug. Mér finnst gaman að gera tilraunir, en mínir annars ágætu, en íhaldssömu synir eru ekki eins hrifnir af því. Bóndinn lætur sig hafa þetta og borðar yfirleitt möglunarlaust það sem á borð er borið. Helst að hann nefni það ef ekki eru kartöflur með matnum. Það þýðir til dæmis ekki að elda Lasagna öðruvísi en að bera með því góðar heimaræktaðar kartöflur. Það er nú bara býsna gott, að hafa kartöflur með Lasagna, en þær verða að vera góðar. Hann er nú líka alinn upp á heimili þar sem kartöflurækt var ekki bara að einhverju leyti lifibrauð fjölskyldunnar heldur líka nokkurs konar listgrein.

Hvað um það, í gær lagði ég í bleyti kjúklingabaunir, ákveðin í að gera eitthvað gott úr þeim í dag. Og það gerði ég. Pottréttur með kjúklingabaunum, skinkubitum, beikoni, sveppum, papriku og blaðlauk. Bara mjög gott, þó ég segi sjálf frá. Bóndinn bauðst til að setja á kartöflur, en ég afþakkaði það. Þessi yrði snæddur með ristuðu brauði og hrásalati. Hann brást við með því að snarast út í garð og setja niður nokkrar kartöflur í garðholuna okkar hérna úti. Hefur örugglega látið sig dreyma um nýjar kartöflur með smjöri svona um miðjan ágúst.
Synirnir voru ekkert yfir sig hrifnir, björninn rumdi, heldur fúll og þreyttur eftir að hafa setið á valtara allan daginn og frumburðurinn lét út úr sé að ef svona matur yrði oft á borðum færi hann að fara alfarið í skálann og hamborgaraúrvalið þar. Ég verð að elda handa honum slátur og kartöflustöppu fljótlega, það er hans uppáhald. En þrátt fyrir ókurteisina og vanþakklætið, kláraðist næstum fullur 3 lítra pottur af þessari krás. Mínir menn eru matmenn, eins og þeir eiga kyn til. Verst að ég skuli ekki vera betri kokkur en raun ber vitni.

maí 26, 2003

Og þá er kominn mánudagur eftir Eurovision. Ég fór með bónda mínum á ráðstefnu á Selfossi um helgina, flaug suður á föstudagsmorgun, bílaleigubíll á Selfoss og þar inn á hótel. Var síðan að vinna e.h. - hitti Skógarmenn á suðurlandi til að fá hjá þeim upplýsingar varðandi verkefnið sem ég er að vinna í. Um kvöldið var svo grillveisla og gaman, ekkert samt óhóflegt, menn áttu jú að mæta á fundi kl. 9 um morguninn.
Það er síðan skemmst frá því ð segja að lengra varð gamanið ekki hjá mér. Á laugardagsmorguninn svaf ég fram undir 10, fór þá í sturtu og lét fara vel um mig uppi á herbergi, meðan bóndinn sat á fundi. Rétt fyrir hádegið upphófust svo ósköpin, ég ældi eins og múkki, var í keng það sem eftir var dagsins, hélt ekki neinu niðri og eyddi þess vegna kvöldinu uppi í rúmi fyrir framan sjónvarpið - ekkert partý hjá mér. Ég er enn ekki búin að jafna í maganum, svo ef nokkur glös af rauðvíni og 2-3 bjórar hafa orðið þessi áhrif þá er ég hætt að drekka "punktur". Birgitta stóð sig vel og Alf sá austurríski líka -. Ég hef reyndar heyrt menn segja að hann minni á ágætan Íslending, sem heitir Ólafur Arnalds. Ég held það sé bara vitleysa, hann á bara svipaða húfu og Óli.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?