<$BlogRSDURL$>

apríl 25, 2003

Þá er sumarið komið og bara við að sumar er nefnt á nafn, lækkar hitastigið um einhverjar gráður. Við búum á Íslandi og getum átt von á snjókomu í öllum mánuðum ársins. þetta er reyndar ekkert svo slæmt, við erum bara orðin svo góðu vön.

Sumardagurinn fyrsti var í gær. Synirnir voru báðir að taka þátt í körfuboltamóti á Egilsstöðum - svokölluðum "götubolta" - sem reyndar fór fram í íþróttahúsinu. Björninn varð ekki sigursæll, enda ekki talinn í hópi þeirra bestu hér um slóðir.

Frumburðurinn, Ingvar

kom heim með gullpening og var bara góður með sig.

Við hjónin erum að hugsa um að bregða okkur til Danmerkur núna í júní. Ég hef verið að skoða á netinu gistimöguleika í kóngsins Kaupinhöfn. Allar góðar ábendingar eru vel þegnar.

apríl 23, 2003

Svona líður tíminn - frá páskadegi, sem ég notaði í að gera nánast ekki neitt, dormaði heima fram eftir degi, fór svo í langa skógargöngu - EIN - og hugsaði margt. Það er hvergi betra að hugsa en í einrúmi úti í skógi.

Í gær var svo afmæli móður minnar - hún varð 75 ára. Við fórum á Norðfjörð um hádegi, ég, bóndinn og björninn - frumburðurinn var að vinna og komst ekki. Dagurinn leið síðan við tertuát, spjall við allt mögulegt fólk sem kom við hjá henni í tilefni dagsins. Ágætur dagur og ég held hún hafi verið mjög ánægð. Þegar við fórum af stað heim um hálftíu í gærkvöldi var ennþá fullt af fólki og mikið fjör. Kunningjar hennar úr félagi eldri borgara voru mættir á svæðið og ég komst að því þegar ég var að kjafta við kellurnar að þar blómstrar aldeilis ástalífið rétt eins og hjá unglingunum. Þeim varð tíðrætt um ekkjumanninn sem fór með þeim á Hótel Örk um daginn og á þessum fimm dögum var hann búinn að ná sér í a.m.k. tvær kellur. Bráðhuggulegur karl, rétt rúmlega sjötugur, sögðu þær. Já, það er greinilega bara gaman hjá þeim !!

Nú er hversdagsleikinn tekinn við aftur, reyndar frí á morgun, en allt að færst í eðlilegt horf, meira að segja veðrið - meira síðar.....

apríl 20, 2003

Gleðilega páska !

Í gær héldum við áfram að skemmta okkur með Jöklarannsóknarmönnum í skógarferð. Dagurinn var líka sérstaklega heppilegur til slíkra ferða, sól, hitinn um 20 stig og nánast logn. Gönguferð, sem átti upphaflega að vera í svona klukkutíma, endaði í 3-4 tíma flakki um allan skóg.

Eldri sonurinn lá og svaf fram eftir degi en sá yngri lét sig hafa það að vera á balli fram undir morgun, sofa í klukkutíma og mæta síðan í vinnu kl. 7:00 og vinna til kl. 20. Verður að segjast eins og er að björninn minn var orðinn ansi þreyttur þegar hann kom heim.

Þar sem við sátum síðan og horfðum á Harry Potter, kom frambjóðandi Samfylkingarinnar í heimsókn að reyna að tryggja sér atkvæði okkar í komandi kosningum. Ég held hún hafi ekki verið neitt sérstaklega upprifin yfir viðtökunum, árangurinn varð ekki nema 25%. Hvað maður gerir svo í kjörklefanum er allsendis óráðið - kannski nota ég aðferð bjarnarins, að hafa með sér tening og kasta upp á við hvað hann kýs.

Ættum við kannski að gera teninga að staðalbúnaði í kjörklefum ! Það er alla vega skárri kostur en að láta frambjóðendur syngja í þættinum hjá Gísla Marteini á laugardagskvöldum !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?