<$BlogRSDURL$>

apríl 10, 2004

Dagur að kvöldi kominn - föstudagurinn langi. Við björninn brugðum okkur á Norðfjörð og heilsuðum upp á foreldra mína. Það var að venju gestkvæmt á Melnum. Mist í heimsókn hjá afa og ömmu og systur mínar tvær, mágur og nokkrar stelpur kíktu inn meðan við stoppuðum.
Óvenjulega snjólétt á fjörðunum miðað við árstíma - ekki einu sinni snjór í fjöllum að neinu ráði og snjóflóðavarnirnar eru eins og skúlptúrar án tilgangs við þessar aðstæður. Í kvöld snjóaði samt svolítið hér - varð alveg hvítt, en ég spái því að það standi ekki lengi.

apríl 09, 2004

Skírdagur liðinn og ekki hefur mikið verið afrekað í dag. Bóndinn veikur, frumburðurinn latur, björninn fór á fjöll með nokkrum félögum sínum og ég gerði svo sem ekki neitt. Mágur minn kom í morgun færandi hendi - frystikistan hálffull af kjúklingum - ekki slæmt það.
Veðrið breyttist snarlega er leið á daginn - hitinn lækkaði um einhverjar 10 gráður og lognið fór á fleygiferð. Undir kvöld var svo farið að snjóa - það passar - ég ætlaði á Norðfjörð á morgun.
Var að horfa á Mickey Blue Eyes í sjónvarpinu - þó nokkrir leikarar þar sem leika líka í Sopranos. Við frumburðuinn fórum að karpa um hvor hafi verið að herma eftir hinum. Og eftir að hafa leitað upplýsinga á netinu komst ég að því að sennilega hefur myndin verið tekin um svipað leyti og fyrstu þættirnir, en myndin var frumsýnd a.m.k. hálfu ári á eftir fyrstu seríunni af Sopranos. Þannig að við vitum ekki enn hvort kom á undan - en þið ?

apríl 07, 2004

Bóndinn á afmæli í dag. Lítið um veisluhöld þó, því hann er hálflasinn og frumburðurinn eyddi mestum hluta nætur í að skila til baka máltíðum gærdagsins, með tilheyrandi óhljóðum. Hann hefði átt að láta sveppina mína í friði (sbr. þetta).
Veðrið var frábært í dag og mig dauðlangaði að grilla. Ástand heimilismanna bauð bara ekki uppá neitt slíkt.
Grillmaturinn, rauðvínið og koníakið verða geymd til næsta góðviðris- og góðheilsudags.

Vonandi þurfum við ekki að bíða lengi.

apríl 06, 2004

Ég, bóndinn, synirnir báðir, tengdadóttirin tilvonandi og einn ágætur fjölskylduvinur erum þátttakendur í formúluleiknum á netinu. Sveitin okkar heitir Skógarpúkar og er eftir 3 umferðir í 194. sæti. Innan sveitarinnar er að koma fram skemmtilegt mynstur - við konurnar erum hæstar ! Ég er reyndar í sæti nr. 119 yfir heildina í leiknum. Ætli málið sé ekki bara að hafa sem minnst vit á þessu og halda ekki með neinu sérstöku liði.

Eitt dæmið enn um vanmátt íslenska réttarkerfisins gegn hættulegum afbrotamönnum er komið upp á yfirborðið. Skelfilegt mál, en verður þó vonandi til þess að löggjafinn hysjar upp um sig og ber í götin á meingölluðum lögum. "BíBí" ætlar að redda þessu.
Á sama tíma segist dómsmálaráðherra ekkert hafa brotið á neinum í sambandi við skipan dómara við hæstarétt - HANN viti betur en hæstiréttur, HANN viti betur en jafnréttisráð, HANN viti betur en allir !! Hafið þið vitað annan eins hrokagikk ! Verið viss, HANN þarf ekki að axla ábyrgð og segja af sér. Nei, dágóð summa úr sameiginlegum sjóðum okkar rennur til þess sem brotið var á - dómarinn sem fékk skipan í embætti, á þessum hæpnu forsendum, situr væntanlega áfram og "BíBí" smælar framan í heiminn og færir sig svo settlega í einhverja vel launaða stöðu í kerfinu innan tíðar.

apríl 05, 2004

Landsvirkjun gerði samning við ítalskt fyrirtæki um framkvæmdir við virkjun á hálendinu. Ítalska fyrirtækið er ekki að standa sig sem skyldi, eða kannski er Landsvirkjun bara ekki að passa nógu vel upp á að ítalska fyrirtækið virði samninga sem í gildi eru.
Hvað gerist ?
Jú, stjórnarformaður Landsvirkjunar kennir náttúruverndarsinnum opinberlega um og sakar landann að auki um kynþáttafordóma.
Og svo ?
Náttúruverndarsamtökin mótmæla með rökum.
Og svo ?
Verkalýðsforystan hefur líka skoðun á málinu - ekki skrítið eftir að hafa fengið á sig dylgjur um kynþáttafordóma.
Nú, og hvað ?
Stjórnarformaðurinn dregur orð sín til baka - biður samt engan afsökunar - þarf þess sjálfsagt ekki, hann er hærra settur en svo.
Er þá ekki allt í góðu ?
Stjórnarformaðurinn segir aðspurður í fjölmiðlum að hann hafi eingöngu dregið orð sín til baka af því þau voru sögð á óheppilegum tíma, ekki vegna þess að þau hafi ekki átt við rök að styðjast !!
Get ég þá sagt allt sem mér dettur í hug, bara ef ég segi "úps, sorry, em ég meina það, sko" á eftir !
Neibb, þú ert ekki stjórnarformaður Landsvirkjunar !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?