<$BlogRSDURL$>

desember 11, 2004

Jólatré og kaffi 

Það er búin að vera stemming í skóginum í dag. Skógræktin býður fólki að koma og fella sjálft sitt jólatré - ketilkaffi, kakó og piparkökur - úti í skógi. Skrapp smástund bara til að taka þátt í stemmingunni.



Ketilkaffið mallar og Inga Lind reynir að velja tré

desember 09, 2004

Afmælisbarn dagsins 

Afmælisbarn dagsins er litla systir, til hamingju með daginn,Unnur ! Ég var búin að hugsa mér að nota tækifærið, þar sem ég var að vinna á Eskifirði í dag, að skutlast yfir Oddskarð í kaffi. Það fór hins vegar þannig að ég var að vinna til klukkan að ganga sjö og þurfti helst að vera komin upp í Hérað klukkan sjö.

Talandi um Oddsskarðið, sem ekki er lengur ekið yfir heldur undir, þá er til skemmtileg saga, sönn eða ósönn, af bræðrum tveim sem bjuggu á Norðfirði á árum áður. Þeir voru synir Odds sem þá var skólastjóri Gagnfræðaskólans. Einhverju sinni héldu þeir því fram að Oddsskarð sæist af Sæsilfursbryggjunni, sem auðvitað er hrein fásinna. Faðir þeirra mótmælti, en þeir héldu fast við söguna og endaði deilan með veðmáli. Örkuðu svo allir þrír niður á bryggju til að fá úr deilunni skorið.
Faðirinn benti hróðugur inn dalinn, þar sem augljóst var að fjöll skyggðu á Oddsskarðið. Bræðurnir bentu hins vegar á skarð í bryggjunni, en þar hafði faðir þeirra, Oddur, siglt trillu sinni harkalega á bryggjuna sumarið áður.

Hver taldist hafa unnið veðmálið skal ósagt látið.

desember 08, 2004

Hvar er jólaskapið ? 

Á morgun verður kominn 9. desember og ég er enn ekki komin í jólaskapið. Ég er heldur ekki farin að gera nokkurn skapaðan hlut af því sem ég þarf að gera fyrir jólin. Það er mikið að gera í vinnunni og ég yfirleitt búin að fá nóg þegar ég kem heim á kvöldin. Á morgun þarf ég að fara á Eskifjörð, verð að vinna þar fram eftir degi, kannski fram á kvöld. Veit ekki enn hvað ég þarf langan tíma.
Hefði svo kannski átt að skreppa yfir Oddskarð og heilsa upp á litlu systur, hún á víst afmæli á morgun.
Eftir á að hyggja, ég hef aldrei verið byrjuð á neinu jólastússi á þessum tíma, hvað er ég eiginlega að væla !

desember 05, 2004

Maður dagsins 

Maður dagsins er án efa maðurinn minn. Hann tók áskorun og tók til í fataskápnum sínum, fleygði því sem orðið var ónýtt, pakkaði því sem hann er "vaxinn upp úr" í kassa handa Rauða krossinum Ég get fullyrt að snyrtilegri fataskáp karlmanns er ekki líklegt að finna nokkurs staðar.

Nú verð ég að taka minn fataskáp í gegn !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?