<$BlogRSDURL$>

september 17, 2005

Ár liðið .. 

Fyrir réttu ári var ég að vakna af svæfingu á Landsspítalanum í Fossvogi. Fyrsta hugsunin var:"Ég finn ekkert til í fætinum, ég hlýt að vera svona dofin ennþá." En raunin var reyndar sú að brjósklosaðgerðin hafði heppnast prýðisvel, losnað um taugaklemmuna í bakinu, sem orsakað hafði máttleysi og kvalir í fætinum í marga mánuði. Ég finn auðvitað fyrir þessu af og til, verð að passa mig á ýmsu s.s. að sitja ekki of lengi í einu, hreyfa mig reglulega og ýmislegt fleira í þeim dúr. En það eru hreinir smámunir.

september 16, 2005

Teljarinn minn 

Teljarinn minn sýndi mér töluna 44404 áðan. Það þýðir að bráðum kemur upp talan 44444 ! Hver skyldi fá hana ?

september 14, 2005

Kolgríma.. 


Lítil og lagleg kisa, sem heitir Kolgríma, er stundum til umræðu á kommentakerfi mínu. Ég á því miður enga mynd af Kolgrímu, en þessi hérna er býsna lík henni.

september 13, 2005

Tapaði degi.. 

Ég tapaði heilum degi í dag - var sannfærð um það alveg fram undir kvöldmat að það væri 12. september, en varð að trúa fjölmiðlum, sonum mínum og bóndanum, sem allir lögðust á eitt að hafa af mér daginn. Hvað var ég þá að gera í gær ?

september 12, 2005

Mikil gleði ! 

Hið ágæta félag Gleðikvennafélag Vallahrepps hefur verið óvenju virkt að undanförnu. Það er dálítið sérkennilegt með þetta félag að það leggst í dvala, oft í marga mánuði, stundum meira en ár, en vaknar alltaf aftur til lífsins.
Í byrjun ágúst fórum við mikla gleðigöngu í Stórurð og nú var komið að sérstöku lúðukvöldi hjá Rannveigu. Er skemmst frá því að segja að þar mættu 12 konur og einn köttur. Eitt af því sem við gerðum á þessu ágæta kvöldi var að rifja upp greinargerð um orðið gleðikona - sem Ásta Svavarsdóttir, fræðimaður hjá Orðabók háskólans vann fyrir okkur og birti síðar í fjölriti - Gleðikonur og gleðimenn frá 1993 eins og sjá má hér. Þar kemur skýrt fram það sem við viljum útbreiða og er raunar ástæða nafngiftar félagsins að allt til aldamótanna 1900 og jafnvel lengur, merkti orðið gleðikona -kona sem hafði gaman af að skemmta sér - en ekki vændiskona eins og flestir skilja orðið í dag.
Rannveig sagðist einmitt hafa spurt ágætan prest, sem var að halda námskeið um DaVinci-lykilinn og talaði einatt um gleðikonur, - hver væri gleði þessara kvenna ? Presturinn tók þessari ábendingu vel og sagðist hér eftir nota önnur orð um þessa stétt kvenna.
Við höfum líka bundið það fastmælum í félaginu, að ef einhver okkar einhvern tíma ritar minningargrein um einhverja okkar, skal í þeirri grein standa _ "Hún var mikil glys- og gleðikona" - en sú er einmitt lýsing á mætri konu sem Ásta vitnar til í greinargerð sinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?