<$BlogRSDURL$>

júlí 15, 2004

Strit og púl ! 

Oh, hvað ég vildi eiga heitan pott úti á palli núna. Við erum búin að vera í allan dag að saga lerkiboli niður í 20 cm langa búta, koma þeim upp á vagn og keyra þá heim í hlað, þar sem þeir eiga að koma í stað malbiks eða hellulagnar á bílastæðið okkar. Þetta er búið að vera heilmikil vinna og ekki búið enn. Á morgun verður svo farið að raða kubbunum á planið. Kannski vantar meira efni og þá þurfum við bara að saga meira, en ég vona að þetta sleppi.
Stefni að því að setja myndir af framtakinu inn á netið þegar lengra verður komið í framkvæmdum.

Hott, hott á hesti..... 

Ég fór á hestbak í dag ásamt vinum okkar úr borginni. Stúlkurnar, 9 og 13 ára, stóðu sig aldeilis bærilega og höfðu gaman af. Móðir þeirra datt bara einu sinni af baki, eða "lak af baki" eins og bóndi hennar lýsti því. Hún meiddi sig ekkert og því í lagi að gera smá grín að öllu saman. Ég komst hins vegar að því að það er eins með hestamennskuna og hjólreiðar, ef maður lærir undirstöðuatriðin sem unglingur, rifjast kunnáttan hratt upp. Annað sem er líkt með þessu tvennu er að eymsla verður vart í ákveðnum líkamshluta þegar frá líður.

júlí 13, 2004

Framkvæmdir hafnar ! 

Við hófumst handa við að "parketleggja" bílastæðið í dag. Fyrst var að fara og vinna efnið í kantana, ydda og saga sundur lerkistaura sem eiga að afmarka stæðið á tvo vegu. Alls voru þetta um 50 staurar, sem yddaðir voru í báða enda og síðan sagaðir í tvennt. Næsta skref er að reka þá niður umhverfis stæðið. Bóndinn hafði af að koma u.þ.b. helmingnum niður áður en góðir gestir komu í kvöldmat. Veðrið var svo gott að við borðuðum úti á palli. Síðan var farið í krokket-keppni, sem bóndinn vann með minni hjálp, óvart samt.
Á morgun ætla ég að fara með þessu ágæta fólki á hestbak. Bóndi minn er ekki mikill hestamaður, hefur aðeins tvisvar farið á hestbak svo ég viti til. Hann heldur því fram að það sé vitfirring hrein að fara af stað á tæki sem hvorki er með bremsur né stýri í lagi. Vill frekar halda áfram að berja niður staurana en að fara með á hestbak.

Frumburðurinn er kominn til Færeyja, vann fram að hádegi, flaug suður með kaffivélinni og var kominn til Færeyja um hálf-ellefu. Ekkert verið að eyða of löngum tíma í þetta.

Áfram í fríi ! 

Við erum í sumarfríi ennþá og erum að brasa í garðinum, skipta um jarðveg og þekja bílaplanið með lerkikubbum. Notum þá eins og hellur eða steina. Verkið er tilraun sem gaman verður að sjá hvernig kemur út.
Björninn og Eyjastúlkan fóru í stutta ferð til Eyja og á morgun ætlar frumburðurinn að drífa sig til Færeyja á tónlistarhátíð sem kallast G-festival. Þetta eru að verða algjörir eyjapeyjar þessir strákar mínir.

Og loks er hér ein smásaga frá því í morgun. Ég hitti konu í "kauffélæinu" og við vorum eitthvað að tala um iðnaðarmenn. Hún fnæsti og hnussaði og sagði sínar farir ekki sléttar. Það hefði flætt vatn inn til hennar og parkett eyðilagst og þurft að leggja nýtt. Hún hafði síðan lent í miklu brasi við að fá einhvern til að vinna verkið. Allir iðnaðarmenn eru upp fyrir haus í verkefnum og eins og hún sagði "bara hægt að fá einhverja aumingja sem eru með hendurnar á kafi í afturendanum á sér ". Myndrænt, ekki satt ?
En svona er "gullæðið" að fara með menn hérna fyrir austan.

júlí 11, 2004

Ég er komin heim !! 

Sumarfrí er dásamleg uppfinning. Komin heim, þreytt en endurnærð.
Allt of mikið mál að segja alla söguna, en nokkur stikkorð:

Sumarbústaður,
rauðvín,
grill,
góðir gestir,
bátar,
vatn,
tónleikar,
gufubaðið á Laugarvatni,
Geysir,
grænmeti á Flúðum,
leti,
svefn,
heitur pottur,
gott veður,
mýflugur sem bitu ekki,
o.s.frv.

Held ég fari að sofa svo ég missi ekki af góða veðrinu á morgun.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?