<$BlogRSDURL$>

janúar 31, 2004

Í dag er reyndar merkilegur dagur: Við sjáum sólina aftur eftir nokkurra vikna sólarleysi og ættum því skv. hefð að baka pönnukökur með kaffinu í dag - og fyrir 7 árum síðan giftum við bóndinn okkur, eftir að hafa búið saman í 20 ár og eignast tvo syni. Sumir eru minna framtakssamir en aðrir, það verður að viðurkennast. Veit samt ekki hvort ég baka pönnukökur, það skýrist er líður á daginn.

Í morgun tókum við eftir dýrasporum á sólpallinum okkar. Við fórum að skoða þau nánar og sjáum ekki betur en að þau séu eftir tófu ! Til að fá frekari staðfestingu hringdi ég í pabba, sem ásamt ýmsu öðru, stundaði refaveiðar á árum áður, lá á grenjum, eins og það var oft kallað. Hann staðfesti grun minn. Kannski það sé ástæðan fyrir því að snjótittlingarnir koma lítið hér að húsinu, þrátt fyrir að ég fleygi til þeirra korni af og til.


janúar 30, 2004

Ég er ekki vön að birta svona próf á blogginu mínu, þó ég verði að viðurkenna að ég tek þau stundum fyrir forvitnis sakir. En þetta passaði einhvern veginn akkúrat ...........

tom boy result
Tomboy


What kind of little girl were YOU?
brought to you by Quizilla

Það er á hreinu að björninn minn þarf að fara í aðgerð og láta laga handleggsbrotið - ekki skemmtileg tilhugsun það - . Hann á að mæta í aðgerð næsta miðvikudag - ég reikna með að fara suður svona til að halda í hina hendina á honum - eða þannig.

Fór í badminton áðan og tók hressilega á í hörku einliðaleik á móti Möggu. Þurftum þrjár lotur til að útkljá leikinn. Kristín kom líka, en ekki fyrr en frekar seint.


janúar 28, 2004

Ég rakst á blogg Stefáns Arasonar - sem á árunum 1986 -1990 var nágranni okkar á Hlíðargötunni í Neskaupstað - og vinur og leikfélagi eldri sonar míns. Bæti honum hér á linkana. Hann notar orðið "netla" yfir blogg. Ekki vitlaust !

Rannveig var að senda mér svona siðferðislegt álitamál !

Það ætti að banna suma daga ! Verst að maður veit ekki fyrr en í lok dagsins að það hefði átt að banna hann og þá er það of seint.

Björninn minn á að mæta í myndatöku í Rvík á fimmtudag - er búin að vera í símasambandi við hann mörgum sinnum í dag við að redda ýmsum praktískum atriðum.

Ég var að eltast við villu í forriti í dag, lenti í öllum hugsanlegum ógöngum á leiðinni að takmarkinu, en fann samt villuna. Þá var hún svo nauða ómerkileg að mér fannst að deginum hefði verið illa varið.

Ljósu punktar dagsins voru:

1. Badminton - þar sem við losuðum okkur við gremju og ergelsi dagsins
2. Mér tókst að finna og laga villuna, þrátt fyrir allt
3. Árni vinnufélagi minn bauð upp á eðal hákarl - þann besta sem ég hef lengi smakkað.

Nú skal gengið til náða - og þó fyrr hefði verið

janúar 26, 2004

Síðdegis í gær var frumburðurinn með GB-liðið sitt á æfingu uppi í skóla. Skipulag næringarmála klikkaði eitthvað hjá þeim, þannig að ég eldaði fullan pott af hrísgrjóngraut handa liðinu. Þau komu svo og borðuðu grautinn, ásamt brauði, súrmat og samtíningi og voru bara södd og sæl þegar þau fóru. Komist þau áfram í keppninni, get ég með góðri samvisku eignað mér hluta af heiðrinum. Ef þau hins vegar tapa, er það þeim sjálfum og þjálfaranum að kenna.

Við, frumburður minn og ég, erum í dag búin að flytja hans hafurtask milli herbergja og fórum bara langt með það. Reyndar eftir að þrífa og taka til í herberginu sem hann er að fara úr, en það verður bara gert á morgun eða hinn, eða hinn. Það bíður enginn eftir því herbergi.

Bóndinn fór á Norðfjörð um miðjan dag, þurfti að "hitta mann út af hundi" og fór á fyrra fallinu til að geta horft á leikinn áður. Hann hefði nú ekki misst af miklu þó hann hefði sleppt því ! Hreinasta hörmung hvernig þessi leikur fór, já og mótið allt .
Hann fékk lánaðan bílinn minn til fararinnar og kemur ekki heim fyrr en á morgun. Þarf ég því að trekkja Volvo gamla upp í fyrramálið til að komast í vinnuna. Get ekki sagt að ég hlakki mikið til !


This page is powered by Blogger. Isn't yours?