<$BlogRSDURL$>

nóvember 01, 2003

Ég keypti mér 12 kílóa svínslæri í Kaupfélaginu (það heitir víst Samkaup, en hverjum er ekki sama) í gær og það kostaði bara 2400 kr. Það getur varla verið mikið sem aumingja bændurnir fá í sinn hlut af þessu - en mikið rosalega er þetta gott fyrir fjölskyldu eins og okkar, þar sem ekki dugar minna en kíló af kjöti (ásamt meðlæti) í máltíð. Ég verð bara að gefa næsta svínabónda sem kvartar einhverja sárabót, ég á t.d. nóg af kartöflum.
Í kvöld ætlum við hjónin á Bændahátíð, kannski get ég boðið einhverjum fátækum svínabónda í glas !!

Minn tími að hlusta á útvarp er milli 8:30 og 9:00 á morgnana. Þá er ég á leið í vinnu með Rás 2 í gangi. Í gærmorgun var Gestur Einar að ræða við einhvern Arnar hárgreiðslumeistara um útlit, hárgreiðslu og fleira í þeim dúr. Þessi Arnar kemur til Gests reglulega og tjáir sig um útlit, tísku og allt hvað eina. Hann er svona "Heiðar snyrtir"-týpa sem talar eiginlega alveg eins og Laddi í gervi Elsu Lund. Ég er honum ósammála í næstum öllu, en finnst samt svoo gaman að hlusta á manninn. Ég held hann sé alltaf á föstudagsmorgnum hjá Gesti.

október 30, 2003

Ég er ekki búin að finna villuna hjá litlu systur ennþá. Tilgátan frá í gær hafði ekki við rök að styðjast.
Í vinnunni er ég yfirleitt að vinna á nokkrum vélum í einu, gagnagrunnurinn á einum stað, þróunarumhverfið á öðrum og öryggisafritunin á þeim þriðja. Allt verður þetta að spila rétt saman til að þau atriði sem ég er að vinna með, vistist og séu aðgengileg til að prófa þau. Ég skrifa smá stubb, prófa, breyti, prófa aftur og svo framvegis. Þetta er allt í lagi ef tölvurnar eru hraðvirkar og ábyggilegar, en ef ekki, ja þá er best að pakka saman og fara heim - og það var nákvæmlega það sem ég gerði í dag.
Ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd, að ég er búin að koma upp þráðlausu innanhúsneti heima hjá mér með þráðlausri tengingu upp í skóla og þaðan út um víðan völl, væri þessi dagur einn af þeim verstu.
En núna sit ég við og skrifa mitt blogg án nokkurrar tilhugsunar um að ég sé að teppa símann, hækka símreikninginn eða eiga á hættu að allt frjósi vegna hægvirkrar símalínu.
Er þetta ekki dásamlegt !!!

Ég hætti í miðju bloggi áðan, þar sem hingað kom kona með fartölvuna sína - desperat - því vírusafár mikið var að herja á innviði tækisins. Hún hafði lánað dóttur sinni vélina, sem annars er eingöngu notuð í vernduðu umhverfi bak við eldveggi og routera Tölvusmiðjunnar. Já, og þegar ég var að fylgja henni til dyra eftir að hafa lofast til að taka að mér slátrara- og sótthreinsunarhlutverkið, sá ég hvar logaði upp úr reykháfnum á húsinu við hliðina. Bóndinn og fleiri nærstaddir fóru í að slökkva eldinn - sem reyndar logaði bara í tjöru og sóti í reykháfnum - og ég fór í slátraragallann, bretti upp ermar og eyddi alls 7 mismunandi vírusum af vélinni.
Við hljótum að hafa náð okkur í að minnsta kosti eitt prik hvort - á góðverkalistanum.
Og varðandi kommentakerfið hjá litlu systur - ég held ég sé búin að finna villuna !!

október 29, 2003

Ég er komin með hraðvirkt samband hérna heima hjá mér - og þvílíkur munur !! Eini gallinn núna er að tengingin nær bara í forstofuna, verið að bíða eftir þráðlausa sendinum til að klára dæmið --- Flott skal það vera þá loksins sambandið er komið.
Ég sit sem sagt í forstofunni núna, með fartölvu á einum stól og sit á öðrum. Er búin að vera að brasa við að laga kommentakerfið hjá litlu systur en ekki búin að koma því í lag ennþá.




október 28, 2003

Einn góður frá Eygló:

Síðasta vetur, þegar hráslagalegt hafði verið um hríð, ákváðu hjón ein að flýja vetur konung í viku og pöntuðu sér ferð suður í höf. Þannig atvikaðist að konan þurfti að fljúga degi síðar en ætlað var en eiginmaðurinn flaug á undan..

Þegar kallinn er kominn á hótelið rífur hann upp ferðatölvuna og skrifar strax bréf til konu sinnar. Ekki vildi betur til en svo að hann misritaði einn staf í adressunni og lenti bréfið hjá ekkju einni sem nýbúinn var að jarðsetja sinn heittelskaða. Ekkjan sem rétt var búin að jafna sig eftir athöfnina, var í þann mund að líta eftir samúðarkveðjum þegar bréfið barst......

Þegar sonur ekkjunnar kom heim lá hún í yfirliði fyrir framan tölvuna og þetta stóð ritað á skjáinn:

Til: Konu minnar sem eftir var

Frá: Manninum þínum sem fór á undan

Efni: Er kominn á áfangastað

Elskan,

Er kominn heill á húfi. Er búinn að kynna mér allar aðstæður og gera allt klárt fyrir komu þína á morgun. Óska þér góðrar ferðar og bíð þín með óþreyju.

Ástarkveðjur,
Þinn eiginmaður.

P.S. Fjandi heitt hérna niður frá

október 27, 2003

Dagur endalausra vandræða og lítilla afkasta. Fátt gerðist markvert í vinnunni, fáir að vinna þar sem vetrarfrí er í grunnskólanum hérna og vinnufélagar mínir meira og minna að taka sér frí til að vera með börnunum sínum, nú eða skreppa suður eða norður eða niður.....
Ég á engin börn í grunnskóla og fór því hvorki norður né niður þessa helgi.

Litla systir var að byrja að blogga - set link á hana hérna til hliðar.

Heiti því svo hér með að verða duglegri á morgun en ég var í dag !!

Loks er svo stutt hugleiðing sem Nína sendi mér í tölvupósti áðan:
____________________________________________________
Sumarbros:

Þegar ég var yngri, vóg ég nokkrum kílóum minna. Ég þurfti aldrei að halda maganum inni þegar ég fór í þröngan kjól.

En nú, þegar ég er orðin eldri, hefur líkami minn brotist til frelsis. Og um þann hluta hans sem einu sinni var mitti, eru þægileg teygjanleg efni.

Ítölsku skórnir þurfa að vera tveim númerum stærri en áður, ef ég kem þá fótunum yfirleitt í þá, og skrefbótin á sokkabuxunum sígur allt of oft niður undir hné.

En ég hef einnig lært að það skiptir engu máli hvað gerist, eða hversu dimmt virðist yfir öllu í dag. Lífið heldur áfram og á morgun kemur betri dagur.

Ég hef lært, að það segir mikið til um manneskjuna hvernig hún bregst við þessum þremur hlutum
1. Rigningardegi
2. Týndum farangri
3. Flæktu jólatrésskrauti

Ég hef lært, að óháð því hvernig samband okkar er við foreldra okkar, komum við til með að sakna þeirra, þegar þau eru horfin á braut.

Ég hef lært, að það að verða sér úti um peninga og hluti, er ekki það sama og að skapa sér líf.

Ég hef lært, að af og til býður lífið okkur upp á annað tækifæri.

Ég hef lært, að maður getur ekki farið í gegnum lífið með hornabolta-hanska á báðum höndum. Öðru hvoru verðu maður líka að gefa boltann til baka.

Ég hef lært, að þegar ég ákveð eitthvað beint út frá hjartanu, þá hef ég yfirleitt hitt á hina einu réttu ákvörðun.

Ég hef lært, að þó að ég sé sár, þurfi ég ekki að særa aðra.

Ég hef lært, að á hverjum degi eigi maður að rétta öðrum höndina. Allir þurfa hlýjar hugsanir og vinalegt klapp á axlirnar.

Ég hef lært, að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Ég hef lært, að það sem þú segir og gerir vill gleymast, en fólk gleymir ekki hvernig þú lætur því líða.

Sendu þessa orðsendingu til að minnsta kosti fimm frábærra kvenna í dag og eitthvað gott verður á vegi þínum... Þú hefur í það minnsta sagt öðrum konum að þér finnst þær frábærar, og kannski færðu þær til að brosa.

En ef þú ekki gerir þetta... þá bilar rennilásinn og sokkabuxurnar rúlla niður á hæla, þangað sem ítölsku skórnir meiða þig...!

október 26, 2003

Mikill áfangi náðist hér á heimilinu í gær. Við erum komin með alvöru tengingu við Internetið - loksins, loksins. Við búum svo langt frá Egilsstöðum að ADSL er ekki inni í myndinni. Kostirnir eru þá tveir: Venjulegt modem eða ISDN, hvort tveggja hægvirkt og dýrt. Í fyrravetur var Hallormsstaðaskóli tengdur með fastlínu og með því að hann er 500 metra frá heimili mínu, fékk ég þá hugmynd að reyna að tengjast því neti og í gær small það inn !

Annars er veðrið þannig núna að það er lyginni líkast: 18 stiga hiti og sólskin, vindurinn svo heitur að þvotturinn skorpnar á snúrunni á hálftíma. Ég er farin út að þvo bílinn !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?