<$BlogRSDURL$>

desember 23, 2004

Þrjátíu þúsund !! 

Teljarinn minn er að nálgast tölu með fjórum núllum !! Sá sem fær töluna er beðinn að kvitta - bara svona að gamni - GLEÐILEG JÓL !

desember 22, 2004

Um jólatré 

Hildigunnur telur mig vera sérfæðing í jólatrjám, en það er auðvitað mjög orðum aukið. Hins vegar hef ég greiðan aðgang að þessarri visku sökum nálægðar minnar við skógræktargeirann. Á heimasíðu Skógræktar ríkisins er ágætur pistill um jólatré og meðferð þeirra.

Barrheldni ræðst af tegundum, rauðgreni er viðkvæmast, aðrar grenitegundir nokkuð viðkvæmar, en þinur og fura mun barrheldnari.
Þurrkur er frumástæða þess að nálar falla af trjám. Tré sem felld eru í byrjun desember og geymd fram til jóla, eru búin að loka vatnsæðunum í sárinu með harpix. Því er nauðsynlegt að taka neðan af þeim og jafnvel að dýfa endanum í sjóðandi vatn áður en tré er sett inn í stofuhita.
Ef frost er meira en 2-3 gráður, þarf að meðhöndla trén varlega, því nálarnar verða stökkar og brotna við minnsta hnjask. Ef tréð hefur verið geymt utandyra, er best að taka það inn í bílskúr eða annan svalan stað og leyfa því að vera þar í nokkra tíma áður en það fer inn í stofuhita. Baðkar með köldu vatni er líka ágæt hugmynd.
Annað sem fólk áttar sig oft ekki á er að á öllum trjám er töluvert af dauðum nálum sem hrynja af trénu við minnstu hreyfingu. Því er mjög gott að hrista tréð hressilega áður en það er sett inn í stofu, samt ekki ef það er frosið.
Þetta er líka hluti af þeirri mýtu að nýfelld jólatré missi frekar barrið en hin sem búið er að geyma í 2-3 vikur.
Ekki gleyma að jólatréð þarf vatn til að haldast ferskt. Látið tréð því standa í fæti með vatni og bætið á það reglulega yfir jólin.
Kveðja úr jólatrjáaskóginum !

desember 21, 2004

Jólahefðir 

Það er víða í bloggheimum rætt um hefðir tengdar jólum. Hefðir eru ágætar þangað til þær verða að kvöð.
Jólatré eru víða mjög hefðbundin. Bara fura, bara normannsþinur eða bara rauðgreni kemur til greina. Við hér þurfum ekki að fara langt eftir jólatré og höfum prófað fleiri tegundir en margir aðrir. Rauðgreni, blágreni, stafafura, lindifura og gott ef ekki bergfura, fjallaþinur og nú í ár verðum við með síberíuþin. Hann er dálítið gervilegur, en lyktin alveg frábær.
Ég baka þó nokkuð fyrir jól og verð að játa að mikið af því eru hefðbundnar tegundir, mömmukökur, döðlubrauð og fleira í þeim dúr. Ég baka samt bara það sem við erum sammála um að okkur langi í. Karlmennirnir eru bara nokkuð liðtækir í smákökubakstri og laufabrauðsgerð. Vorum einmitt hjá tengdó að baka laufabrauð í dag. Útskurðurinn var samvinnuverkefni, en að því loknu skiptum vip liði.
Strákarnir settu upp útiseríuna fyrir afa sinn, enda hann orðinn stirður til slíks, kominn fast að áttræðu. Það stóð á endum að við tengdamamma og bóndinn vorum búin að steikja brauðið þegar þeir voru búnir að setja upp seríuna Allt gekk þetta ljómandi vel hjá okkur.
Hefðirnar eru kannski meira bundnar við samveru, heimsóknir, spilakvöld og annað slíkt. Enda eru það stundirnar sem lifa í minningunni, en ekki hvort rjómaterta var á borðum eða ekki.

desember 20, 2004

Fyrir 30 árum 

Fyrir 30 árum var ég um borð í strandferðaskipi á leið frá Akureyri til Norðfjarðar. Það var eina leiðin til að komast heim í jólafrí. Við fréttum um snjóflóðin áður en við fórum til skips, en símakerfið var ekki beisið í þá daga og við náðum engu sambandi heim. Ferðin var skelfileg, veðrið slæmt og margir sjóveikir. Ég er hins vegar frekar sjóhraust og man ekki eftir að mér liði neitt illa líkamlega, en andleg líðan var skelfileg. Við vorum nokkur frá Norðfirði saman um borð og hlustuðum nákvæmlega á allar útsendingar Ríkísútvarpsins. Fréttirnar voru hræðilegar, fjölda manns saknað og svo fóru að koma fréttir af því að einhverjir hefðu fundist látnir. Samt gerði ég mér fyrst grein fyrir hvað þetta var skelfilegt þegar ég heyrði að Árni Þorsteins hefði fundist á lífi og lítið meiddur í gryfjunni fyrir neðan frystihúsið. Ég man að tilfinningin var eins og einhver hefði stungið snjókúlu á bert bakið á mér. Ég gerði mér skyndilega grein fyrir því að þeir sem fundist hefðu látnir eða væru ófundnir væru örugglega fólk sem ég þekkti, jafnvel úr minni nánustu fjölskyldu.

Mín fjölskylda slapp í þetta skiptið, en heimkoman var ekkert venjuleg. Ferðin tók 1 1/2 sólarhring og þegar ég kom í land í Neskaupstað, var mér sagt að enn væri ekki búið að opna veginn heim til mín og að ég yrði að skilja dótið mitt eftir og fara heim, sitjandi aftan við nágranna minn á snjósleða. Leiðin lá yfir flóðasvæðið þar sem alls kyns hlutir, stórir og smáir stóðu út úr snjónum, undnir, snúnir og afkáralegir. Þetta var eins og að lenda inn í mynd eftir Salvador Dali.

Ég kom heim klukkutíma eftir að rafmagnið kom, en þá var búið að vera rafmagnslaust í 2 sólarhringa og ég man ennþá hvað það var nístingskalt í herberginu mínu.
Það var gott að koma heim, en áfall að fá að vita við eldhúsborðið heima, hverjir það voru sem voru látnir, ófundnir, eða á sjúkrahúsi illa haldnir af ofkælingu. Fólk sem ég þekkti, foreldrar vina minna og vinnufélagar frá sumrinu áður voru þessum hópi.
Samfélagið var lamað af sorg. Allir sem gátu voru búnir að moka snjó, leita og finna, lífs eða liðna og halda áfram eins lengi og kraftar leyfðu. Allir búnir að bíða í ofvæni eftir að fréttum; hverjir hafa fundist, þakklæti vegna þeirra sem björguðust og sorg vegna hinna látnu.

Eins og pabbi minn sagði í dag: Þetta voru ömurleg jól !

Ég er að baka .. 

Er búin að vera í jólastússi, gjafainnkaupum og bakstri undanfarna daga. Svo hefur félagslífið verið í fjörugra lagi:
Góðir gestir úr höfuðborginni, litlu-jólin í Hallormsstaðarskóla, veisla hjá nágrönnunum, stúdentsveisla á Skriðuklaustri auk annarra hversdagslegri viðburða. Döðlubrauðið sem ég bakaði á fimmtudaginn og er ómissandi á jólunum, er að verða búið. Það þýðir einfaldlega að ég verða að baka meira fyrir jól. Þetta er svo sem skiljanlegt, því þó ég segi sjálf frá, er döðlubrauðið mitt alveg sérstaklega gott.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?