<$BlogRSDURL$>

október 20, 2006

Samfylking og efnalaug 

Ég skráði mig í Samfylkinguna á netinu um daginn en það lítur helst út fyrir að mér hafi verið hafnað. Ég fæ ekki sendan prófkjörseðil til að ég geti gert það sem var þó megintilgangur þessa verknaðar; að kjósa Jónínu Rós í prófkjörinu.
Einhver sagði mér að skráningin hafi verið "biluð" og ég hafi því hugsanlega "týnst" í kerfinu, en þetta hlýtur að flokkast undir skemmdarverk eða eitthvað enn verra. Kannski eru póstsamgöngurnar svona lélegar, kannski hefur einhver frétt af því að ég skammaðist einu sinni (eða oftar) hraustlega yfir alþingismanni Samfylkingarinnar, án þess að ég ætli að fara nánar út í það. Hvað um það, ég treð mér ekki í félög þar sem ég er ekki talin æskileg og mun því ALDREI gera aðra tilraun til skráningar í þetta félag ef þessi hefur mistekist.

Ég var að tala við vinnufélaga minn áðan sem sagði mér að annar starfsmaður fyrirtækisins væri þessa stundina að vinna í Efnalauginni á Eskifirði. Ég hváði, en fattaði svo skensið. Hann var auðvitað að vinna í sundlauginni á sama stað. Og miðað við þessa frétt er kannski rétt að fara að setja bara upp gasgrímu til öryggis, bæði á Hólmahálsi og Oddsskarði, áður en haldi er niður í "Efnafjörð" !!

október 19, 2006

Eymingjablogg 

Ég er búin að liggja í bælinu í dag og í gær - með hita, hálsbólgu og almennan eymingjaskap. Það er ekkert skemmtilegt við það. Sería 1 af LOST, sem Björninn keypti í Búlgaríu í sumar, hefur verið eina undantekningin. Ég horfði nefnilega frekar lítið á fyrstu seríuna, man ekki lengur af hverju. Það sem er sérstakt við þessa seríu er að það er hægt að fá tal á hinum ýmsu tungumálum Austur-Evrópu að ekki sé talað um alla textana sem hægt er að fá á skjáinn. Lét mér nægja ensku í þetta skiptið.
Ég hef ekki misst af neinu blíðviðri, því í gær snjóaði og rigning og rok buldi á húsinu í dag. Vonandi verður bæði heilsan og veðrið betra á morgun.

október 18, 2006

Snjór 

Það er farið að snjóa !!

október 16, 2006

Komin heim 

Við gerðum góða ferð til borgarinnar. Það er allt of langt að telja upp allt sem við tökum okkur fyrir hendur og sáum, en hér eru nokkur brot:

- Kvöldverður á Argentína
- Móttaka í þvottalaugunum
- Akstur í vetnisstrætó
- Laugavegurinn genginn fram og til baka - alla leið !
- Strætóferð upp í Salahverfi
- Ömmudagur í Hafnarfirði
- Málað, sparslað og þrifið í nýju íbúð Bjarnarins í Breiðholtinu
- Heimsókn í Hamrahlíðina
- og ýmislegt fleira.

Eitt af því sem ég lenti í var að ég hitti kunningjakonu mína og með henni var vinkona hennar sem ég hef aldrei hitt áður. Kunningjakona mín sagði henni deili á okkur og við röltum saman í áttina að þvottalaugunum. Þá spurði vinkona hennar hvort ég bloggaði. Ég gat ekki neitað því, en brá nú svolítið. Þekkir öll þjóðin mig af því ég blogga ?

Maður spyr sig !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?