<$BlogRSDURL$>

nóvember 14, 2003

Föstudagur til fjár, tjah- ég veit ekki !!
Fór á Norðfjörð að hitta minn ágæta hjartasérfræðing - ég er nefnilega ekki alveg nógu hjartagóð !! Allt í góðu með það og eftir þá heimsókn skrapp ég á Kirkjumelinn. Sat þar dágóða stund á spjalli og fór síðan heim, hlaðin ýmsu sem foreldrar mínir töldu alveg sýnt að mig og mína fjölskyldu bráðvantaði:

  • 40 flatbrauðskökur

  • jakki af stærðinni 56 (of stór á pabba, passar kannski á bóndann)

  • íslensk-dönsk orðabók eftir Sigfús Blöndal - ljósprentun (1952) af frumútgáfu 1920-1924, verðið þá 650.- kr


  • Hvað skyldi þessi bók kosta í dag - ef hún er þá yfirleitt fáanleg ??

    Er núna að fara að elda einhvern mat, síðan að pakka einhverju dóti til að hafa með mér norður á Akureyri í 25 ára saumaklúbbsafmæli með Nönnu og hinum stelpunum. OHHH- ég hlakka svooooo til !!!!

    Þangað til næst .............

    nóvember 13, 2003

    Þetta jólahjal er farið að fara verulega í taugarnar á mér. Verslanirnar eru farnar að flagga jólaskrauti, jólaskrani, jóladrasli og jafnvel jólamat. Ég var að hugsa um það áðan, þegar ég skrapp til að kaupa mér skyr og brauð til að borða í hádeginu, hvort jólaskinkan yrði ekki orðin óþarflega meyr ef maður keypti hana núna. Bragðið gæti líka orðið dálítið "öðruvísi".

    Ég er að hugsa um að hundsa allar verslanir sem eru með jóla- eitthvað fyrir 1. desember. Mér sýnist að ég geti með því sparað mér heilmikil fjárútlát, lagt af um nokkur kíló, unnið klukkutíma lengur á hverjum degi og jafnvel eru einhverjir fleiri kostir þessu samfara. Það eru nefnilega næstum allar verslanir farnar að jólast, þó enn séu rúmar 5 vikur til jóla, og ljóst að ég eyði hvorki tíma né peningum það sem eftir lifir af þessum mánuði.

    nóvember 12, 2003

    Það er búið að vera allt of mikið að gera hjá mér undanfarna daga. Ég var ekki komin heim úr vinnunni á mánudaginn þegar litli bróðir minn (sem reyndar er miklu stærri en ég) hringdi til að fá leiðbeiningar í tölvumálum. Kjaftaði við hann á leiðinni heim úr vinnunni (já, ég er með handfrjálsan búnað !) - það var ekki nóg, heldur hringdi hann aftur eftir að ég kom heim og á meðan hann var að tala við mig hringdi vinkona mín í svipuðum erindagjörðum. Hennar vandamál var hins vegar óvenju skemmtilegt og spennandi - þannig að ég fór eftir kvöldmat í að hjálpa henni. Við skelltum okkur reyndar í gufubað á eftir, rétt til að ná okkur niður. Það var fínt, nema hvað ofninn var alltaf að slá út rafmagninu og til að komast í rafmagnstöfluna, þurftum við að labba fram hjá nokkrum körlum sem voru að spila POOL. Það þýddi að við gátum ekki farið "á handklæðinu" einu saman og því varð gufubaðið í styttra lagi. Gott samt.

    Í gær fór ég á íbúaþing sveitarfélagsins og kom því ekki heim fyrr en um kl. 10 í gærkvöldi. Bakið er farið að mótmæla öllum þessum löngu setum, þannig að í dag ætla ég beint heim eftir vinnu, fara út að labba og slaka svo á þegar ég kem heim aftur.
    Kannski ég geri aðra tilraun við gufuna - hver veit !!

    nóvember 10, 2003

    Ég eldaði slátur á laugardagskvöldið. Frumburðurinn kann vel að meta heitt slátur og þess vegna hélt ég að hann væri lasinn, borðaði bara hálfan skammt - einn kepp eða svo.
    Hann hefur alltaf verið mikill matmaður - alveg frá því hann fæddist - slátur í miklu uppáhaldi alla tíð.
    Þegar hann var tveggja og hálfs árs var ég að vinna við gæslu á heimavist og þurfti stöku sinnum að taka hann með mér í vinnuna. Eitt sinn var ég með gæslu í matsalnum á kvöldmatartíma og hann fékk heitt slátur að borða inni í eldhúsi. Honum var bara skammtað á disk og settur inn í krók að borða. Eftir dálitla stund kallaði konan sem sá um matinn í mig og spurði hvort hún mætti gefa honum meira slátur - ég var svolítið hissa, og þá sagði hún: "Ja, hann er sko búinn með þrjá diska og langar í meira !!!"

    Í gær vorum við öll boðin í afmæli hjá 9 ára vini okkar - honum Gunnari Kristni. Þar var auðvitað fullt af börnum og einn guttinn sagði við annan aðeins eldri, þegar hann sá frumburðinn, þennan rúmlega tveggja metra mann: "Er hann RISI" ?

    Hinn svaraði að bragði: "Hnei, asninn þinn, hann er bara svona stór MAÐUR !"


    nóvember 09, 2003

    Skóhljóð

    Verkin mín eru
    á vogarskálum létt
    þó valdið mér hafi
    þreytu og ánægju í senn.

    Í hljómkviðu heimsins
    eru þau vart meira
    en skóhljóð síðbúins áheyranda.


    Eitt lítið úr skúffunni.

    This page is powered by Blogger. Isn't yours?