<$BlogRSDURL$>

mars 20, 2004

Systir mín, húkrunarneminn, og litla systir hringdu í morgun og boðuðu komu sína. Hjúkrunarneminn hafði nefnilega fengið það verkefni að setja upp lítinn fræðsluvef í Frontpage um eitthvert málefni á heilsugæslusviði. Það er ástæðan fyrir því að það var sett upp smá tölvuver í stofunni hjá mér, umræðurnar snerust um getnaðarvarnir, hvort hormónalykkjan ætti að flokkast sem lykkja eða hormónalyf, hvort hormónastafur væri útbreiddur o.s.frv. Efni vefsins var sem sagt: Getnaðarvarnir. Við hönnuðum og settum upp vef á mettíma. Hjúkrunarneminn verður svo að bæta við fræðsluefnið á síðunum - kjöti á beinin - á næstu dögum.

Dætur þeirra systra minna léku sér í gamla dótinu sem alltaf er til staðar frammi í geymslu, þær fóru út að leika sér og í langan göngutúr í skóginum ásamt bóndanum. Peningatréð var heimsótt og eitthvað fleira skoðað. Það er alltaf jafn mikið ævintýri að koma í heimsókn í skóginn og lítið gaman nema að komast í smá skógargöngu. Nafna mín tilkynnti mér að hún þyrfti að koma og gista einhvern tíma aftur. Hún var hjá mér í tvo daga sl. sumar og við skemmtum okkur konunglega.




mars 19, 2004

Ég var að horfa á Gettu Betur í gær, þegar bróðir minn hringdi í mig, þannig að ég sá bara byrjun og endi á þættinum. Ég verð að segja eins og er: Mér fannst úrslitin mjög góð ! MR-ingar náðu ekki einu sinni að jafna þótt Borghyltingar slysuðust til að segja rétta svarið og skiptu svo um skoðun. MR fékk svarið á silfurfati - en klúðruðu því ! Það hleypir vonandi lífi í þessa keppni að nú verða nýir sigurvegarar krýndir.
Annað sem mér fannst jákvætt var að lið ME, sem ekki komst í 8-liða úrslit, tapaði einmitt fyrir Borgarholtsskóla. Frumburðurinn var að þjálfa ME-liðið og var að vonum ánægður með úrslitin í gærkvöldi.

Talandi um fisk - ég steikti fisk skv. uppskrift Skeleggs (rasp úr Corn Flakes og kókosmjöli o.s.frv.) í gærkvöldi. Bragðaðist mjög vel og 3 meðalstór ýsuflök voru borðuð algerlega upp til agna. Eitt flak á mann, sem sagt.

mars 17, 2004

Björninn minn á afmæli í dag - 19 ára. Hann fæddist á sunnudagskvöldi og tók ekki langan tíma að koma honum í heiminn. Ég dvaldi í foreldrahúsum á Norðfirði ásamt frumburðinum og bóndanum. Ég sat í stofunni og horfði á Stundina okkar með frumburðinum þegar fyrstu stingir gerðu vart við sig. Fór strax út á sjúkrahús og klukkan tæplega hálfellefu var hann fæddur.
Stór strákur, 20 merkur og 57 sentimetrar, dökkur á brún á brá - algjör hjartaknúsari strax þá. Hann var þrefalt þyngri en lítil stúlka sem hafði fæðst tveim dögum fyrr. Hún var tæpar 7 merkur.


mars 16, 2004

Ég bið forláts - Mjallhvít hyggst taka próf í akstri hópferðabíla í dag - ekki í gær - þá var hún bara að æfa sig. Hún sleppur samt ekki við badmintontímann. Við seinkum honum bara aðeins.
Og Nanna, afmælaupptalningin hjá mér náði aðeins yfir afkomendur Stangaráshjónanna - það er því hæpið að telja þig þar með, full langsótt eða þannig.

mars 15, 2004

Mjallhvít á afmæli í dag - en Mjallhvít heitir reyndar alls ekki Mjallhvít - var bara kölluð það í MA forðum. Ástæðan hefur sennilega verið hennar síða ljósa hár, þó Mjallhvít ævintýranna hafi verið svarthærð. Ég reyndi að hringja í hana áðan, en hún var ekki heima. Elsti "dvergurinn" (hún á bara 4) tjáði mér að hún væri að taka rútupróf í dag !!
Annars er yfirstandandi mikil afmælishrina í fjölskyldu bóndans: Bróðurdóttir hans eins árs í fyrradag, systir hans á afmæli í dag, bróðir hans á morgun og svo björninn okkar á miðvikudaginn, þann 17. Mjallhvít er sem sagt enn einu sinni búin að ná bróður sínum (bónda mínum) - en þau eru jafngömul í 25 daga á ári.

mars 14, 2004

Afmælisfagnaður GKV tókst með ágætum á föstudagskvöldið eins og lesa má hér. Ég gerði hins vegar þau afdrifaríku mistök að gleyma myndavélinni heima. Gulli, gestgjafinn á Egilsstöðum, var svo vinsamlegur að taka af hópnum nokkrar myndir og verða þær settar inn á heimasíðu félagsins um leið og þær berast mér.
Það er greinilega hugur í konum - byrjað að skipuleggja gönguferð sumarsins - meiningin að fara inn í Hjálpleysu þar sem Valtýr á grænni treyju bjó í Valtýshelli. Einnig var rætt um heimsókn til Reykjavíkurdeildarinnar, en engar ákvarðanir teknar þar um.

Helgin var að öðru leyti viðburðalítil. Bóndinn skilaði sér heim síðdegis í gær, en frumburðurinn kom heim í dag. Björninn minn hringdi í mig í dag, var ákaflega sleginn, sagðist vera að verða gráhærður. Ég hélt að þetta væri bara svona myndræn líking á sálarástandinu, þar sem hann er búinn að vera í gifsi síðan í janúar og á enn eftir 2 vikur, en nei, hann sagði að hárið á sér væri farið að grána, í alvöru !
Ég gat lítið gert annað en tína fram jákvæðu hliðaðrnar: en það er samt ekki eðlilegt að vera farinn að grána á þessum aldri, hann verður nítján ára á miðvikudaginn - þessi elska !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?