<$BlogRSDURL$>

júlí 04, 2005

Ekið yfir Hallormsstaðaháls ! 

Á föstudagskvöldið fórum við í bíltúr, ókum nýja línuveginn yfir Hallormsstaðaháls á "nýja" jeppanum okkar. Með í för voru vinir okkar, Jón, Kristín og sonur þeirra Gunnar. Vegurinn var dálítð siginn og dældóttur en allt gekk þetta vel, þar til við vorum nánast komin upp á brún. Þá þurftum við að fara út úr bílnum og segja bílstjóranum aðeins til, svo hann kæmist yfir ræsi sem hafði sigið illa. Þegar við svo settumst inn í bílinn, gaus upp óþefur. Fór ekki milli mála að það sauð á bílnum. Kom í ljós þegar farið var að skoða að kæliviftan snerist alls ekki.
Nú voru góð ráð dýr, því engin voru verkfærin, varahlutir eða mælitæki. Bóndinn dó samt ekki ráðalaus, enda vélfræðimenntaður, dró hníf upp úr vasa sínum og skrúfjárn fannst líka í skottinu. Nú var farið að skera leiðslur og tengja rafmagn, til að koma viftunni í gang. Og það hafðist með þessum verkfærum, einni tengikló sem náðist af vírenda, tveimur plasteyrnapinnum sem fundust í öskubakkanum og síðast en ekki síst, einum tannstöngli. Ferðinni var svo haldið áfram eins og til var stofnað og allir komust heim, fólk og bíll. Það var hins vegar huggun harmi gegn, að við hefðum sennilega ekki verið nema hálftíma að labba heim, beinustu leið niður fjallið, ef viðgerðin hefði ekki tekist.



Ég gerði það sko ekki !! 

Ég er blásaklaus ! Ég hef ekki svo mikið sem hugsað til þess að fara að fúaverja ! Samt rignir eins og hellt sé úr fötu - meira að segja smá eldingar og sennilega einhverjar þrumur líka.
Á morgun fer ég aftur í vinnuna og þá verður þess ekki langt að bíða að það stytti upp og sólin fari að skína. Annað kvöld ætla ég svo að fara á tónleika með Valgeiri "stuðmanni" Guðjónssyni, bræðrunum frá Skorrastað og fleirum. Stendur til að slá í hópferð af Hallormsstað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?