<$BlogRSDURL$>

desember 05, 2003

Ég er búin að vera dugleg í dag - var komin í vinnuna út í Egilsstaði kl. 9, fór í sund í hádeginu, sem orðið er ómissandi hluti af deginum, vann til rúmlega hálf sex, keyrði heim, fór beint í badminton - síðan heim að mála. Kláraði eldhúsið nema smá snurfus í kringum ljósin í loftinu og á bak við rennihurðina. Reyndar eftir að þrífa af rúðum og hreinsa bletti hér og þar, en það er nú svo sem ekkert til að tala um.

Tilnefningar til bókmenntaverðlauna og tónlistarverðlauna eru á hvers manns vörum. Ég verð bara að játa að ég hef ekki lesið eina einustu þessara bóka né heyrt nokkuð af þeirri tónlist sem tilnefnd er. Skiptir sjálfsagt ekki máli með tónlistina því ég hef svo lítið vit á tónlist - segir Jón Guðmundsson - og það er satt.

Af bókmenntaverkunum er Tvífundnaland Gyrðis Elíassonar það sem mig langar mest að lesa - í rólegheitum, t.d. á sunnudagsmorgni uppi í rúmi, með kaffibolla á náttborðinu.

Klukkan farin að ganga tvö, best að fara að lufsast í rúmið, að sofa, því ég á ekkert Tvífundnaland að lesa.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?