<$BlogRSDURL$>

janúar 26, 2004

Síðdegis í gær var frumburðurinn með GB-liðið sitt á æfingu uppi í skóla. Skipulag næringarmála klikkaði eitthvað hjá þeim, þannig að ég eldaði fullan pott af hrísgrjóngraut handa liðinu. Þau komu svo og borðuðu grautinn, ásamt brauði, súrmat og samtíningi og voru bara södd og sæl þegar þau fóru. Komist þau áfram í keppninni, get ég með góðri samvisku eignað mér hluta af heiðrinum. Ef þau hins vegar tapa, er það þeim sjálfum og þjálfaranum að kenna.

Við, frumburður minn og ég, erum í dag búin að flytja hans hafurtask milli herbergja og fórum bara langt með það. Reyndar eftir að þrífa og taka til í herberginu sem hann er að fara úr, en það verður bara gert á morgun eða hinn, eða hinn. Það bíður enginn eftir því herbergi.

Bóndinn fór á Norðfjörð um miðjan dag, þurfti að "hitta mann út af hundi" og fór á fyrra fallinu til að geta horft á leikinn áður. Hann hefði nú ekki misst af miklu þó hann hefði sleppt því ! Hreinasta hörmung hvernig þessi leikur fór, já og mótið allt .
Hann fékk lánaðan bílinn minn til fararinnar og kemur ekki heim fyrr en á morgun. Þarf ég því að trekkja Volvo gamla upp í fyrramálið til að komast í vinnuna. Get ekki sagt að ég hlakki mikið til !


This page is powered by Blogger. Isn't yours?