<$BlogRSDURL$>

apríl 19, 2003

Það fer margt öðruvísi en ætlað er. Í gærkvöldi þegar synir okkar voru farnir í menninguna og skemmtanalífið og við sáum fram á rólegt og hversdagslegt kvöld heima hjá okkur - bóndinn meir að segja búinn að sofna smástund í sófanum - hringdi síminn. Í símanum var kunningi okkar, staddur inn við Snæfell og var að leita að gistingu fyrir 11 manna hóp !
Endir mála varð sá að við gátum útvegað þeim gistingu hér á staðnum, og svo sátum við þessum skemmtilega félagsskap fram eftir kvöldi. Þetta voru félagar úr Jöklarannsóknafélaginu, höfðu komið yfir Vatnajökul og voru búin að vera í tómri þoku,ekkert séð nema húddið á sínum eigin bíl og GPS-skjái. Skálinn sem meiningin hafði verið að gista í var á 2 metra dýpi, Snæfellsskáli fullur af fólki, þannig að jöklaferðin endaði í vornæturstemmingu í Hallormsstaðaskógi.

Við fengum að heyra ýmsar sögur, m.a. sögu mannsins sem keypti sér hreindýraveiðileyfi á netinu fyrir 100.000. Til þess að ná dýrinu þurfti hann síðan að fara 2-3 ferðar milli Reykjavíkur og Egilsstaða, borga sexhjól sem hann eyðilagði í einni veiðiferðinni, borga 2-3 leiðsögumönnum laun fyrir ferðalög vítt og breitt í svarta þoku og annað eftir því. En hreindýrið náðist, og núna sagðist hann ekki stinga uppi í sig bita af þessu kjöti öðru vísi en að hugsa til þess hvað kílóið væri búið að kosta - men "sådan er livet".

Þegar við vorum að rölta heim milli 1 og 2 í nótt var 12 stiga hiti og veðrið er eiginlega enn betra í dag en í gær !! HVAR ENDAR þETTA - ég bara spyr !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?