<$BlogRSDURL$>

júní 06, 2003

Sumarfríið mitt ætti að byrja núna eftir rúman klukkutíma. Mér sýnist hins vegar allt stefna í að ég verði að vinna frameftir, vinna á morgun eða að öðrum kosti mæta í vinnu eftir helgi til að klára það sem ég þarf að klára fyrir frí. Ég hef undanfarna daga verið að prófa nýjan hugbúnað sem verið er að skrifa hérna hjá okkur og tíminn hefur allt of oft farið í að bíða eftir að hinir séu búnir með sinn hluta svo ég geti byrjað á mínu. Þetta er hundleiðinlegt og mig langar mest til að segja bara: Því miður, ég er farin í frí og þið verðið að bjarga þessu einhvern veginn öðruvísi ! En, þá kemur upp einhver ábyrgðartilfinning - þó ég beri í sjálfu sér enga ábyrgð á verkinu eða framvindu þess. Þetta er bilun, held ég.

Ég var að lesa um fóbíur (sem við ættum að kalla fælni, ef við erum hörð á að nota alltaf íslensku) á vef Nönnu. Ég kannast við af eigin raun, þetta að draga það í lengstu lög að taka upp símann og hringja í einhvern. Ég þekki aftur einstaklinga sem þjást af hinu gagnstæða, eru alltaf hringjandi í tíma og ótíma út af engu. Þeirra fyrstu viðbrögð við krísum eru að rífa upp símann og hringja - bara í einhvern. Af tvennu illu vil ég heldur fóbíuna.

Ég var að kaupa mér miða á óperuna Don Giovanni - en hún verður frumsýnd á Eiðum 9. júní, annan í hvítasunnu. Þessar óperusýningar á Eiðum hafa yfir sér ótrúlegan sjarma. Ég hlusta yfirleitt ekki á óperutónlist, en þarna er alveg sérstök stemming.
Mér hefur samt verið sagt af tveimur tónlistarkennurum í einu (óæft) að ég hafi ekkert vit á tónlist. Það voru þau Jón Guðmundsson, flautuleikari, aðstoðarskólastjóri Tónskólans, leikritaskáld, fjöllistamaður og fyrrverandi barnakennari og Suncana Slamnig tónlistarkennari sem svöruðu í kór - þegar ég sagði þeim að slökkva á einhverju gargi - "Þú hefur nú ekkert vit á tónlist !!"
Þarna var ég brotin niður í einu vetfangi - sjálfstraust mitt í tónlistinni drepið niður í einu höggi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?